Stjórnarfundur 16. janúar 2013

posted in: Fundargerðir 2013 | 0

Sjötti fundur í annarri stjórn NSVE var haldinn á heimili Björns Pálssonar, Heiðarbrún 51 Hveragerði, miðvikudaginn 16. 01. 2013 og hófst hann kl. 17:00.

Mætt voru: Eydís Franzdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Björn Pálsson, Jóhann Davíðsson, Ellert Grétarsson og Stefán Erlendsson. Helena Mjöll Jóhannsdóttir formaður boðaði forföll en hafði sent tillögu að dagskrá með fundarboði.

Þá var gengið til eftirfarandi dagskrár:

1) Jóhannes Ágústsson,- minning

2) Kvikmynd Ellerts Grétarssonar

3) Staða raflínumála á Vatnsleysuströnd og félagatal NSVE

4) Rammaáætlunin og pólitísk staða þeirra mála að henni samþykktri

5) Þingvallamálstefnan og staða náttúruverndarmála í Ölfusi og nágrenni

6) Önnur mál.

1) Stjórnin minntist Jóhannesar Ágústssonar heitins með virðingu og þökk.

2) Ellert Grétarsson gerði grein fyrir heimildarkvikmynd þeirri sem hann hefur gert um nú ætluð virkjanasvæði innan Reykjanesfólksvangs.  Myndin sem ber heitið „Krýsuvík – Náttúrufórnir í fólkvangi” var sýnd í Norræna húsinu að kvöldi 10. janúar og var fullt þar út úr dyrum. Ellert vinnur nú að lokafrágangi á myndinni og vonast er til að Sjónvarpið taki hana til sýninga. Að öðrum kosti verður henni dreift eftir öðrum leiðum, s.s. á samfélagsmiðlum eins og YouTube. Aðrir stjórnarmenn þökkuðu Ellert þetta ágæta verk hans.

3) Eydís gerði grein fyrir stöðu raflínumála á Vatnsleysuströnd eftir að meirihluti sveitarstjórnar Voga hefur vikið frá andstöðu sinni við nýjar loftlínur. Landeigendur standa fast á rétti sínum um að hafna loftlínum yfir lönd sín með tilheyrandi landspjöllum og undirbúa varnarbaráttu gegn veitingu framkvæmdarleyfis. Hafa þeir ráðið Karl Axelsson, sem talinn er einn færasti lögfræðingur á sviði eignarréttar, til málsins. Eydís skýrði einnig frá stöðu mála jarðstrengjanefndar Alþingis en þar eiga landeigendur fulltrúa. Nefndin áætlar að skila niðurstöðu sinni í lok janúar og binda andstæðingar háspennulína miklar vonir við að með niðurstöðu nefndarinnar verði möguleikar á lagningu jarðstrengja skoðaðir til jafns við háspennulínur.

Mikið hefur verið um skráningar nýrra félaga í NSVE að undanförnu en núna vikuna eftir að mynd Ellerts um Krýsuvík var sýnd hefur félagsmönnum fjölgað um 18. NSVE félagar eru nú 170.

4) Nokkuð var rætt um nýsamþykkta rammaáætlun og slæma niðurstöðu hennar einkum á svæðinu frá Krýsuvík til Reykjaness. Það er niðurstaða stjórnar að beita verði öllum mögulegum ráðum til þess að tefja og stöðva virkjanir þar svo sem í Eldvörpum og við Krýsuvík. Yfirlýsingar hafa komið frá stjórnum háhitaraforkuvera um að undanþágur þurfi að fást allt til ársins 2020 eða lengur frá þeim reglum um mengunarvarnir, sem taka gildi árið 2014. Í ljósi þessa telur stjórn NSVE fráleitt að fleiri slíkar virkjanir verði heimilaðar fyrr en lausnir hafa fundist sem tryggja að heilsu íbúa nágrannabyggða sé ekki hætta búin. Þá er það einnig illþolanlegt hversu tilrauna- og rannsókna-verkefnin valda miklum náttúruspjöllum með þeirri tækni sem nú er notuð á því sviði.

5) Björn sagði frá fundi hans með Ingibjörgu Elsu, formanni Náttúruverdarsamtaka Suðurlands, um Þingvallamálstefnuna. Dagskrá, ætluð þessi, send flytjendum:

1) Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður: Inngangserindi.

2) Margrét Sveinbjörnsdóttir/Guðrún Ásmundsdóttir: Búseta og listir.

3) Hilmar J. Malmquist líffræðingur: Efnafræði vatnsins,- fyrirlestur.

4) Margrét Sveinbjörnsdóttir/Guðrún Ásmundsdóttir: Búseta og listir.

Stutt hlé.

5) Sigrún Helgadóttir líffræðingur: Þjóðgarðurinn Þingvellir,- fyrirlestur.

6) Margrét Sveinbjörnsdóttir/Guðrún Ásmundsdóttir: Búseta og listir.

7) Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur: Jarðminjar,- fyrirlestur.

Gert er ráð fyrir að inngangserindið taki fimm mínútur, millileggið Búseta og listir    3×10 mínútur og fyrirlestrar 3×30 mínútur. Stuttar fyrirspurnir verða heimilaðar í lok hvers fyrirlestrar. Pétri M. Jónassyni, vatnalíffræðingi verði boðið að sitja þingið sem heiðursgestur. Til fyrirlesara: Heiti fyrirlestur og megin þema (Stutt lýsing). Samþykki dagskrár og tímalengdar. Millilegg: Margrét/Guðrún efni og lesarar.

6) Nokkuð var rætt um þau skammtíma hagnaðarsjónarmið sem virðast ráða miklu við undirbúning og ákvörðun um gerð virkjana. Mörg augljós dæmi eru þess að staðsetning virkjunar innan marka sveitarfélags og von um tekjur þar af virðast hafa afgerandi áhrif á afstöðu sveitarstjónarmanna á sviði skipulagsmála og náttúruverndar. Önnur skipan tekna af þessum virkjunum eða um ákvarðanir á sviði skipulagsmála kann því að vera  nauðsynleg þegar horft er til framtíðar.

7) Næsti fundur verður hjá Guðrúnu Ásmundsdóttur þann 27. febrúar kl. 17:00.

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 19:15.

Fundargerð skráði Björn Pálsson ritari.