Stjórnarfundur 29. nóv. 2013

posted in: Fundargerðir 2013 | 0

Annar fundur í þriðju stjórn NSVE var haldinn á heimili Jóhanns Davíðssonar að Hrauntungu 53 í Kópavogi, föstudaginn 29.11. 2013. Mættir voru allir aðalstjórnarmenn þau Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Björn Pálsson og Ellert Grétarsson og varastjórnarmennirnir Jóhann Davíðsson, Stefán Erlendsson og Jónas Pétur Hreinsson.

Gengið var til eftirfarandi dagskrár:

1)  Helena Mjöll formaður,- fundur settur.

2)  Eydís Franzdóttir,- staða raflínumála.

3)  Helena Mjöll,- Gálgahraun, staða mála.

4)  Jónas Pétur,- Grindavík, stígar, virkjanir o.fl.

5)  Stefán Erlendsson,- ályktun vegna Norðurhálsa í Ölfusi o.fl.

6)  Önnur mál. Staða náttúruverdarmála og myndasýning um átökin í Gálgahrauni.

 

1.  Helena Mjöll, formaður, setti fund og annaðist fundarstjórn.

2. Staða háspennuraflagna: Eydís gerði grein fyrir málinu. Þar gerði hún m.a. grein fyrir fræðsluför til Frakklands og vaxandi notkun jarðstrengja til raforkuflutninga þar. Í desemberútgáfu fréttabréfs NSVE 2013 má sjá ítarlega umjöllun þar um með myndum og línuritum.

3. Helena Mjöll sagði frá fundi með lögfræðingum föstud. 29.11. f. hádegi vegna stöðu Gálgahraunsmála. Þeim málum er hvergi lokið en NSVE hefur ekki tekið kostnaðarlega ábyrgð á þeim málum þrátt fyrir eindreginn stuðning við málstað Hraunavina og annarra verndunarsinna.

4. Jónas Pétur fjallaði ítarlega um ótrygga stöðu náttúru- og fornminja á Reykjanesi einkum í nágrenni Grindavíkur bæði á landi og í sjó. Þar gerði hann m. a. grein fyrir þeim skaða sem affallslagnir frá jaðrvarmavirkjunum til sjávar muni hafa á strandlíf þar og hafa þegar haft við Reykjanesvirkjun utar á nesinu (sjá desemberútgáfu fréttabréfs NSVE).

5. Stefán Erlendsson fjallað m.a. um þá ætlun Sveitarfélagsins Ölfuss að heimila OR jarðvarmavirkun á Norðurhálsum sem eru á milli Hverahlíðar á suðurjaðri Hellisheiðar og Skálafells. Lagði hann fram eftirfarandi bókun sem var einróma samþykkt af stjórn NSVE:

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands – NSVE – lýsa þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss í þágu virkjunaráforma Orkuveitu Reykjavíkur á svokölluðum Norðurhálsum við rætur Skálafells á Hellisheiði. Samtökin leggjast alfarið gegn því að þessu svæði – sem er undir hverfisvernd og að meginhluta á skilgreindu vatnsverndarsvæði – verði breytt í iðnaðarsvæði að beiðni OR. Sveitarfélag sem er reiðubúið að fórna mikilvægu vatnsverndarsvæði fyrir vafasaman ávinning sýnir vítavert fyrirhyggjuleysi og skammsýni. Á meðan ekki hafa verið gerðar fullnægjandi rannsóknir á orkuforðabúrinu undir Norðurhálsum og í næsta nágrenni er fráleitt að hefja þar orkuvinnslu með tilheyrandi kostnaði og jarðraski sem blasa mun við vegfarendum á leið yfir Hellisheiði. Ljóst er að núverandi vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar stendur ekki undir fullum afköstum til frambúðar – svæðið er minna og ekki eins orkuríkt og talið var. Samkvæmt þeirri stefnu sem fylgt hefur verið er vökvaupptaka úr jarðhitageymum of mikil og stöðug til skamms tíma. Ágeng nýting jarðvarmans uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbæra þróun og með sama áframhaldi verður auðlindin þurrausin á nokkrum áratugum. Ekki hefur heldur verið ráðin bót á brennisteinsmengun og áhrifum hennar á heilsufar fólks. Vandamál tengd losun affallsvatns eru einnig óleyst. Öll áform um frekari háhitavirkjanir á Íslandi eru því ótímabær þangað til fundist hafa viðunandi lausnir á þessum þáttum. (Sjá einnig des. fréttabréf NSVE).

6. Önnur mál: a) Fjallað var um bréf umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um brottfall Náttúruverndarlaga, 167. mál. Formanni falið að afgreiða það mál í samvinnu við Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands. b) Skoðar hreyfimyndir frá samskiptum nátturverndarfólks við lögreglu og verktaka í Gálgahrauni.

Fleira ekki fært til bókar: Fundurinn hófst kl. 15:00 og lauk kl. 17:30

Fundargerð skráði Björn Pálsson, ritari