Krýsuvík – fólkvangur í hættu

posted in: Krýsuvík, Náttúruperlur | 0

Krýsuvík er eitt þeirra náttúrusvæða á Reykjanesskaga sem til stendur að fórna undir orkuvinnslu en svæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Fjögur háhitasvæði innan fólkvangsins eru í sigtinu undir hugsanlegar virkjanir með tilheyrandi náttúruspjöllum. Seltún og Sandfell voru flokkuð í orkunýtingarflokk í Rammaáætlun. Trölladyngja og Austurengjahver fóru í biðflokk. Fastlega má reikna með að þau verði einnig færð í orkunýtingarflokk. Krýsuvík og Trölladyngjusvæðið er afar vinsælt til útivistar og gönguferða enda er þessi náttúruparadís stutt frá mesta þéttbýlissvæði landsins. Auk þess leggur mikill fjöldi ferðamanna leið sína um Krýsuvík. Ljóst er að gildi svæðisins hvað það varðar verður rýrt til muna, verði þessi virkjunaráform að veruleika.

Náttúruperlan Seltún

Hverasvæðið í Seltúni, undir hlíðum Sveifluhálsins, er eitt þeirra svæða sem til stendur að fórna undir orkuvinnslu. Þar er að finna bæði leir- og vatnshveri og mikla litasinfóníu í samspili ummyndunar bergs, hverasalta og útfellinga.  Þangað kemur mikill fjöldi ferðamanna til að skoða þetta náttúrundur enda er Seltún vel aðgengilegt stutt frá vegi. Frá Seltúni liggja áhugaverðar gönguleiðir til allra átta. Ein þeirra er eftir Ketilstígnum, fornri alfaraleið sem liggur milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, yfir Sveifluhálsinn. Stígurinn hefur verið stikaður og er vinsæl gönguleið meðal útivistarfólks og náttúruunnenda. Hann liggur upp frá Seltúni og meðfram Arnarvatni. Fyrirhugaður háspennustrengur mun þvera Ketilstíginn og liggja meðfram þessu fallega vatni, sem er forn eldgígur.

Stórbrotið landslag Sveifluhálsins

Uppi á Sveifluhálsi er afar forvitnilegt landslag. Móbergið er greinilega smá saman að molna niður fyrir langvinn áhrif vatns og vinda og tíðir jarðskjálftar á þessum slóðum hjálpa eflaust til. Sveifluháls eða Austurháls, eins og hann er einnig nefndur, er 18 km langur og hæsti tindur hans 395 metrar. Hann hefur hlaðist upp við endurtekin sprungugos undir ísaldarjökli.  Slíkir móbergshryggir finnast varla annars staðar í heiminum enda um unga jarðmyndun að ræða.

Uppi á hálsinum blasir við kynngimagnað hálendislandslag með ótal kynjamyndum í veðursorfnu móberginu. Afar vinsælt er meðal útivistarunnenda að ganga eftir hálsinum endilöngum í þessu ævintýralega umhverfi.

Á miðjum hálsinum er tilkomumikill gígur og norðan við hann er Hádegishnúkur, hæsti tindur hálsins. Tindarnar á hálsinum er gamlir gosgangar og skiptast í svokallaða Hellutinda nyrst og Stapatinda sunnar.

Ofan af Hádegishnúki er gott útsýni yfir Móhálsadal til Núpshlíðarhálsins í vestri en hann er einnig úr móbergi eins og Sveifluhálsinn og virðist nokkuð yngri. Hann hefur sömuleiðis byggst upp við sprungugos undir jökli. Hálsarnir tveir hafa verið nefndir Móhálsar og því er dalurinn á milli þeirra nefndur Móhálsadalur. Botn hans er þakin hraunum úr feikna mikilli eldgosahrinu sem hófst með Krýsuvíkureldum árið 1151. Ögmundarhraun er syðst þessara hrauna.

Ofmetin vinnslugeta

Hugmyndir um virkjun þessara svæða innan Reykjanesfólkvangs hafa  aðallega tengst fyrirhuguðu álveri í Helguvík. Krýsuvíkursvæðið er metið sem ein heild í mati Orkustofnunar og er talið 89 ferkílómetrar að stærð með vinnslugetu sem nemur 445 MW til 50 ára. Þetta mat á stærð og orkugetu svæðisins hefur verið dregið í efa enda ekki talið í samræmi við niðurstöður af fyrri rannsóknarborunum. Óháðar athuganir benda til að samanlögð vinnslugeta svæðanna sé um 120 MW til 50 ára.  Heildarorkuþörf álvers  í Helguvík, miðað við 360 þúsund tonna framleiðslugetu, er hins vegar 650 megavött. Þótt öll virkjanleg orka á Reykjanesskaganum færi í álverið dugar það ekki til.

Ennfremur hefur sjálfbærni fyrirhugaðra virkjana verið dregin í efa og samkvæmt því gæti orkan úr svæðunum klárast á fáeinum áratugum.  Til að virkjun geti talist sjálfbær þarf svæðið að nýtast í að minnsta kosti 200-300 ár.

Galnar virkjunarhugmyndir

Verði af virkjun á þessu svæði er ljóst að ásýnd þess mun gjörbreytast með tilkomu þeirra mannvirkja sem fylgja munu virkjuninni. Til dæmis þarf háspennulínu til að flytja orkuna. Í tillögum Landsnets er gert ráð fyrir 132 kílóvolta jarðstreng frá virkjanasvæðinu yfir Sveifluháls, Móhálsadal og Núpshlíðarháls. Hugmyndir um virkjun svæðisins og lagningu háspennustrengs eru algjörlega galnar, vægt til orða tekið.

Innan marka Reykjanesfólksvangs er að finna mörg áhugaverð náttúrufyrirbæri: Hverasvæðin með allri sinni litadýrð, víðerni og hálendislandslag, eitt fallegasta fuglabjarg landsins, allar gerðir af gosminjum, s.s. fagrar eldborgir og fjölbreyttar gosmyndanir.

Fólkvangurinn er sannkölluð útivistarparadís og nýtur mikilla vinsælda sem slíkur í nálægð við stærsta þéttbýlissvæði landsins. Gildi svæðisins sem fólkvangs verður ekki lengur til staðar verði honum breytt í orkuvinnslusvæði. Slík ráðstöfun væri algjörlega siðlaus.

Texti og ljósmyndir: Ellert Grétarsson.