Mýið og maðurinn

posted in: Þingvellir | 0

Í Jarðabók Árna og Páls frá upphafi 18. aldar er mýbitið nefnt sem skaðvaldur á jörðunum Úlfljótsvatni og Kaldárhöfða, fólk haldist ekki að verki og búpeningur tapi nyt og holdum. Helsta uppvaxtarsvæði bitmýs var í Efrafalli Sogsins frá Þingvallavatni til Úlfljótsvatns. Vegna mýbitsins höfðu Grafningsjarðir við sunnanvert Þingvallavatn gjarnan selsstöðu fyrir kvíær fjarri vatninu nærri mörkum jarða í Ölfusi. Þeir búhættir, fráfærurnar, lögðust hins vegar af snemma á 20. öld en ær munu hafa haldið sig nærri fornum seljum með lömb sín.

 

Raforkuver í Soginu

Ljósifoss var virkjaður árið 1937 og vatnsborð Úlfljótsvatns hækk-að, Ýrufossvirkjun stuttu neðar hóf vinnslu 1953 og árið 1957 var hafist handa við virkjun Efrafalls, Steingrímsstöð. Fjöldi manns var þar við vinnu en hélst illa að verki vegna mývargs. Þá fyllti mýið loftsíur vinnuvéla svo þær þurfti jafnvel að hreinsa á þriggja klst. fresti. Því var gripið til þess ráðs sumarið að 1957 dreifa DDT eitri með bökkum Úlfljótsvatns norðanverðum. Sumarið eftir var dreifing DDT undirbúin betur, eitrinu blandað í díselolíu og sá lögur látinn renna niður Efrafall-ið frá upptökum þess í Þingvalla-vatni til Úlfljótsvatns. Jafnvel mun DDT einnig hafa verið sett í læki sem féllu í víkur Úlfljótsvatns norðvestanvert. Mýbit varð því lítið sem ekkert sumarið 1959 og með algjörri lokun afrennslis Efrafalls frá Þingvallavatni árin 1959-1993 varð þessi uppeldisstöð bitmýs og matarkista urriðaseiða gagnslaus. Þegar stíflan við inntaksop jarðganganna við Þingvallavatn brast þann 17. júní 1959 spilltust riðsvæði urriðans þar verulega. Það ásamt veikingu fæðukeðjunnar með útrýmingu mývargs hefur haft umtalsverð áhrif á lífríki Þingvallavatns og Sogsins. Síðustu 20 árin hefur nokkuð vatn verið látið renna frá Þingvallavatni um farveg Efrafalls og er ætlað að skapa mýlirfum lífsskilyrði þar.

Gufuaflvirkjunin á Nesjavöllum

Hitaveita var lögð frá Nesjavöllum til Reykjavíkur árið 1990 og 1998 var hafin raforkuvinnsla með jarðgufu þar. Kalt vatn er sótt í borholur við Grámel nærri bakka Þingvallavatns við Hagavík og hitað upp með jarðgufu í varmaskiptistöð. Heitt þéttivatn frá virkjuninni hefur lengstum runnið í grunna tjörn. Þar fellur það með öðru yfirborðsvatni niður í Lækjarhvarf og þaðan eftir bergsprungum undir hrauni til Þorsteinsvíkur. Inn úr Þorsteinsvík er gjásprunga sem áður kallaðist Seiðagjá. Þar er talið að volgrur hafi hitað vatnið í 8-10°C sem er kjörhiti urriða til riðunar.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Árið 2000 var hitastig í gjánni orðið 15,5°C og 27,4°C árið 2011. Urriðinn hrygnir þar ekki lengur og gjáin hefur skipt um nafn og heitir Varmagjá. Ekki mun þess hitaaukning ná mjög langt út í vatnið og lítið er enn vitað um aukningu þungmálma á útrennslissvæðinu. Um mengun vegna lofttegunda í jarðgufunni svo sem brennisteinsvetnis eru möstur Búrfellslínu talandi vitnisburður. Sá sem fer veginn frá Úlfljótsvatni til Nesjavalla getur séð það með samanburði á möstrum þeirrar sömu línu.

Eftir Björn Pálsson.

Inntaksmannvirki Steingrímsstöðvar.
Inntaksmannvirki Steingrímsstöðvar.

 

Þorsteinsvík í stefnu á Arnarfell, hús ferskvatnsholanna í stefnu á Miðfell og Lækjarhvarf við myndkant á miðri mynd.
Þorsteinsvík í stefnu á Arnarfell, hús ferskvatnsholanna í stefnu á Miðfell og Lækjarhvarf við myndkant á miðri mynd.