Stjórnarfundur 21. febrúar 2014

posted in: Fundargerðir 2014 | 0

Stjórnarfundur haldinn í Landakoti á Vatnsleysuströnd kl. 15.

Mættir voru Helena Mjöll Jóhanssdóttir, Ellert Grétarsson, Eydís Franzdóttir, Jóhann Davíðsson og Jónas Pétur Hreinsson.

Dagskrá:

1. Eldvörp.

Ellert og Jónas Pétur hafa unnið að gerð athugasemda vegna frummatsskýrslu um tilraunaboranir í Eldvörpum en hún liggur fyrir til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. Greindu þeir fundarmönnum frá þeirri vinnu. Jónas sagði m.a. frá upplýsingaöflun sinni sem snýr að mengun jarðvarmavirkjana í samanburði  við aðra orkugjafa, s.s. jarðefnaeldsneyti. Þá fór Jónas yfir upplýsingar um vinnslugetu í Svartsengi sem sögð er vera á 100% afköstum en raunin er að virkjunin er einungis keyrð á um 75% afköstum. Þær upplýsingar eru greinilega ekki réttar eins og kynnt var á fundi í Grindavík á dögunum og vinnslan því ekki sjálfbær.

Rætt var um leiðir til að koma þessum upplýsingum á framfæri við almenning.

2. Línumálin.

Eydís fór yfir stöðu mála. Beðið er úrskurðar iðnaðarráðuneytis hvað varðar eignarnámsbeiðni Landsnets.  Verið er að vinna að kæru til dómstóla.  Eydís greindi frá námskeiði sem hún sótti nýlega á vegum Endurmenntunar Háskólans þar sem fjallað var um jarðstrengjalagnir. Ljóst er að Landnet stendur frammi fyrir því að upplýsingar um þessi mál eru ekki lengur einhliða, framleiddar og mataðar af fyrirtækinu, og er það jákvæð þróun.

3. Gálgahraun.

Helena Mjöll fór yfir baráttuna en staða málsins hefur lítið breyst að undanförnu. Málinu er haldið til streitu þótt brekkan sé brött.

4. Önnur mál.

Almenn umræða um punkta sem Björn Pálsson lagði fyrir fundinn.

Einnig var rætt um verkaskiptinu í stjórninni  og voru fundarmenn sammála um hún hafi  komið vel út. Erfitt sé fyrir stjórnarmenn að setja sig algjörlega inn í öll mál. Sumir séu „á heimavelli“ í ákveðnum málum og stjórnin geti treyst þeim til að leiða umræðuna í þeim.

Rætt var um aukningu ferðamanna sem hefur í för með sér aukið álag á viðkvæma náttúru, t.d. á dalina norðan Hveragerðis, eins og fram kemur í minnispunktum Björns.

Ljóst er að aðgerðir til að mæta þessari aukningu eru orðnar aðkallandi víða um land og því sætir það furðu stjórnar NSVE að á sama tíma skuli svokallaður umhverfisráðherra setja allar friðlýsingar í salt og fækka landvörðum.  Sú skammsýni sýni best hug núverandi stjórnvalda til náttúruverndar.  Stefnan virðist vera sú að mjólka kúna eins og hægt er án þess að fóðra hana.

Rætt var um að koma gönguferðum NSVE aftur á legg með hækkandi sól. Hafa þær þá frekar fleiri með færri þáttakendum til að auðvelda skipulag og utanumhald. Ellert og Jóhann ætla að skoða þessi mál.

Að lokum var rætt um næsta aðalfund og ákvaðið að halda hann um miðjan apríl. Nánari dagsetning ákveðin síðar.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Ellert Grétarsson, fundarritari.