Orkustofnun brást hlutverki sínu

posted in: Ályktanir | 0

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands lýsa furðu á leyfisveitingu Orkustofnunar fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 og beiðni Landsnets um eignanám á jörðum á Vatnsleysuströnd á áætlaðri línuleið. Ekki verður séð á gögnum að Orkustofnun hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu sem skyldi heldur látið Landsnet mata sig á upplýsingum sem henta markmiðum fyrirtækisins. Enn og aftur hefur Landsnet lagt fram gömul gögn í greinargerð sem fyrirtækið lagði fyrir jarðstrengjanefnd Alþingis með tillögu sem nefndin hafnaði!

Ekki er litið á skýrslu Metsco; einu óháðu samanburðarskýrslunnar sem gerð hefur verið á jarðstrengjum og loftlínum á Íslandi. Ekki er litið til þeirra framfara sem orðið hafa í lagningu jarðstrengja t.d. með hliðsjón af Frakklandi. Ekki er litið til breyttra kostnaðarhlutfalla eða yfirlýsinga forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsnets þess efnis að vegna mikilla verðlækkana á jarðstrengjum á síðasta ári ætli fyrirtækið að láta endurskoða kostnaðaráætlanir sínar út frá bestu fáanlegu upplýsingum.

Landsnet leikur enn á ný sama blekkingarleikinn og gert var gagnvart bæjarstjórn Voga þegar hún var véluð til samkomulags um lagningu 220 kV háspennulínu yfir sveitarfélagið. Þar hélt Landsnet uppi áróðri um gífurlegan kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína og til grundvallar var bæjarstjórnarmönnum afhent bresk skýrsla frá Parson Brinckerhoff: „Electricity Transmission Costing Study“ sem fjallar einungis um 400kV strengi í Englandi og Wales!

400kV jarðstrengir eru allt annað og flóknara mál en 220kV. Þeir eru mikið dýrari og enn er tæknin ekki komin svo langt að t.d. franska raforkuflutningsfyrirtækið RTE sem hefur lagt yfir 1000 km af 225 kV jarðstrengjum, telji ráðlegt að leggja 400kV jarðstrengi nema í undantekningar tilfellum.

Landsnet hefur ekki útskýrt með sannfærandi hætti þörfina fyrir svo öflugu flutningsmannvirki sem fyrirhuguð háspennulína er. Talað hefur verið um að bæta þurfi flutningsöryggi til Suðurnesja en það útskýrir engan veginn hvers vegna leggja þarf háspennulínu fyrir um 26-falda núverandi ársnotkun á svæðinu og 17-falda þá flutningsgetu sem talin er að notuð verði árið 2050 samkvæmt spám.

 

Sú 220 kV háspennulína, sem Landsnet hyggst reisa, hefur því flutningsgetu langt umfram almenna raforkuþörf.

Í andmælum vegna línunnar hefur verið bent á að svo öflugt mannvirki sé óþarft og bent á vægari leiðir að því markmiði að tryggja raforkuöryggi. Orkustofnun hefur í engu virt þau sjónarmið en samþykkti í einu og öllu það sem Landsnet lagði fram, þrátt fyrir rýran og óskiljanlegan rökstuðning. Nægir þar að nefna upptalningu Landsnets á öllum mögulegum virkjunarkostum í nýtingar- og biðflokki samkvæmt rammaáætlun auk núverandi uppsetts afls á Reykjanesi. Þau rök verða að teljast furðuleg hjá Landsneti að flytja þurfi allt það hugsanlega afl í einhverri óskilgreindri framtíð í ljósi þess að lítið sem ekkert er vitað um vinnslugetu þessara svæða. Einnig er fullyrt að eins og málum sé háttað í dag, hafi svæðið ekki N-1 tengingu. Hið rétta er að tengivirkið við Fitjar hefur N-1 tengingu, með Fitjalínu sem flytur rafmagn frá Reykjanes- og Svartsengjavirkjun auk Suðurnesjalínu 1. Ef Suðurnesjalína fellur út má því nýta það rafmagn sem framleitt er á svæðinu til raforkunotkunnar þar.

Orkustofnun hefur m.a. það hlutverk að gæta þess að ekki séu reist flutningsmannvirki sem ekki er þörf á. Til að gegna þessu hlutverki þarf Orkustofnun að leggja sjálfstætt mat á þörf fyrir mannvirki.

Sent á fjölmiðla 14. des. 2013.