Mikilvægu vatnsverndarsvæði fórnað fyrir vafasaman ávinning

posted in: Ályktanir | 0

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands – NSVE – lýsa þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss í þágu virkjunaráforma Orkuveitu Reykjavíkur á svokölluðum Norðurhálsum við rætur Skálafells á Hellisheiði. Samtökin leggjast alfarið gegn því að þessu svæði – sem er undir hverfisvernd og að meginhluta á skilgreindu vatnsverndarsvæði – verði breytt í iðnaðarsvæði að beiðni OR.

Sveitarfélag sem er reiðubúið að fórna mikilvægu vatnsverndarsvæði fyrir vafasaman ávinning sýnir vítavert fyrirhyggjuleysi og skammsýni. Á meðan ekki hafa verið gerðar fullnægjandi rannsóknir á orkuforðabúrinu undir Norðurhálsum og í næsta nágrenni er fráleitt að hefja þar orkuvinnslu með tilheyrandi kostnaði og jarðraski sem blasa mun við vegfarendum á leið yfir Hellisheiði. Ljóst er að núverandi vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar stendur ekki undir fullum afköstum til frambúðar – svæðið er minna og ekki eins orkuríkt og talið var. Samkvæmt þeirri stefnu sem fylgt hefur verið er vökvaupptaka úr jarðhitageymum of mikil og stöðug til skamms tíma. Ágeng nýting jarðvarmans uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbæra þróun og með sama áframhaldi verður auðlindin þurrausin á nokkrum áratugum. Ekki hefur heldur verið ráðin bót á brennisteinsmengun og áhrifum hennar á heilsufar fólks. Vandamál tengd losun affallsvatns eru einnig óleyst. Öll áform um frekari háhitavirkjanir á Íslandi eru því ótímabær þangað til fundist hafa viðunandi lausnir á þessum þáttum.

29. nóvember 2013.
Stjórn NSVE