Stjórnarfundur 20. janúar 2012

posted in: Fundargerðir 2012 | 0

Fundur í stjórn NSV haldinn á heimili ritara að Heiðarbrún 51 í Hveragerði þann 20. jan. 2012. Allir stjórnarmenn voru mættir nema Ellert Grétarsson sem hafði boðað forföll

Formaður setti fund kl. 16:30 og gat um erfiðan sjúkdóm sem hann ætti nú við að stríða.

Í ljósi þess var ákveðið að beina ýmsum verkefnum meira til annarra stjórnarmanna og að Ellert kynnti stefnumál NSV ítarlega á vettvangi fjölmiðla. Þá var gengið til dagskrár:

1) Rammaáætlunin: Eydís gerði grein fyrir viðræðum sínum og Jóhannesar formanns við framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri grænna og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur alþingismann. Bæði hefðu þau lýst yfir þakklæti með stofnun NSV og verið jákvæð gagnvart stefnumálum þeirra samtaka. Jóhannes hafði einnig rætt málið lítilega við umhverfisráðherra á óformlegum fundi þeirra. Helena Mjöll hefur og ætlar að hafa samband við þingmenn Samfylkingarinnar o. fl. Þar í hópi eru ýmsir sem virðast ekki hafa náttúruvernd ofarlega á forgangslista. Jóhannes hefur samið bréf sem ætlað er að senda öllum þingmönnum. Uppkast þess bréfs hefur farið í tölvupósti á milli stjórnarmanna NSV. Þá mun Björn hafa forgöngu  um að reyna að fá ýmis félög í náttúruvernd og ferðamennsku á landsvísu til stuðnings stefnumála NSV og einnig önnur félög á svæðinu.

2) Krýsuvíkurför 8. janúar 2012 heppnaðist vel og stjórnin þakkaði  Helenu Mjöll fyrir aðkomu hennar að því máli f.h. stjórnar NSV.

3) Erfðabreyttar lífverur: Rætt um tilraunir með erfðabreyttar lífverur á Íslandi og þá hættu sem íslenskri náttúru kann að stafa af ræktun þeirra. Fram kom að mikil andstaða er í ríkjum Evrópu við þessari starfsemi og jafnvel einstök fylki Bandaríkja Norður-Ameríku eru farin að spyrna þar við fótum. Þá var fjallað sérstaklega um það starfsleyfi sem Orf-líftækni hf. hefur fengið frá Umhverfisstofnun til slíkrar ræktunar í einu gróðurhúsi að Reykjum í Ölfusi.

Eftirfarandi samþykkt var gerð:

Stjórn Náttúruverdarsamtaka Suðvesturlands lýsir yfir stuðningi við þau andmæli, sem  samtök og fyrirtæki á sviði náttúruverndar og heilsuræktar hafa þegar sent frá sér til Umhverfisstofnunar, Umhverfisráðuneytis, Landbúnaðar- og Sjávarútvegsráðuneytis og Mennta- og menningarmálaráðuneytis, og kröfu þeirra um afturköllun leyfis Orf-líftækni hf. til að rækta erfðabreytt bygg til lyfjagerðar í gróðurhúsi Landbúnaðarháskólans að Reykjum. Stjórn NSV vill undirstrika sérstaklega hversu varhugavert er að leyfa slíka starfsemi að Reykjum í Ölfusi. Þaðan falla öll vötn til Varmár í næsta nágrenni og vatn frá henni dreifist um víðáttumikið engjasvæði s.s. í Arnarbælis-forum og -engjum. Þar er sérstætt gróður- og fuglalíf sem ber að vernda enda hefur Sveitarfélagið Ölfus ítrekað gert kröfur um verndun Varmár.  Erfðabreyttar lífverur, sem þar næðu fótfestu, gætu orðið erfiðar viðfangs. Reynslan og nýorðnir atburðir sýna að svokallaðar öruggar varnir duga oft skammt og fullyrðingar um skaðleysi reynast hjóm eitt. Á Hvergerðis- og Reykjasvæðinu eru oft jarðskjálftar, hverir hverfa og koma upp á nýjum stöðum,- jafnvel í miðjum húsum. Gálausar gerðir nútíðar í einhverri von um skammtíma hagnað geta valdið komandi kynslóðum miklu tjóni. Er það okkar vilji um framtíð afkomenda okkar?

4) Ætlað er að næsti stjórnafundur verði í Keflavík föstudaginn 23. mars kl. 15:00 og aðalfundur hugsanlega þriðjudagskvöldið 17. apríl í Reykjavík eða Hafnarfirði.

 

Fleira ekki fært til bókar.  Stjórnarfundi slitið kl. 18:30.

Fundargerð skráði Björn Pálsson ritari.