Fyrsti stjórnarfundur fjórðu stjórnar NSVE var haldinn í Herdísarvík og Strönd í Selvogi höfuðdaginn 29. ágúst 2014 og hófst hann kl. 15:00. Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Ellert Grétarsson, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Stefán Erlendsson og Jóhann Davíðsson. Jónas Pétur Hreinsson var staddur erlendis og hafði tilkynnt fjarveru sína. Jóhann Davíðsson hafði á þessum degi aðgengi að húsi í Herdísarvík og þjónustuhúsi Strandarkirkju.
Í upphafi fundar minntist Guðrún Ásmundsdóttir Hlínar Johnson og Einars Benediktssonar síðustu ábúanda í Herdísarvík og flutti kvæðið „Hvarf séra Odds frá Miklabæ“ eftir Einar með einstökum hætti.
Þá var fundur settur og gengið til dagskrár um kl. 15:30
1) Fundargerð aðalfundar frá 22. maí 2014 var lesin af ritara, samþykkt og undirrrituð af stjórn.
2) Stjórnin skipti formlega með sér verkum og er sú skipan óbreytt frá því sem var fyrir síðasta aðalfund.
3) Staða mála Suðurnesjalínu 2, jarðstrengja o.fl. Eydís gerði grein fyrir stöðu þeirra mála og lagði fram tvær greinagerðir dags. 3. ágúst 2014 frá NSVE sendar bæjastjórnum og viðkomandi nefndum sveitarfélagsins Voga og Grindavíkurbæjar (sjá fylgiskjöl í möppu). Í þeim greinargerðum eru gerðar alvarlegar athugasemdir við greinargerðir Landslaga (fyrirtæki lögmanna) og Landslags (fyrirtæki landslagsarkitekta) sem er ætlað að vera samanburður á framkvæmdarleyfisumsóknum Landsnets hf. vegna Suðurnesjalínu 2 við gildandi aðalskipulög sveitarfélaganna. Þá fjallaði Eydís einnig ítarlega um drög að frumvarpi til laga um breytingar á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum. Eydís skilaði athugasemdum þar um í eigin nafni hinn 20. ágúst (sjá fylgiskjal í möppu) en síðan hefur skilafrestur athugasemda verið framlengdur til 5. sept. nk. ásamt athugasemdafresti við þingsáætlunartillögu um lagningu raflína. Rætt var um að senda athugasemdir í nafni NSVE og tók Helena Mjöll að sér að skoða það. Fram kom í máli Eydísar að Landsnet telur sig ekki þurfa að bíða með upphaf framkvæmda þar til dómar hafa verið kveðinn upp og fyrirliggjandi lagabreytingafrumvarp muni styrkja stöðu Landsnets á þeim vettvangi til framtíðar. Samkvæmt frumvarpinu verður Orkustofnun eina eftirlitsstofnunin með Landsneti en virðist bæði skorta starfsmenn og dug til þess að sinna þeirri skyldu sinni í dag. Norsk systurstofnun Orkustofnunar lagði, samkv. beiðni íslenskra stjórnvalda árið 2011, mat á getu Orkustofnunar. Niðursaðan varð hinni ísl. orkustofnun mjög óhagstæð en ekkert virðist hafa verið gert til úrbóta þar um ennþá.
Að lokinni tölu Eydísar var henni þökkuð ákveðin og vönduð vinnubrögð. Stjórnin samþykkti vinna að málinu og kynna það á opinberu vettvangi næstu daga og stefna að opnum fundi í Hafnarfirði þar um fljótlega.
4) Framtíð háhitaraforkuvera s.s. til stóriðju. Fram kom bæði í máli Ellerts og Björns að sú reynsla virðist nú vera æ augljósari að nýting háhita til raforkuvera stendur á tréfótum og engar líkur á að raforka þannig til orðin muni leysa nokkurn vanda orkuþarfar mannkyns. Þar hljóta aðrir nýjir orkugjafar að koma til sögu. Stóriðjustefna íslendinga er villuvegi sem aldrei getur orðið komandi kynslóðum hér á landi til framdráttar.
Á þessum tímapunkti var gert fundarhlé, ekið til Strandarkirkju, kaffi drukkið í þjónustuhúsi þar og fundi fram haldið.
5) Þingvallavatn í ljósi aukinnar mengunar frá Nesjavallavirkjun. Björn gerði grein fyrir heimsókn sinni til Arnar Jónassonar bónda á Nesjum snemma í sumar. Örn hefur gagnrýnt aukna og mengun frá Nesjavallavirkjun í Þorsteinsvík. Rætt var um að skoða svæðið í bátsferð í sumar, taka sýnishorn af útfellingum í botni og myndir með myndavél undir vatnsborði. Örn var reiðubúinn til að leggja til bát til þeirrar ferðar. Ellert Grétarsson á myndavél sem ræður við verkefnið. Athuga skal hvort tími gefst í haust til þessa verkefnis.
6) Rannsókn írska mannfræðingsins James J. Maguire. Björn og Stefán gerðu grein fyrir komu James til Hveragerði. Rannsókn hans beinist að háhitaorkunni, umhverfi þeirra orkulinda og þó einkum sögu baráttunnar gegn þeim virkjunum til verdunar náttúrunnar. Þær munu vera hluti af stærra háskólaverkefni á þessu sviði. (Háskólanum í Kaupmannahöfn?). Björn hefur með aðstoð Stefáns veitt honum þær upplýsingar og farið með hann í göngu- og ökuferðir um þau svæði. Á fundinum var að tillögu Stefáns ákveðið að hið enska heiti á NSVE mætti vera: The Nature Conservation Association of South West Iceland. Nánari upplýsingar um verkefnið eru væntanlegar frá James fljótlega.
7) Ætlaðar skipulagsbreytingar í Hveragerði. Björn gerði grein fyrir ætluðum skipulagsbreytingum í Hveragerði einkum á því svæði sem tengist gönguleiðum til dalanna þar norður af sem eru á skipulagssvæði sveitarfélagsins Ölfus. Honum sýnist óvarlega farið og gera þurfi athugasemdir þar um.
8) Helena Mjöll formaður NSVE lagði til stjórnarfundir yrðu mánaðarlega yfir vetrartíman t.d. síðari hluta mánaðar. Þeirri hugmynd var vel tekið en um dagsetningar yrði að gæta þess að sem flestir stjórnarmeðlimir gætu mætt.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl. 18:30.
Björn Pálsson, fundarritari