Lygar og stjórnsýslufúsk

posted in: Suðurnesjalína 2 | 0

Landsnet fyrirhugar að reisa Suðurnesjalínu tvö, 32,4km langa háspennulínu á allt að 30 metra háum möstrum frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel í Grindavík. Framkvæmdin mun valda gífurlegri sjónmengun þar sem línan mun falla í sjónlínu til fjalla frá Reykjanesbraut, fjölförnustu ferðamannaleið landsins og lagning hennar mun einnig valda miklum náttúruspjöllum.

Áætlað er að leggja línuna yfir ósnortið hraun, með tilheyrandi nýjum línuvegi, á 7km kafla í Hafnarfirði og einnig leggja nýja vegaslóða, allt að 89,5 metra langa og 6 m breiða að hverju mastri en þau eru 103 talsins. Grafa þarf a.m.k. 3 x 2,5 m breiðar holur fyrir hverja mastraundirstöðu auk 3,3 – 4,3 m djúpra hola fyrir stagfestur. Þetta verða gífurleg, óafturkræf spjöll á hrauni sem nýtur sérstakrar verndar skv. 37.gr náttúruverndarlaga.

Landsnet heldur því fram að samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við ákvarðanatöku um valkosti og línuleið, en hið rétta er að ekkert samráð var haft, heldur allir aðrir valkostir en 200kV loftlína með Reykjanesbraut slegnir út af borðinu með fullyrðingum t.d. um margfaldan kostnað ef leggja ætti línuna í jörð og gífurleg náttúruspjöll sem hlytust af því að leggja jarðstreng yfir ósnortið hraun. Engin skoðun var gerð á þeim möguleika að legga jarðstreng með vegum á línuleiðinni s.s. Reykjanesbraut eða núverandi línuvegi.

Á ofangreindum forsendum fékk Landsnet sveitarfélögin á svæðinu til að gera samninga um línuna og setja hana á aðalskipulag, þrátt fyrir að t.d. aðalskipulag Voga kveði á um að allar raflínur skuli leggja í jörð eftir því sem við verður komið. Hagsmunaaðilar og allur almenningur voru þar með útilokaðir frá aðild að ákvarðanatöku um framkvæmdina og allar athugasemdir þeirra að engu gerðar.

—–

Margir landeigendur í Sveitarfélaginu Vogum sætta sig ekki við að land þeirra verði sundurskorið og eyðilagt með slíku mannvirki sem áætluð loftlína er og hafa óskað eftir að lagning línunnar í jörð verði skoðuð með raunhæfum hætti með tilliti til aðstæðna á svæðinu en ekki útilokuð með almennum fullyrðingum.

Orkustofnun virti ekki andmælarétt og sinnti ekki rannsóknarskyldu

Þann 5. desember 2013 veitti Orkustofnun Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2.

NSVE og Landvernd kærðu sameiginlega ákvörðun Orkustofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í janúar 2014, en niðurstaða hefur enn ekki verið kveðin upp. Kæran byggir m.a. á því að brotið hafi verið á andmælarétti NSVE, þar sem Orkustofnun afritaði beint svör Landsnets við athugasemdum NSVE og gerði að sínum, án þess að gefa samtökunum færi á að andmæla eins og ber að gera skv. IV. kafla, 13. gr. stjórnsýslulaga.

Einnig braut Orkustofnun jafnræðisreglu og rannsóknar-reglu stjórnsýslulaga, auk þess að vanrækja illilega eftirlitshlutverk sitt. Með raforkulögum nr. 65/2003, var Orkustofnun falið víðtækt umsjónarhlutverk í raforkumálum, einkum eftirlit með sérleyfisþáttum, þ.e. flutningi og dreifingu raforku. Markmið raforkulaga eru skv. 1. gr. að byggja upp þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi. Ekkert mat liggur fyrir um þjóðhagslega hagkvæmni Suðurnesjalínu 2 sem 220kV háspennulínu með margfalda flutningsgetu umfram þörf skv. raforkuspá Orkuspárnefndar fyrir árið 2050. Þörfin fyrir svo stóra línu er rökstudd með þörf fyrir raforkuflutninga frá öllum mögulegum virkjanakostum á Reykjanesi jafnt í nýtingaflokki og biðflokki, þ.m.t. Krýsuvík, Eldvörp, Trölladyngja og stækkun Reykjanesvirkjunar. Þó hafa rannsóknir gefið til kynna að ekki sé mögulegt að ná uppsettu afli á svæðunum. Línuna er áætlað að reka um óákveðinn tíma sem 132kV línu en ekkert mat liggur fyrir um hvort 132kV lína til viðbótar núverandi 132kV línu gæti annað framtíðar raforkuflutningum á svæðinu. Slík lína er talin u.þ.b. 44% ódýrari en 220kV lína og kostnaður við að legga hana í jörð sambærilegur við loftlínu. Landeigendur í Sveitarfélaginu Vogum kærðu leyfisveitingu Orkustofnunar til dómstóla.

 

Heimild til eignarnáms reist á leyfi Orkustofnunar

Í febrúar 2014 veitti atvinnvega- og nýsköpunarráðherra Landsneti heimild til eignarnáms á jörðum á línuleiðinni. Byggir sú heimild að stærstu leyti á leyfisveitingu Orkustofnunnar sem þegar hafði verið kærð og afritaði ráðneytið enn á ný svör Landsnets athugasemdalaust líkt og Orkustofnun gerði. Landeigendur hafa stefnt ákvörðuninni til dómstóla ásamt ákvörðun matsnefndar eignanámsbóta sem veitti Landsneti þegar í stað umráð yfir landinu þó dómsmál væru í gangi um lögmæti eignarnámsins og frestur sem nefndin hafði gefið landeigendum til að lýsa sjónarmiðum sínum ekki útrunninn.

utility-high-tension-power-lines-intersecting

Afgreiðsla framkvæmdarleyfa sveitafélaganna

Þann 7. maí 2014 sótti Landsnet hf. um framkvæmdarleyfi til sveitarfélaganna á línuleiðinni. Reykjanesbær veitti leyfið með hraði fyrir bæjarstjórnarkosningar án þess að veita hagsmunaaðilum og almenningi færi til athugasemda eins og ber að gera skv. skipulagslögum. NSVE og Landvernd hafa kært leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en það hafa landeigendur í sveitarfélaginu Vogum einnig gert.

Umhverfis- og skipulagsnefndir Voga og Grindavíkur hafa haft framkvæmdarleyfisumsóknina til umfjöllunar. Í maí mættu fulltrúar Landsnets á fund umhverfis- og skipulagsnefndar Voga til að kynna framkvæmd-ina. Þar fengu þeir fyrirspurn frá nefndinni um hvers vegna ekki væri hægt að leggja línuna í jörð líkt og Frakkar gera og var ítarlega fjallað um í síðasta fréttabréfi NSVE. Þar fullyrtu fulltrúar Landsnets að Frakkar væru ekki að leggja neina jarðstrengi af slíkri spennu! Enn á ný voru þeir uppvísir að því að ljúga að sveitarstjórnarfólki til að reyna að ná vilja sínum fram.

Í maí mættu fulltrúar Landsnets á fund umhverfis- og skipulagsnefndar Voga til að kynna framkvæmdina. Þar fengu þeir fyrirspurn frá nefndinni um hvers vegna ekki væri hægt að leggja línuna í jörð líkt og Frakkar gera og var ítarlega fjallað um í síðasta fréttabréfi NSVE. Þar fullyrtu fulltrúar Landsnets að Frakkar væru ekki að leggja neina jarðstrengi af slíkri spennu! Enn á ný eru þeir uppvísir af að ljúga að sveitarstjórnarfólki til að ná vilja sínum fram.

Grindavík og Vogar fengu landslagsarkitektastofuna Landslag ehf. og lögfræðistofuna Landslög til að vinna greinargerð um samanburð aðalskipulags og framkvæmdarleyfisumsókn Landsnets. Greinargerðirnar voru kynntar hagsmunaðilum s.l. sumar og gerði NSVE alvarlega athugasemd m.a. við að fyrirhugað línustæði Suðurnesjalínu 2 er á grannsvæði vatnsverndar skv. svæðisskipulagi Suðurnesja og í mikilli nálægð við verðandi brunnsvæði sveitarfélagsins Voga. Þetta mikilvæga atriði yfirsást greinargerðarhöfundum. Einnig að línan liggur innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá, við Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluta Hrafnagjár og í mikilli nálægð við Eldvörp, gígaröð sem er einstök á heimsvísu.

Gerð var athugasemd við að hvorki í aðalskipulögum sveitarfélaganna né greinargerðum Landslaga og Landslags komi fram að við lagningu Suðurnesalínu 2, 220kV háspennulínu samsíða Suðurnesjalínu 1, þurfi að legga nýja vegaslóða yfir ósnortið hraun, að hverju mastri, og undirstöður undir hvert mastur og stög. Þetta væru óafturkræf spjöll á hrauni sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga.

Gerð var athugasemd við að sá möguleiki að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð með Reykjanesbraut eða núverandi línuvegi hafi alls ekki verið skoðaður, þó að í aðalskipulagi Voga sé gert ráð fyrir jarðstreng með Reykjanesbrautinni auk tveggja 220 kV loftlína og í markmiðum aðalskipulags Voga sé gert ráð fyrir að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörð, þar sem því er við komið.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands gera kröfu um að beðið sé niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og dómstóla varðandi leyfisveitingu Orkustofnunnar og vegna eignarnáms á jörðum á línuleiðinni áður en framkvæmdarleyfi verður veitt. Sá möguleiki að leggja Suðurnesjalín 2 í jörð verði tekinn til raunhæfrar skoðunar og kannað hvort ekki megi komast hjá óþarfa eyðileggingu á einstakri náttúru Reykjaness, með mikilli hættu á spillingu neysluvatns og rýrnun möguleika í ferðaþjónustu og útivist.

Nýverið ákváðu bæði sveitar-félögin að láta grenndarkynna framkvæmdina að ráði Skipu-lagsstofnunar. NSVE hvetur félaga til að kynna sér málið og gera athugasemdir, enda varðar málið allan almenning.

Í Hafnarfirði bar línumálið mikið á góma fyrir sveita-stjórnarkosningar. Þar kom fram að Landsnet ætlaði ekki að standa við samninga um að allar línur innan bæjarins færu í jörð og að nýtt tengivirki væri byggt í Hrauntungum ofan byggðar, í stað tengivirkisins í Hamranesi.

Í kjölfar framkvæmdar-leyfissóknar Landsnets fyrir Suðurnesalínu 2 sem 220kV loftlínu frá Hamranesi, í mikilli nálægð við þéttbýli og yfir ósnortið hraun, er skipulags- og byggingarráð Hafnarfarðar að láta taka málin til vandlegrar skoðunar og samþykkti á fundi 23. sept. sl. að ráða lögmann með sérþekkingu á sviði skipulagsmála til aðstoðar varðandi lagalega stöðu aðila í málinu. Fyrir ráðið hafa verið lögð fram viðbótar fornleifaskráning Fornleifastofunnar auk umsagna Byggðasafns Hafnarfjarðar og Minjastofnunar Íslands.

Í umsögn Minjastofnunar kemur fram að gera þurfi ítarlegri fornleifarannsóknir og framkvæma hættumat að nýju.

Power-Lines

Meingölluð þingsályktun

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

NSVE gerði athugasemdir við drög að hvoru tveggja og telur frumvarpið og þingsályktunartillöguna bæði meingölluð og að náttúruvernd og réttur fólks til aðgengis að óspilltri náttúru sé fótum troðinn. Alls bárust ráðuneytinu 20 umsagnir við frumvarpsdrögin og 14 umsagnir vegna þingsályktunartillögunnar. Nánast engar breytingar voru gerðar hvorki á frumvarpinu eða á þingsályktunartillögunni áður en hvort tveggja var lagt fram til Alþingis.

Í frumvarpinu er kerfisáætlun Landsnets gerð ráðandi í skipulagi sveitarfélaga og ber sveitarfélögum að setja raflínur í kerfisáætlun inn á aðalskipulag innan fjögurra ára, hafi kerfisáætlun fengið samþykki Orkustofnunar, stofnunar sem er gerð að eina eftirlitsaðilanum með raforkuflutningskerfinu.

Árið 2011 gerði norska systurstofnun Orkustofnunar úttekt á Orkustofnun að beiðni iðnaðarráðuneytisins. Þar fékk Orkustofnun falleinkunn, en í skýrslu um niðurstöður úttektarinnar kemur fram að hún sé vanburðug vegna skorts á starfsfólki, einkum fagfólki á sviði verkfræði, hagfræði og lögfræði. Lagt var til að fjöldi starfsfólks Orkustofnunar við eftirlit væri tvöfaldaður og jafnframt var undirstrikuð nauðsyn starfsþjálfunar og endurmenntunar starfsfólks.

Í skýrslunni kemur einnig fram að markaðsaðilar hafi talið nauðsynlegt að;

a) hafa samband við ráðuneytið beint til að ræða undirbúning ákvarðana Orkustofnunar;

b) aðstoða Orkustofnun við afgreiðslu verkefna hennar;

c) veita leiðsögn um ákveðna niðurstöðu, eða

d) einfaldlega undirbúa ákvörðun stofnunarinnar.

Allt er þetta til marks um vanhæfni Orkustofnunar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Einnig eru dæmi um að ráðuneytið hafi leiðbeint Orkustofnun við ákvarðanatöku vegna tilmæla markaðsaðila. Nokkrir viðmælendur norsku skýrsluhöfundanna sögðu Orkustofnun mega sín lítils gagnvart sterkum markaðsaðilum sem færu sínu fram og einn viðmælandi fullyrti að Orkustofnun léti það viðgangast að raforkuflutningsfyrirtækinu væri illa stjórnað án þess að bregðast við.

Ekki verður séð að ráðuneytið (eða stjórnvöld) hafi dregið lærdóm af úttekt norsku stofnunarinnar og ráðist í viðeigandi úrbætur á starfsháttum Orkustofnunar því að þessar lýsingar eiga í öllum meginatriðum við um það hvernig staðið var að leyfisveitingu fyrir Suðurnesjalínu 2 tveimur árum síðar.

Allt er þetta til marks um vanhæfni Orkustofnunar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Einnig eru dæmi um að ráðuneytið hafi leiðbeint Orkustofnun við ákvarðanatöku vegna tilmæla markaðsaðila. Nokkrir viðmælendur norsku skýrsluhöfundanna sögðu Orkustofnun mega sín lítils gagnvart sterkum markaðsaðilum sem færu sínu fram og einn viðmælandi fullyrti að Orkustofnun léti það viðgangast að raforkuflutningsfyrirtækinu væri illa stjórnað án þess að bregðast við.

 

NSVE telur að Orkustofnun sé ekki hæf til eftirlits með raforkuflutningskerfinu og einnig beri að slíta á öll tengsl stofnunarinnar við ráðuneytið.

Samhliða frumvarpinu hefur ráðherra lagt fram til Alþingis þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Þar er mjög lítið tillit tekið til umhverfissjónamiða eða slæmra afleiðinga sem háspennulínur og raforkuflutningskerfi, sem byggt er langt umfram raunverulega þörf, getur haft á samfélagið. Lagt er til að meginreglan verði sú að í meginflutningskerfi raforku verði notast við loftlínur.

Skoða má jarðstreng sem valkost:

1) Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, sbr. skilgreiningu á þéttbýli í 2. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. 2) Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

3) Ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi.

4) Ef línuleið er innan þjóð-garðs, en þó má kostnaður jarðstrengs þar ekki vera meiri en 1.5 sinnum kostnaður loftlínu.

NSVE gerði athugasemd við að ekki hafi verið fylgt niðurstöðu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð og áliti atvinnuveganefndar Alþingis nema að litlu leyti. Báðar nefndirnar lögðu til að þegar um væri að ræða lagningu raflína á náttúruverndarsvæðum s.s. í þjóðgörðum, friðlöndum, fólkvöngum og svæðum sem njóta verndar skv. öllum liðum náttúrverndarlaga auk þéttbýlis og línur sem ógna flugöryggi, skuli meta jarðstrengi til jafns við loftlínur óháð kostnaði.

Í þingsályktunartillögunni er gerð tilraun til að takmarka jarðstrengjalagnir við þéttbýli, í friðlöndum sem njóta verndar einungis skv. 53. gr. náttúruverndarlaga, og í námunda við flugvelli til að tryggja flugöryggi. Það er sérstaklega ámælisvert.

Fórna á svæðum sem njóta verndar skv. öðrum greinum náttúrverndarlaga t.d. 37.gr., þjóðgörðum og fólkvöngum, því með þeim kostnaðartölum og útreikningum sem Landsnet styðst við kemur fyrirtækið að óbreyttu aldrei til með að reikna jarðstrengjakostnað lægri en 1.5 af verði loftlínu. Jákvætt er að kveðið er á um að jarðstrengi skuli svo sem kostur er leggja meðfram vegum. Atvinnuveganefnd Alþingis hefur auglýst umsagnafrest um þingsályktunartillöguna og lagabreytingarnar til 26. nóvember 2014. Öllum er frjálst að senda inn umsagnir.

 

Meta þarf raunverulega raforkuflutningsþörf

Mjög mikilvægt er að raunveruleg raforkuþörf sé metin og ekki sé farið út í byggingu raflína langt umfram þörf til næstu áratuga. Verð háspennulínu/jarðstrengs fer mjög eftir stærð og flutningsgetu. Of stórar línur sem kannski verða aldrei nýttar sem slíkar eru ekki þjóðhagslega hagkvæmar og varpa miklum kostnaði á almenning. Í dag reiknar Landsnet hf. með að almenningur greiði 30% af kostnaði við raforkuflutninga í meginflutningskerfinu þó stóriðja noti yfir 80% raforkunnar. Ef byggðar eru háspennulínur umfram raforkuþörf er því óþarfa kostnaði varpað út til almennings auk allra þeirra auknu umhverfisáhrifa sem stórar loftlínur hafa.

Nú þegar áætlar Landsnet hf. að Suðurnesjalína 2, Blöndulína 3 og Kröflulína 3 verði 220kV, en allar línurnar á að reka um óákveðinn tíma sem 132kV háspennulínur. Alls óvíst er að línurnar verði nokkurn tíma reknar sem 220kV línur þar sem þörfin fyrir svo stórar línur er m.a. studd með flutningsþörf á raforku frá ókönnuðum virkjunarkostum í biðflokki rammaáætlunar eða jafnvel virkjunarkostum þar sem rannsóknir hafa ekki skilað tilætluðum árangri s.s. háhitasvæðunum á Reykja-nesi. Talið er að kostnaður við 220kV háspennulínur sé um 44% hærri en kostnaður við 132kV háspennulínur. Þeim kostnaði ætlar Landsnet að varpa út í verðlag til almennings þó ekki sé þörf á nema 132kV línum í fyrirsjáanlegri framtíð. Að auki skekkir slíkt ofmat á flutningsþörf allan samanburð á valkostum. Verðmunur á jarðstrengjum og loftlínum á 132kV spennu er hverfandi en á 220kV línum/strengjum áætlaður um 20% skv. samanburðarskýrslu kanadíska ráðgjafafyrirtækisins Metsco Energy Solutions frá nóvember 2013.

Ljóst er að jarðstrengir sem lagðir eru með vönduðum vinnubrögðum valda mjög litlum umhverfisspjöllum ólíkt því sem loftlínur gera. Við samanburð valkosta er því mikilvægt að horft sé til þjóðhagslegrar hagkvæmni eins og raforkulög kveða á um og allir þættir s.s. landnýting, landverð, ferðaþjónusta og verðmæti aðgengis að óspilltri náttúru séu metnir í kostnaðarsamanburðinum. Ávallt skal meta valkosti út frá líftímakostnaði, enda er alþekkt að rekstrarkostnaður jarðstrengja er mun lægri en loftlína, sérstaklega við íslenskar aðstæður.

 

Landsnet notast ekki við réttar kostnaðartölur

Mikilvægt er að samanburður valkosta sé gerður af óháðum aðila með hliðsjón af nýjustu upplýsingum um framleiðslu, tækni og kostnað við jarðstrengi/loftlínur. Á síðustu árum hefur framleiðslu á háspenntum jarðstrengjum fleygt fram og verð farið mjög ört lækkandi. Þetta stafar meðal annars af aukinni eftirspurn og samkeppni á markaði, samfara mjög hröðum framförum byggðum á reynslu þeirra þjóða sem fremstar fara í jarðstrengjalögnum. Þegar hafa Danir, Frakkar og Norðmenn markað sér stefnu um að fjölga ekki raflínum í lofti. Því er sérlega keppst við í þessum löndum að leggja línur undir 400kV í jörð eins og kostur er.

Danir tóku í notkun 220kV jarðstreng, Anholt strenginn, 2012. Verð strengsins með tengingum var um 44 milljónir ísl. kr. á kílómetra. Nýlega sömdu Danir um kaup á nýjum 220kV jarðstreng, Horns Rev 3, fyrir um 38 milljónir ísl. kr. á kílómetra fyrir strengi með tengingum. Báðir strengirnir eru 2000 mm2 strengir. (Sjá: www.energinet.dk ).

Í desember 2013 gerði verkfræðistofan Mannvit útreikninga á jarðstrengjalögnum sem Landsnet hf. hefur stuðst við síðan. Þar er reiknaður kostnaður við innkaup á sambærilegum 220kV, 2000 mm2 jarðstreng með tengingum tæpar 88 milljónir ísl. kr. á kílómetra. Ljóst er að Mannvit hefur ekki stuðst við raunverulegar og uppfærðar kostnaðartölur, ef bornar eru saman kostnaðartölurnar frá Danmörku.

Þegar valkostagreining fer fram verður að skoða hvert svæði fyrir sig og gera raunverulegan samanburð m.a. með tilliti til landslags, jarðvegs, landnýtingar, landverðs, áhrifa á ferðaþjónustu, útivist, verðmæti óspilltrar náttúru og þjóðhagslegrar hagkvæmni í öllum skilningi. Óásættanlegt er að notast sé við verð og tækni sem standast ekki skoðun skv. nýjustu upplýsingum.

Í flest allri umfjöllun um jarðstrengi á Íslandi t.a.m. matskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2 er gert mikið úr náttúruspjöllum vegna veglagningar með jarðstrengjum og kostnaði við þær. Bent er á að franska raforkuflutningsfyrirtækið RTE hefur lagt yfir 1000 km af 225kV jarðstrengum í 97% tilfella með vegum. Aðeins er þörf á um 80 cm breiðum skurði í vegöxl til að flytja allt að 800 MW af rafmagni.

NSVE gerir kröfu um að sá möguleiki að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð verði skoðaður með raunhæfum hætti.