Heilsa íbúa njóti vafans í Rammaáætlun

posted in: Ályktanir | 0

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands skorar á Alþingi að sýna ábyrgð gagnvart heilsu íbúa suðvesturhornsins og samþykkja breytingartillögu Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur um að öll jarðhitasvæði Reykjanesskagans í Rammaáætlun verði sett í biðflokk.

Stjórn NSVE telur ekki rétt að setja nokkurt jarðhitasvæði á svæðinu í orkunýtingarflokk til gufuaflsvirkjana. Fyrir þeirri afstöðu liggja meðal annars þessi atriði:

Nýlega birt skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sýnir ljóslega hversu gáleysislega hefur verið staðið að gerð Hellisheiðarvirkjunnar. Vegna ágengrar vinnslu er óvíst að orkunáman þar endist til langtíma vinnslu og verði jafnvel þorrin innan 40 ára. Svipað er uppi á teningnum í Eldvörpum á Reykjanesi þar sem jarðhitageymurinn verður tæmdur jafnvel á innan við 30 árum.

Niðurrennsli þéttivatns við Húsmúlann hefur komið fjölmörgum smáum jarðskjálftum af stað og óþekkt eru áhrif á aðliggjandi svæði þar sem stærri skjálftar hafa orðið. Þá er einnig óvissa um möguleg áhrif niðurrennslisins á neysluvatnsból nálægra byggða.

Árið 2014 ganga í gildi hertar mengunarreglur og á síðasta aðalfundi OR kom fram að sennilega þyrfti OR að fá undanþágu frá þeim reglum allt til ársins 2020. Erfiðasta óleysta vandamálið eru eitraðar lofttegundir svo sem brennisteinsvetni. Tæring á mannvirkjum svo sem háspennumöstrum er auðsæ en þau vandamál eru þó léttvæg miðað við hugsanleg áhrif á heilsufar manna.

Ný rannsókn gefur vísbendingu um auknar líkur á krabbameini þeirra sem búsettir eru á eða í nágrenni háhitasvæða. Sú rannsókn byggir hins vegar á svo þröngum grunni að ítarlegri rannsóknir eru nauðsynlegar. Í andmælum vegna ætlaðra virkjana á Hengils- og Hellisheiðarsvæðum dags. 28.09. 2009 var bent á þennan vanda og vitnað til alþjóðlegra rannsókna í Nýja-Sjálandi og Finnlandi sem gæfu m.a. vísbendingar um aukningu öndunarfærasjúkdóma og styttri líftíma þeirra sem byggju lengi á svæðum með lágan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Ný íslensk skýrsla um aukna notkun asmalyfja einkum í hópi eldra fólks í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar bendir til aukningu öndunarfærasjúkdóma sem innöndun á brennisteinsvetni í lágum styrk kann að valda.

Allt þetta kallar á auknar rannsóknir á þessum sviðum og heilsa og lífslíkur fólks verða að njóta vafans.

Þá hefur komið í ljós að frekari rannsókna er þörf á fornminjum í Eldvörpum og Krýsuvík en sumar þeirra munu lenda undir fyrirhuguðum borstæðum.

Því er engan veginn forsvaranlegt að samþykkja óbreytta þá Rammaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi og kveður á um allt að 16 jarðvarmavirkjanir frá Reykjanestá að Þingvallavatni. Öll jarðhitasvæði Reykjanesskagans ætti því að setja amk í biðflokk.

 

  1. nóvember 2012.

Stjórn NSVE.