Fimmti fundur í annarri stjórn NSVE haldinn á heimili Eydísar Franzdóttur að Landakoti á Vatnsleysuströnd miðvikud. 14.11. 2012 og hófst hann kl. 17:10.
Allir stjórnarmenn mættu bæði aðal- og varamenn nema Jóhannes Ágústsson formaður sem er á sjúkrahúsi vegna alvarlegra veikinda. Stjórnarmenn NSVE senda honum bestu stuðningskveðju með ósk um skjótan bata.
Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:
1) Rammaáætlunin og afstaða NSVE til hennar:
2) Málstefna um Þingvallavatn.
3) Ætlaðar gufuaflsvirkjanir í Krýsuvík og Eldvörpum:
4) Flutningslínur raforku,- loftlínur eða jarðstrengir:
5) Önnur mál
1) Rammaáætlunin og afstaða NSVE til hennar:
Stjórn NSVE telur ekki rétt að setja nokkurt jarðhitasvæði í nýtingarflokk til gufuaflsvirkjana raforku nú. Fyrir þeirri afstöðu liggja meðal annars þessi atriði. Nýlega birt skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sýnir ljóslega hversu gáleysislega hefur verið staðið að gerð Hellisheiðarvirkjunar. Vegna ágengrar vinnslu er óvíst að orkunáman þar endist til langtíma vinnslu og verði jafnvel þorrin innan 40 ára. Niðurrennsli þéttivatns við Húsmúlann hefur komið fjölmörgum smáum jarðskjálftum af stað og áhrif á aðliggjandi svæði þar, sem stærri skjálftar hafa orðið, óþekkt. Þá er einnig óvissa um möguleg áhrif niðurrennslisins á neysluvatnsból nálægra byggða. Árið 2014 ganga í gildi hertar mengunarreglur og á síðasta aðalfundi OR kom fram að sennilega þyrfti OR að fá undanþágu frá þeim reglum allt til ársins 2020. Erfiðasta óleysta vandamálið eru eitraðar lofttegundir svo sem brennisteinsvetni. Tæring á mannvirkjum svo sem háspennumöstrum er auðsæ en þau vandamál eru þó léttvæg miðað við hugsanleg áhrif á heilsufar manna. Ný rannsókn gefur vísbendingu um auknar líkur á krabbameini þeirra sem búsettir eru á eða í nágrenni háhitasvæða. Sú rannsókn byggir hins vegar á svo þröngum grunni að ýtarlegri rannsóknir eru nauðsynlegar. Í andmælum vegna ætlaðra virkjana á Hengils- og Hellisheiðarsvæðum dags. 28.09. 2009 var bent á þennan vanda og vitnað til alþjóðlegra rannsókna í Nýja-Sjálandi og Finnlandi sem gæfu m.a. vísbendingar um aukningu öndunarfærasjúkdóma og styttri líftíma þeirra sem byggju lengi á svæðum með lágan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Ný íslensk skýrsla um aukna notkun asmalyfja einkum í hópi eldra fólks í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar bendir til aukningu öndunarfærasjúkdóma sem innöndun á brennisteinsvetni í lágum styrk kann að valda. Allt þetta kallar á auknar rannsóknir á þessum sviðum og heilsa og lífslíkur fólks verða að njóta vafans. Það er því kaldhæðnislegt að kalla eftir fjármagni lífeyrissjóða til bygginga slíkra orkustöðva einkum ef horft er til þess að mengun frá þeim kann að stytta líftíma þeirra sem framlög lífeyrissjóðanna eiga að tryggja notalegt ævikvöld. Ætlaðar gufuaflsrafvirkjanir verði því settar í bið- eða verndarflokk.
2) Málstefna um Þingvallavatn:
Málstefnan verður haldin í fundarsal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, Reykjavík, miðvikudaginn 3. apríl, hefst kl. 14:00 og lýkur eigi síðar en kl. 17:00.
Dagskráin verði þessi:
1) Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður: Inngangserindi.
2) Margrét Sveinbjörnsdóttir/Guðrún Ásmundsdóttir: Búseta og listir.
3) Hilmar J. Malmquist líffræðingur: Efnafræði vatnsins,- fyrirlestur.
4) Margrét Sveinbjörnsdóttir/Guðrún Ásmundsdóttir: Búseta og listir.
Stutt hlé.
5) Sigrún Helgadóttir líffræðingur: Þjóðgarðurinn Þingvellir,- fyrirlestur.
6) Margrét Sveinbjörnsdóttir/Guðrún Ásmundsdóttir: Búseta og listir.
7) Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur: Jarðminjar,- fyrirlestur.
Gert er ráð fyrir að inngangserindið taki fimm mínútur, millileggið Búseta og listir 3×10 mínútur og fyrirlestrar 3×30 mínútur. Stuttar fyrirspurnir verða heimilaðar í lok hvers fyrirlestrar.
Pétri M. Jónassyni, vatnalíffræðingi verði boðið að sitja þingið sem heiðursgestur.
3) Ætlaðar gufuaflsvirkjanir í Krýsuvík og Eldvörpum:
Í upphafi var Ellert Grétarssyni þakkað ágætt myndband hans um Eldvörp sem birt var á netinu. Fram kom eindregin andstaða stjórnar NSVE við að Eldvörp og Krýsuvík fari í nýtingarflokk rammaáætlunar. Það valdi miklum óafturkræfum skemmdum á náttúrufari og gildi það ekki síður um heimildir til tilraunaboranna heldur en endanleg leyfi til orkuvinnslu. Um hugsanleg áhrif á heilsu manna vísast til þess sem fram kemur í fyrsta lið fundargerðarinnar.
4) Flutningslínur raforku,- loftlínur eða jarðstrengir:
Eydís sagði frá því að nú, eftir andmæli norðlenskra bænda og jarðeigenda gegn nýrri loftlínu frá Blönduvirkjun, væru í undirbúningi stofnun landsamtaka gegn loftlínum. Eydís sótti fund um málið norður í Öxnadal þar sem kom fram kröftug samstaða landeigenda þar og í Sveitarfélaginu Vogum gegn áformum Landsnet hf. við að reisa loftlínur yfir eignalönd bænda sem skaða stórlega bæði ásýnd lands og nýtingarmöguleika. Á fundinum komu m.a. fram upplýsingar úr tveimur nýlegum erlendum skýrslum: Skýrslu breska ráðgjafarfyrirtækisins PARSONS BRINCKERHOFF frá janúar 2012 – Electricity Transmission Costing Study og óháðri evrópskri skýrslu – REALISEGRID, sem kom út árið 2011. Þar kemur fram að kostnaðarmunur jarðstrengja og loftlína er mun minni en fulltrúar Landsnets hf. hafa haldið fram. Skýrslurnar má finna á: www.oxnadalur.is/?page_id=447 Sameiginlega hafa landeigendur barist fyrir því að fá fulltrúa í jarðstrengjanefnd Alþingis, sem mótvægi gegn fulltrúa stærsta hagsmunaaðilans, Landsnets hf. Sú krafa hefur gengið eftir og hefur Ólafur Valsson eigandi Hóla í Öxnadal tekið að sér að vera fulltrúi þeirra í nefndinni. Landeigendur í sveitarfélaginu Vogum hafa einnig skorað á bæjarstjórn Voga og umhverfisráðherra að afturkalla aðalskipulag sveitarfélagsins vegna fyrirfram gerðs samnings við Landsnet hf. og þess að hans vegna var umsagnarferli raflína við gerð aðalskipulagsins brot á skipulagslögum. Kæruferli vegna þessa er einnig í athugun.
5) Önnur mál:
Undir þeim lið var m.a. rætt um nauðsyn þess að ná betur athygli fjölmiðla og láta meira að sér kveða á þeim vettvangi. Fram kom hjá Guðrúnu Ásmundsdóttur að samkoma í Herdísarvík til minningar um Einar Benediktsson og Hlín Johnson muni frestast til næsta árs. Þar yrði einnig bent á nauðsyn verndunar húsa og umhverfis í Herdísarvík. Þá var ákveðið að Stefán Erlendsson yrði Jóhanni Davíðssyni til aðstoðar við könnun á lögformlegum kærurétti NSVE ef Jóhannes formaður nær ekki bata.
Næsti stjórnarfundur verður haldinn á heimili Björns Pálssonar Heiðarbrún 51, Hveragerði, miðvikudaginn 16. janúar 2013 og hefst kl. 17:00.
Fleira ekki fært til bókar. Stjórnarfundi slitið kl. 19:15
Fundargerð skráði Björn Pálsson, ritari.
Ath. Jóhannes Ágústsson formaður NSVE lést fimmtudaginn 15. nóv. 2012.