Gagnrýna eignarnámsleyfi iðnaðarráðherra

posted in: Ályktanir | 0

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau mótmæla leyfi iðnaðarráðherra til eignarnáms vegna lagningar Suðurnesjalínu 2:

,,Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd mótmæla harðlega ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að veita Landsneti hf. heimild til að taka jarðir á Reykjanesskaga eignarnámi vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2.

Áætluð framkvæmd er 32,4 km löng 220 kV háspennulína á allt að 30 metra háum möstrum frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel í Reykjanesbæ. Á 7 km kafla í Hafnarfirði er áætlað að leggja línuna yfir ósnortið hraun, en frá sveitarfélagamörkum við Sveitarfélagið Voga er áætlað að leggja línuna steinsnar fyrir ofan Reykjanesbraut með núverandi 132 kV línu en á miklu hærri möstrum og að auki leggja nýja vegaslóða að hverju mastri á línuleiðinni. Um stórframkvæmd er að ræða sem mun hafa umtalsverð og óásættanleg umhverfisáhrif.

Með raforkulögum, nr. 65/2003, var Orkustofnun falið víðtækt umsjónarhlutverk í raforkumálum, einkum eftirlit með sérleyfisþáttum, þ.e. flutningi og dreifingu raforku. Landsneti hf. ber einnig að starfa samkvæmt raforkulögum en markmið laganna er: „að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.“

Ekkert mat á þjóðhagslegri hagkvæmni Suðurnesjalínu 2 hefur farið fram. Ekki hefur heldur farið fram mat á þörf fyrir svo stóra línu, með flutningsgetu yfir 600 MW, en það er margföld orkuþörf (til almennra nota á Suðurnesjum) samkvæmt raforkuspá Orkuspárnefndar árið 2050.

Ráðuneytið byggir ákvörðun sína nær eingöngu á rökum Orkustofnunnar fyrir leyfisveitingu vegna framkvæmdarinnar frá 5. desember 2013, en að mati undirritaðra vanrækti Orkustofnun þar illilega eftirlitshlutverk sitt og afritaði niðurstöðu sína nær beint upp úr texta Landsnets hf. í stað þess að gera sjálfstætt mat, m.a. á flutningsþörf og valkostum líkt og stofnunninni ber samkvæmt raforkulögum og reglugerð. Þessa ákvörðun Orkustofnunnar hafa Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd þegar kært til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í afstöðu sinni tekur Orkustofnun og nú líka Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið undir þau rök Landsnets hf. að þörfin fyrir háspennulínu með flutningsgetu fyrir 600MW byggist á þörf fyrir raforkuflutning frá virkjunarkostum rammaáætlunar, þ.e. virkjunarkostum í nýtingarflokki með 280 MW uppsett afl og biðflokki með 100 MW uppsett afl, auk núverandi virkjana með 175 MW uppsett afl. Samtals 555 MW.   Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd benda á að alls er óvíst að virkjanir í biðflokki ramaáætlunar verði reistar. Það er heldur ekki fullvíst að virkjanir í nýtingarflokki verði byggðar, m.a. vegna óvissu um framleiðslugetu þessara svæða á Reykjanesskaga.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd benda á að verðmunur á jarðstrengjum og loftlínum hefur farið ört minnkandi á síðustu árum og standast upplýsingar í gögnum málsins um 5-9 faldan verðmun engan veginn miðað við nýjustu upplýsingar um þróun jarðstrengja. T.d. gerði kanadíska ráðgjafafyrirtækið Metsco Energy Solutions almennan samanburð á jarðstrengjum og loftlínum miðað við íslenskar aðstæður í nóvember 2013, þar sem fram kemur að ef horft er til líftímakostnaðar er verðmunur á 220 kV loftlínum og jarðstrengjum einungis 1,2 og 1,04 á 132 kV. Einnig hefur reynsla og þekking á jarðstrengjalögnum t.d. í Frakklandi, leitt til þess að jarðstrengir af þessari stærðargráðu eru lagðir með vegum og valda því lágmarkstjóni á náttúru. Þá benda samtökin á að í niðurstöðu nefndar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipaði um lagningu raflína í jörð, náðist samkomulag um að á náttúruverndarsvæðum og svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum (þ.m.t. eldhraun) ætti að kanna umhverfisáhrif hvoru tveggja, jarðstrengja og loftlína, óháð kostnaðmuni. Hluti þess svæðis sem Suðurnesjalína 2 liggur um er á slíkum svæðum.”