Stjórnarfundur 25. nóv. 2011

posted in: Fundargerðir 2011 | 0

Fundur í stjórn NSV haldinn á heimili gjaldkera að Landakoti á Vatnsleysuströnd þann 25. nóv. 2011.

Formaður setti fund kl. 15:oo og síðan var gengið til dagskrár.

1)  Aðgerðir í Krýsuvík 8. janúar 2012: Helena Mjöll reifaði málið um hugsanlega aðkomu NSV að þeim atburði sem er í tilefni þess að þann eru 100 ár liðin frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings. Stjórn fól Helenu Mjöll að vinna að því máli í samvinnu við önnur félög og áhugamenn. Stefnt verði að því að árið 2012 verði nýtt til að heiðra minningu Sigurðar.

 2)  Suðvesturlína: Eydís gerði grein fyrir málinu sem hefur verið tölvert til umræðu hjá opinberum aðilum að undanförnu. Hún telur mikla nauðsyn að fá fleiri sveitarstjórnir að málinu og þá einkum bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem á þar mikilla hagsmuna að gæta. Jóhannes formaður mun fylgja málinu eftir þar.

 3)  Deiliskipulag Suðurnesja: Ellert lýsti stöðu mála. Hann lagði fram andmæli f. h. NSV fyrir auglýstan lokafrest þann 17. nóv. 2011.

 4)  Rammaáætlun og athugasemdir þar um: Jóhannes formaður gerði grein fyrir því máli og gat þess að sjö athugasemdargreinar hefðu borist þar um frá NSV og stjórnarmönnum þeirra samtaka. Auk þess hefðu borist fleiri athugasemdir um það svæði frá sveitarstjórnum og fleiri aðilum.

Ákveðið var að senda bréf til allra þingmann í þeim fjórum kjördæmum sem skilgreint umráðasvæði NSV nær yfir. Þar yrði hlutverk  og stefnumið NVS kynnt og kvatt til aðildar að þeim samtökum. Einnig yrðu bréf send til  kjörinna sveitarstjórnamanna og fulltrúa í skipulagsnefndum sveitarstjórna á svæðinu.

 5)  Borgarafundurinn í Hveragerði og ylræktarver við Hellisheiðarvirkjun. Björn gerði stuttlega grein fyrir fundinum sem um 30 manns sóttu. Ylræktarverið taldi hann að væri enn á sviði „loftkastala“ og því ekki tímabært að fjalla þar um.

 6)  Árósasamningurinn: Jóhannes sagði frá fundi Hraunavina þar sem sá samningur var til umræðu. Sá samningur hefur nú verið fullgiltur hér á landi. Jóhannes lýsti samnignum og gerði grein fyrir þremur meginstoðum hans.

 7)  Samþykkt var að sækja um formlega aðild að Landvernd. Skráðir félagar eru nú nærri 90 og gjaldkeri mun hefja innheitu árgjalda félagsmanna með netbréfi fljótlega.

 8)  Rætt var um öflun nýrra félaga, notkun fésbókar og gerð heimasíðu sem Ellert mun annast. Þá var einnig ákveðið að senda félögum 3-5 fréttabréf árlega. Þau yrðu send á netinu nema til þeirra sem engin netföng hafa.

 9)  Önnur mál: a) Formaður taldi að starfsmaður í hálfri stöðu væri æskileg framtíðarsýn samtakanna. b) Bent var á mikla fjölgun ferðamanna um vetur á svæðinu og ýmislegt væri í gangi  til að styrkja þá þróun. e) Þá kom til umræðu,-Stjórnunaráætlun fyrir Reykjanesfólkvang unnin af starfsmönnum VSÓ RÁÐGJAFAR. Sjá fylgiskjl í möppu.

 

Fleira ekki fært til bókar. Stjórnarfundi slitið kl. 17:00.

Fundargerð skráði Björn Pálsson, ritari.