Stjórnarfundur 13. maí 2014

posted in: Fundargerðir 2014 | 0

Fjórði fundur í þriðju stjórn NSVE var haldinn á heimili Björns Pálssonar, Heiðarbrún 51 í Hveragerði og hófst kl. 16:00. Aðalstjórnarmenn Björn Pálsson, Eydís Franzdóttir og Ellert Grétarsson mættu en Helena Mjöll Jóhannsdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir höfðu boðað forföll vegna veikinda. Varastjórnarmenn Jóhann Davíðsson, Stefán Erlendsson og Jónas Pétur Hreinsson mættu.

Gengið var til eftirfarandi dagskrár:

  1. Stjórnarfundur settur.
  2. Undirbúningur aðalfundar.
  3. Svar við stefnu Lex-lögmannsstofu vegna ætlaðar nýrrar raflínu.
  4. Umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um undanþágu OR frá ákv. reglug. nr. 5142010.
  5. Vernd Þingvallavatns í ljósi nýjustu upplýsinga um ástand Mývatns.
  6. Önnur mál.

 

  1. Aðalfundur NSVE verði haldinn, ef unnt reynist, fimmtudaginn 22. maí nk. kl. 20:00 í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Strandgötu 50 í Hafnarfirði.
  2. Eydís Franzdóttir lagði fram ársreikning ársins 2013. Stjórnarmenn skoðuðu ársreikninginn og samþykktu til framlagningar á aðalfundi.
  3. Stefna LEX-Lögmannsstofu. Eydís og Björn fjölluðu um stöðu og ónákvæmi í framsetningu á andmælum NSVE í því máli. Sjá meðfylgjandi greinargerð.
  4. Stefán reifaði málið og eftirfarandi ályktun var samþykkt.

„Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands furða sig á því að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands (HES) skuli hafa veitt „jákvæða umsögn til tímabundinnar undanþágu frá hertum ákvæðum í reglugerð 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis [H2S]í andrúmslofti“ að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur. Mælingar sýna að styrkur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið og fer oft og langtímum saman yfir ný viðmiðunarmörk sem taka eiga gildi þann 1. júlí næstkomandi.Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur lýst þungum áhyggjum af þessari þróun og bent á að nýju viðmiðin dugi varla til. Ástandið er hvað alvarlegast í Lækjarbotnum á austurjaðri höfuðborgarsvæðisins þar sem eru starfandi bæði leik- og grunnskóli. Þá hefur bæjarstjórn Hveragerðis – en Hellisheiðarvirkjun er í túnfæti bæjarfélagsins – fordæmt hina „jákvæðu umsögn“ HES og furðað sig á því að OR skuli ekki hafa nýtt þau úrræði til mengunarvarna sem vitað er um og hafa virkað annars staðar.Rökstuðningur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir undanþágunni byggist á því að Orkuveita Reykjavíkur vinni að bættum mengunarvörnum Hellisheiðarvirkjunar og að tilraunaverkefni á vegum fyrirtækisins gefi fyrirheit um „varanlega og hagkvæma“ lausn vandans – þannig að „innan skamms“ megi „vænta þess að mengun frá virkjuninni verði undir leyfilegum mörkum skv. reglugerð.“ Í rökstuðningi sínum vísar HES einnig til þess að ekki sé komin nægileg reynsla á „áreiðanleika mælinga“ frá loftgæðamælistöðvum. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands harma þá niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að mengandi og (að öllum líkindum) heilsuspillandi starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði skuli njóta vafans á kostnað íbúa í Hveragerði og austustu byggðum höfuðborgarsvæðisins. Á meðan tilraunaverkefni OR stendur yfir – og þangað til mengunarvandinn hefur verið leystur – eru íbúar í næsta nágrenni Hellisheiðarvirkjunar eins og mýs í búri á tilraunastofu Orkuveitu Reykjavíkur. Slíkt er með öllu óviðunandi!”

  1. Björn vakti athygli á orðnu tjóni á náttúrufari Mývatns og nauðsyn þess að standa þétt vörð um verndun Þingvallavatns. Á Þingvallamálstefnunni, sem haldin var 3. apríl 2013, komu fram vandaðar upplýsingar um stöðu mála við Þingvallavatn og þá fjölmörgu þætti mannlegra framkvæmda sem ógna náttúru þess. Aukin umferð bifreiða um hraunið norðan vatnsins og hinir fjölmörgu sumarbústaðir sem fæstir hafa rotþrær sem standast lágmarkskröfur ógna vistkerfi vantsins. Þá má einnig nefna frárennsli Nesjavallavirkjunar o.fl. Augljóslega verður að bregðast rösklega við nú þegar ef við viljum koma í veg fyrir að litur og lífríki Þingvallavatns breytist verulega á næstu árum. Í Fréttabréfi NSVE 2. tbl. 3. árg. er fjallað um Þingvallamálstefnuna og birtur greinaflokkur um Þingvallavatn og umhverfi þess.
  2. Önnur mál: a) Jónas leggur til að settar verði saman upplýsingar til að senda á sveitarstjórnir og fyrirtæki á Suðvesturlandi til að vekja athygli á CO2 mengun og afleiðingum hennar. Þar er bæði átt við um loftgæði og síðan einnig þá staðreynd að CO2 mengun er völd að aukinni súrnun sjávar sem dregur úr fjölbreytileika lífríkis og skapar hættu á að aðal auðlind Íslands muni verða fyrir slíku tjóni að ekki verði hægt að lifa af henni. Stjórnin tók vel í þessar hugmyndir Jónasar og fól honum nánari útfærslu þeirra. b) Jónas og Jóhann bentu á gáleysislega umgengni verktaka við náttúruminjar og jafnvel fornminjar við Sveifluháls og Kleifarvatn svo sem berggang í Vatnsskarði og Innri-Höfða. c) Jóhann benti á möguleika þess að næsti stjórnarfundur NSVE yrði haldinn á fjórum hjólum t.d. í för um Kleifarvatn til Grindavíkur með viðkomu í Herdísarvík og var þeirri hugmynd vel tekið af núverandi stjórn.

Fleira ekki fært til bókar. Fundi slitið kl. 18:00

Björn Pálsson, ritari