Stjórnarfundur 27. feb. 2013

posted in: Fundargerðir 2013 | 0

Sjöundi fundur í annarri stjórn NSVE var haldinn á heimili Guðrúnar Ásmundsdóttur, Grandavegi 36 í Reykjavík, miðvikudaginn 27.02. 2013 og hófst hann kl. 17:00.

Mætt voru: Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Björn Pálsson, Jóhann Davíðsson og Ellert Grétarsson. Stefán Erlendsson hafði boðað forföll og mætti ekki.

Gengið var til eftirfarandi dagskrár:

1) Þingvallamálstofan

2) Staða raflínumála á Vatnsleysuströnd

3) Fólkvangur – Jarðvangur

4) Önnur mál

1) Þingvallamálstofan: Björn Pálsson gerði grein fyrir stöðu mála. Sú breyting er þar helst að Haraldur Sigurðsson mætir ekki en Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands mun flytja hið jarðfræðilega lokaerindi. Þá hefur Pétur M. Jónasson boðað komu sína og óskar þess að fá að flytja stutt ávarp. Björn taldi að nú þegar aðeins rúmur mánuður er til stefnu þyrfti að hefja markvissan undirbúning og kynningu.

2) Staða raflínumála á Vatnsleysuströnd: Eydís Franzdóttir fjallaði um nýjustu aðgerð Landsnets á þeim vettvangi það er að óska heimildar eignarnáms hjá þeim landeigendum sem ekki vilja semja um land undir ætlaða loftlínu. Fram kom að eigendur sumra jarða eru fjölmargir og margir þeirra ósáttir við nýja loftlínu rafmagns um jarðir sínar. Landsnet hefur gengið hart fram í viðskiptum við landeigendur með loforðum um greiðslur og hótunum um eignarnám eða nánast með veskið í annarri hönd og svipuna í hinni. Eftir umræður um framlagðar athugasemdir við leyfisumsókn Landsnets til Orkustofnunnar voru þær samþykktar og Helenu Mjöll formanni falið að undirrita og senda Orkustofnun. (Sjá fylgiskjal aftan fundargerðar). Þá lagði Ellert fram drög ályktunar þar sem vinnubrögðum Landsnets er mótmælt. Þessi ályktun var rædd, samþykkt af stjórn og Ellert falið að birta hana á heimasíðu samtakanna nsve.is.

3) Fólkvangur – Jarðvangur: Til umræðu kom sú hugmynd  bæjarstjórnar Grindavíkur að breyta Reykjanesfólkvangi í jarðvang.  Að mati stjórnar NSVE er sú hugmynd ekki jákvæð ef horft er t.d. á stöðu náttúruverdar á því svæði. Þá kom fram hjá Ellert Grétarssyni að kvikmynd hans, „Krýsuvík- Náttúrufórnir í fólkvangi“, er nú tilbúin til sýningar. Ekki er hins vegar enn ljóst hvort hún verður sýnd í Ríkissjónvarpinu.

4) Önnur mál: Rætt var um undirbúning aðalfundar, breytingu lögheimilis o.fl. Mæsti stjórnarfundur verður fimmtudaginn 21. mars kl. 17:00 á heimili Eydísar Franzdóttur, Landakoti á Vatnsleysuströnd.

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 19:30.

Fundargerð skráði Björn Pálsson, ritari