Landsnet undirbýr nú lagningu nýrrar háspennulínu eftir endilöngum Reykjanesskaganum. Til að reyna að villa um fyrir fólki og forðast heildstætt umhverfismat er hún kölluð mismunandi nöfnum eftir því yfir hvaða svæði hún fer. Hvað sem því líður er um að ræða sömu línuna og sömu framkvæmdina. Línan verður á 30 metra háum stálgrindarmöstrum í þrefaldri og á köflum tvöfaldri staurastæðu við innganginn í landið. Ljóst er að hún mun hafa í för með sér rask og eyðileggingu á mörgum svæðum, sum þeirra eru jafnvel á náttúruminjaskrá eða friðlýst náttúruvætti. Hér verður fjallað um tvö þessara svæða, Snorrastaðatjarnir og Litluborgir.

Háibjalli – Snorrastaðatjarnir
Sunnan við Voga, ekki langt frá Reykjanes-brautinni eru Háibjalli og Snorrastaðatjarnir, falleg náttúruparadís sem í áratugi hefur verið vinsælt útivistarsvæði meðal Suðurnesjamanna. Margir bera sterkar taugar til svæðisins, sem tengist æskuminningum þeirra. Háibjalli er hár missgengisstallur sem veitir gott skjól í norðanáttinni og er þar að finna all myndarlegan skógræktarreit. Við tjarnirnar vex fjölbreyttur gróður og eru þær mikilvægur áningarstaður farfugla. Snorrastaðatjarnir og Háibjalli eru á náttúruminjaskrá. Þessari náttúruperlu og fuglalífinu þar stendur nú ógn af Suðurnesjalínu 2. Í matsskýrslu vegna hennar segir m.a: „Suðurnesjalína 2 og Kolviðarhólslína 2 munu hafa talsverð neikvæð sjónræn áhrif fyrir útivistarfólk þar sem þær liggja næst Háabjalla og útivistarsvæðinu þar í nágrenninu. Þá er talið að Suðurnesjalína 2 og Kolviðarhólslína 2 frá Hvassahrauni að Njarðvíkurheiði muni hafa fremur neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist á því svæði, einkum í nágrenni Háabjalla og Seltjarnar”. Þess má geta að landeigendur og bæjaryfirvöld í Vogum voru upphaflega sammála um að línan ætti að fara í jörð. Landsnet hafði hins vegar sínu fram með ofstopa, yfirgangi og óheiðarlegum vinnubrögðum sem eru svo með ólíkindum að í raun er þau tilefni til opinberrar rannsóknar.



Litluborgir
Litluborgir eru afar sérstæðar jarðmyndanir austan Helgafells ofan Hafnafjarðar. Um er að ræða hraunmyndun af sama meiði og Dimmuborgir nema þessar eru öllu minni í sniðum, eins og nafnið vísar til. Litluborgir eru friðlýsar sem náttúruvætti. Samt sem áður ætlar Landsnet að leggja Suðvesturlínu (Suðurnesjalínu 2) nánast yfir þessar einstöku jarðminjar. Núverandi lína austan Helgfells verður tvöfölduð – verður þreföld. Í matskýrslu vegna framkvæmdarinnar segir að verndarforsendur Litluborga séu sérstæðar jarðmyndanir og sé óheimilt að hrófla við þeim eða spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins . Núverandi lína er alveg í jaðri svæðsins. Í matsskýrslunni segir að henni verði hliðrað til að koma hinum línunum fyrir og muni því ganga „lítið eitt“ lengra inn á hið friðlýsta svæði. Þá segir einnig að „fjölgun lína og færsla inn yfir svæðið hafi neikvæð, sjónræn áhrif á svæðinu en ekki sé um jarðrask að ræða.“ Það er alveg nýtt að ekkert jarðrask fylgi lagningu háspennulína og verður spennandi að sjá hvernig Landsnet ætlar að leggja þrefalda línu án jarðrasks. Að sjálfsögðu er svo tekið fram að áhrif framkvæmdarinnar verði „óveruleg“ eins og það er gjarnan orðað í matsskýrslum til að breiða yfir skömmina. Það verður að teljast með hreinum ólíkindum að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði heimili þessa línulagningu, því ekki aðeins fer línan ofan í þetta friðlýsta náttúruvætti heldur einnig yfir mikilvægt og viðkvæmt vatnsverndarsvæði í framhaldinu.


