Einstakt vistkerfi undir álagi

posted in: Þingvellir | 0

ÞINGVALLAVATN: Einstakt vistkerfi undir álagi, var heiti erindis sem Hilmar J. Malmquist flutti á Þingvallamálstefnu NSVE og NVSS vorið 2013. Þar lýsti hann sérstöðu Þingvallavatns og ástandi með tilliti til vatnsgæða og nefndi álagsþætti vegna efnamengunar og loftslagshlýnunar sem gætu valdið breytingu á útliti og lífríki vatnsins.

Á Náttúrufræðistofu Kópavogs hefur Hilmar annast rannsóknir á vatnssýnum úr Þingvallavatni undanfarin ár og áratugi. Meginatriði vöktunarverkefna frá því í apríl 2007 hafa verið:

a) ofauðgun næringarefna

b) mengunaróhöpp

c) nýting vatns (ekki vatnsmiðlun)

c) loftslagshlýnun.

Þessir þættir eru að nokkru vegna athafna manna og til þess er helst að horfa um úrbætur. Hilmar taldi að ástand Þingvallavatns væri enn nokkuð gott nú, en…: „Ef heldur fram sem horfir er hins vegar hætt við að margrómaður blámi og tærleiki Þingvallavatns muni rýrna með tilheyrandi skakkaföllum fyrir lífríkið,“ sagði hann orðrétt í inngangi erindis síns.

Talið er að um 90m3 vatns berist í Þingvallavatn með grunnvatnsstraumum á sekúndu hverri. Þar af komi 30m3 með Almannagjárstraumi, 20m3 með Hrafnagjárstraumi, 25m3 með Miðfellsstraumi og 15m3 að sunnan og vestan. Þetta mun vera um 90% vatns sem til Þingvallavatns rennur. Á yfirborði falla þrjár ár til vatnsins; Öxará úr norðri og Ölfusvatnsá og Villingavatnsá í Ölfusvatnsvíkina syðst. (Sjá meðfylgjandi myndir).

Aukning niturs/NO3 hefur verið mikil á undanförnum árum. Það eykur þörungavöxt í Þingvallavatni sem er helsta ógnunin við núverandi ástand þess. Ýmsar mannlegar gerðir hafa áhrif á niturmagnið og þar verður að standa vaktina ef við viljum skila blátæru Þingvallavatni til næstu kynslóða. Sumarbústaðir, umferð bifreiða o.fl. kemur þar til sögu og um sumarbústaði er fjallað um í annarri grein.

Eftir Björn Pálsson

 Til hægri má sjá vatnasvið Þingvallavatns og grunnvatnsstraumana þrjá sem falla til vatnsins úr norðri. Myndin til vinstri sýnir syðsta hluta vatnasviðsins merkt með blárri línu.
Til vinstri má sjá vatnasvið Þingvallavatns og grunnvatnsstraumana þrjá sem falla til vatnsins úr norðri. Myndin til hægri sýnir syðsta hluta vatnasviðsins merkt með blárri línu.