Fyrsti fundur í þriðju stjórn NSVE var haldinn á heimili Helenar Mjallar, formanns, Austurvegi 29b í Hafnarfirði, föstudaginn 13. sept. 2013. Mættir voru allir aðalstjórnarmenn þau Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Björn Pálsson og Ellert Grétarsson og varastjórnarmennirnir Jóhann Davíðsson, Stefán Erlendsson og Jónas Pétur Hreinsson.
Gengið var til eftirfarandi dagskrár:
1) Fundur settur, stjórnin skiptir með sér verkum og fundargerð aðalfundar lesin og undirrituð.
2) Gálgahraun, – mótmælaganga n.k. sunnudag o.fl.
3) Staða raflínumála.
4) Rammaáætlunin, – ný ríkisstjórn?
5) Staða mála, – verkefnin framundan.
6) Önnur mál.
1. Helena Mjöll, formaður, setti fund og annaðist fundarstjórn. Verkaskipting aðalstjórnar var ákveðin þessi: ritari Björn Pálsson, gjaldkeri Eydís Franzdóttir og varaformaður Ellert Grétarsson. Björn Pálsson lagði fram fundargerð aðalfundar frá 18. apríl 2013, hún yfirfarin, samþykkt og undirrituð af öllum stjórnarmönnum.
2. Gálgahraun: Andmæli stjórnar vegna ætlaðrar vegagerðar í Gálgahrauni voru rædd og staðfest (sjá fylgiskjal í möppu). Stjórnarmenn lýstu undrun sinni á þeirri afstöðu lögreglustjóra, að viðurkenna ekki kærurétt NSVE, sem talið var að fælist í viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á Árósasamþykktinni. Talið er nauðsynlegt að fá úr þessu skorið fyrir dómi. NSVE hefur ekki fjárhagslega getu til þess að standa undir þeim kostnaði. Þeir sem vilja styðja þá málssókn geta lagt frjáls framlög inn á bankareikning í Landsbankanum í Hafnarfirði. Númerið er 140 – 05 – 71017 og kennitala 480207-1490.
3. Staða háspennuraflagna: Eydís gerði grein fyrir stöðu raflínumála þar sem tekist er á við þá stefnu Landsnets að fá að leggja nýja loftlínu en ekki jarðstreng. Ágreiningur er m.a. um ætlaðan kostnaðarmismun. Þau mál eru nú í höndum lögfræðinga.
4. Rammaáætlun: Rætt var um þá furðulegu afstöðu Landsvirkjunnar og nýrra ráðherra umhverfis- og iðnaðarmála til verndunarákvæða Rammaáætlunar sem fram kemur í afstöðu þeirra til Norðlingaölduveitu. Ef verndarflokkurinn á að vera háður persónulegum duttlungum sitjandi ráðherra á hverjum tíma hlýtur nýtingarflokkurinn að vera undir sömu sök seldur. Því er full ástæða fyrir því að stjórn NSVE taki til athugunar að krefjast þess að háhitasvæði í nýtingarflokki á Reykjanesskaga verði færð í bið- eða verndarflokka. Reynslan af ótrúlegum mistökum við gerð Hellisheiðarvirkjunar og óleystum mengunarmálum er sönnun þess að mistök hafi verið að setja nokkur áður óvirkjuð svæði á Reykjanesskaga í nýtingarflokk.
5. Staða mála, – verkefnin framundan: Stjórnin telur að ofanskráðir málaflokkar verði aðalverkefni NSVE á komandi vetri. Þá má líka benda á að NSVE verður að fylgjast vel með því að betur verði staðið að umgengni um fagra og viðkvæma náttúru. Véltæki s.s. fjór- og torfæruhjól eru í stöðugt vaxandi mæli notuð til ferðalaga og jafnvel smalamennsku. Þá eru reiðhestar einnig orðnir vinsæl farartæki ferðamanna. Allt þetta kallar á að skipulagsyfirvöld s.s. sveitarstjórnir standi betur að málum. Allt of oft gerist það að slóðir verða til fyrir tilviljanir einar samar og ekkert er gert til úrbóta fyrr en í óefni er komið (sjá lið 6).
6a) Jónas Pétur fjallaði lítillega um JARÐVANGS-hugmynd Grindavíkurbæjar. Þá gerði hann grein fyrir baráttu sinni gegn óhóflegri notkun fjórhjóla við flutning ferðamanna í næsta nágrenni Grindavíkur. Þar virðast slóðir lagðar án nokkurs skipulags. Hann hefur átt í nokkrum bréfaskrifum þar um og sett upplýsingar ásamt myndum á facebook (sjá fylgiskjöl í möppu og tölvu PDF-skjal). Jónas hefur og vísað málinu til Umhverfisstofnunar.
6b) Björn gerði grein fyrir uppgjöri kostnaðar NSVE við Pétur M. Jónasson vegna Þingvallamálstofunnar og las úr þakkarbréfi hans (sjá fylgiskjöl í möppu).
Fleira ekki fært til bókar: fundurinn hófst kl. 14:30 og lauk kl. 16:45.
Fundargerð skráði Björn Pálsson, ritari