Forsvarsmenn Landsnets hafa ítrekað haldið fram rakalausum þvættingi þess efnis ekki sé möguleiki að leggja 220kv háspennulínu í jörð, þrátt fyrir að reynsla í öðrum löndum, t.d. í Frakklandi sýni allt annað. Bera þeir fyrir sig kostnað og afhendingaröryggi. Iðnaðarráðherra og Orkustofnun hafa látið Landsnet mata sig á röngum upplýsingum og lagt þær til grundvallar ákvörðunum um eignarnám, án þess að kynna sér málið eða leita réttra upplýsinga.
Haustið 2013 átti sendinefnd áhugafólks um jarðstrengi fund með forsvarsmönnum franska raforkuflutningsfyrirtækisins RTE (Réseau de Transport d’Electricité), í París. Ástæða fundarins voru upplýsingar um að RTE legði 225kV jarðstrengi í Frakklandi með góðum árangri og væri kostnaður við jarðstrengina sambærilegur við loftlínur sé litið til líftímakostnaðar.
Frakkar leggja nær allar nýjar 225kV raflínur í jörð
Landsnet áætlar að leggja nýja háspennulínu, Suðvesturlínu 2/Suðurnesjalínu 2 á allt að 30 metra háum möstrum frá Hellisheiði að Geithálsi, þaðan til Hafnarfjarðar og eftir endilöngu Reykjanesinu -suður í Fitja í Njarðvík. Frá Fitjum er áætlað að leggja annars vegar háspennulínu að Rauðamel en hins vegar jarðstreng til Helguvíkur. Skv. umsókn um framkvæmdarleyfi til Orkustofnunnar kemur fram að sá hluti sem kallast Suðurnesjalína 2 frá Hamranesi í Hafnarfirði sé hannaður sem 220kV háspennulína en gert sé ráð fyrir að reka hana fyrst um sinn sem 132 kV línu. Forsvarsmenn Landsnets hf. hafa haldið því fram að ekki sé möguleiki að leggja línuna af svo hárri spennu í jörð vegna kostnaðar og afhendingaöryggis. Fróðlegt er því að skoða reynslu franska raforkuflutningsfyrirtækisins á lagningu 225kV strengja.
Frakkar reka lengsta flutningskerfi í Evrópu, alls 100.000 km og eru þeir mjög framarlega í lagningu öflugra jarðstrengja. Franska meginflutningskerfið er byggt upp á 400 og 225kV spennu. Enn er tækni ekki komin svo langt að fýsilegt sé að leggja 400kV raflínur í jörð í stórum stíl. Hinsvegar hafa Frakkar lagt 225kV raflínur í jörð undanfarna áratugi og eru alls 1.037 km af línum á þeirri spennu í jörð nú þegar. Frá árinu 2009 hefur nýlagnir í lofti á þessu spennustigi heyrt til algerra undantekninga. Notuð er nýjasta kynslóð jarðstrengja og stöðugar framfarir eru í verkþekkingu við lagningu þeirra.
Kostnaður sá sami við 400MW afl
Fram kom hjá fulltrúa franska flutningsfyrirtækisins í kynningunni að fyrirtækið gerir í útreikningum sínum ráð fyrir að núvirtur kostnaður við það að leggja jarðstrengi fyrir allt að 400MW afl í dreifbýli sé jafn á við loftlínur. Þó stofnkostnaður sé meiri við svo öfluga jarðstrengi, sýna útreikningar Frakkanna að m.a. lægri flutningstöp og minni viðhaldskostnaður vegur fyllilega upp á móti því. Afskriftartími beggja kerfanna er reiknaður 45 ár.
Endingartími jarðstrengja betri en loftlína
Raflínur eru byggðar til að endast í marga áratugi en hérlendis er gengið út frá því að háspennulínur í lofti endist í um 70 ár. Undanfarið hefur þó orðið töluvert tjón á háspennulínum vegna veðurs og umræða um sjónmengun að völdum loftlína farið ört vaxandi. Því er eðlilegt að horft sé í auknum mæli til jarðstrengja í stað loftlína, einnig á hæstu spennu sem hér er notuð. Ekki hafa enn verið lagðir jarðstrengir hér á hærri spennu en 132kV, né gerðar miklar rannsóknir á jarðvegi hentugum til þess að leiða hitann frá jarðstrengjum svo þeir ofhitni ekki. Það er eitt mikilvægasta atriðið í endingu þeirra. Líkt og í Frakklandi er hérlendis mjög mismunandi jarðvegur og verður því að skoða hvert landsvæði og miða hönnun út frá því.
Í heimsókn sendinefndarinnar til Parísar í október var fullyrt af hálfu RTE að þeir jarðstrengir sem Frakkar leggja núna gengju alls ekki úr sér. Skv. rannsóknum á engin öldrun á sér stað í strengnum, sé hann rekinn innan hitaþolmarka 90°C og að vatn komist ekki inn fyrir kápu. RTE áætlar líftíma jarðstrengjanna lengri en 70 ár. Tengingar eru meiri óvissu háðar, en reiknað er með að þær endist yfir 40 ár. Vel er fylgst með hitastigi strengjanna og endingin er því betri en loftlína.
Lagning 225kV jarðstrengja
Frakkar leggja jarðstrengina í 97% tilfella með vegum og því er mjög lítið jarðrask vegna nýrra vegaslóða. Við lagningu 225kV strengja er grafinn 80 cm breiður skurður sem er unnt er að hafa aðeins 130 cm djúpa með þeirri tækni sem notuð er í Frakklandi, en þeir leggja þrjú plaströr í skurðinn og steypa yfir og fylla síðan skurðinn. Jarðstrengirnir eru loks dregnir í gegnum rörin. Þannig er strengurinn vel varin gegn utanaðkomandi hnjaski og lítil óvissa er um hitaleiðni jarðvegsins.
Samanburður kanadíska ráðgjafafyrirtækisins Metsco energy Solutions Kanadíska ráðgjafafyrirtækið Metsco energy Solutions hefur nýlega gert almenn samanburðakönnun á lagningu jarðstrengja og loftlína á Íslandi á spennustigunum 132kV og 220kV að beiðni Landverndar.
Niðurstaða fyrirtækisins er sú að þegar horft er til líftímakostnaðar og miðað við 60 ára líftíma sem en lægra en t.d. RTE gerir ráð fyrir, er kostnaðarmunur :
-132 kV línu með 200 MW flutningsgetu 1,04, en
-220 kV línu með 400 MW flutningsgetu 1.20.
Þegar gerður er samanburður á jarðstrengjum og loftlínum er rétt að meta líftímakostnað en ekki einungis stofnkostnað eins og Landsnet hf. gerir. Líftímakostnaður er samanlagður kostnaður strengsins/línunnar yfir allan líftímann, þ.e. stofnkostnaður, rekstrar- og viðhaldskostnaður, flutningstöp og allur annar kostnaður við að leggja og reka strenginn/línuna yfir líftímann (hér 60 ár).
Ef einungis er horft til stofnkostnaðar eru jarðstrengir töluvert dýrari en mjög lítill rekstrarkostnaður fylgir þeim, flutningstöp eru minni og bilanatíðni mjög lítil, einnig eru áhrif á náttúru og upplifun af landslagi afar lítil ef vönduð vinnubrögð eru höfð í verki. Miðað er við nýjustu kynslóð jarðstrengja.
Í niðurstöðum Metsco energy Solutions kemur einnig fram að:
-Líftími jarðstrengja og loftlína ætti að vera metinn svipaður
-Áhættusamt sé að byggja loftlínur á umdeildum svæðum sem gætu verið rifnar áður en líftíma er náð vegna aukins þrýstings.
-Mikilvægt að meta heildaráhrif á þjóðfélag þegar ákvarðanir eru teknar.
-Skoða þarf hvert tilvik sérstaklega .
-Jarðstrengi beri að skoða til jafns við loftlínur við lagningu nýrra raflína.
Hræðsluáróður Landsnets
Forsvarsmenn Landsnets hf. hafa haldið því fram að kostnaður við að leggja jarðstrengi á 220 kV spennu sé margfaldur kostnaður við lagningu háspennulína. Árið 2011 var kostnaðurinn sagður 7-10 sinnum meiri og árið 2012 var hann sagður 5-8 sinnum meiri. Á síðasta ári nefndu bæði forstjóri og aðstoðarforstjóri í fjölmiðlum að jarðstrengir væri 3 sinnum dýrari en loftlínur. Sú tala virðist þó aldrei hafa komist til þeirra sem sjá um samningaviðræður við landeigendur og sveitarfélög fyrir Landsnet hf. Hér er alltaf talað um stofnkostnað, ekki líftímakostnað. Fyrirtækið hefur einnig haldið uppi miklum hræðsluáróðri um að raforkuverð til almennings muni hækka gífurlega verði ráðist í lagningu jarðstrengja t.d. á línuleið Suðurnesjalínu 2.
Samningar við bæjarstjórn Voga á fölskum forsendum?
Í júní sl. náði Landsnet hf. samningum við nýjan meirihluta bæjarstjórnar Voga um lagningu Suðurnesjalínu 2 sem 220 kV háspennulínu yfir sveitarfélagið. Í aðdraganda málsins höfðu talsmenn Landsnets hf. haldið fundi með þeim bæjarstjórnarmönnum sem þeir höfðu von um að ná á sitt band en útilokað aðra. Eins og áður var haldið uppi áróðri um gífurlegan kostnaðarmun jarðstrengja og loftlína og til grundvallar var bæjarstjórnarmönnum afhent bresk skýrsla frá Parson Brinckerhoff: „Electricity Transmission Costing Study“ , frá janúar 2012. Skýrslan er með viðauka frá apríl 2012, mikill doðrantur upp á 334 blaðsíður. Skýrslan er ágæt fyrir sitt leiti en í formála hennar kemur fram að hún fjalli einungis um 400kV strengi í Englandi og Wales!
400 kV jarðstrengir eru allt annað og flóknara mál en 220kV. Þeir eru mikið dýrari og enn er tæknin ekki komin svo langt að t.d. franska raforkuflutningsfyrirtækið RTE telji ráðlegt að leggja jarðstrengi af þeirri spennu í stórum stíl. Hvort bæjarstjórnarmenn í Vogum voru ekki læsir á skýrsluna, skal ósagt látið, en þær upplýsingar sem þeim voru veittar að hálfu forsvarsmanna Landsnets voru ekki réttar er varðar áætlaða Suðurnesjalínu 2, 220 kV línu.
Er þörf fyrir nýja 220 kV línu á Suðurnesin?
Samkvæmt gögnum í umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi til Orkustofnunnar er gert ráð fyrir að af því rafmagni sem flutt verður um Suðurnesjalínu 2 verði 30% til dreifiveitna, en 70 % til stóriðju. Samkvæmt langtíma kerfisáætlun Landsnets er einungis gert ráð fyrir um 2% árlegri aukningu í raforkunotkun til almennra nota fram til ársins 2030. Samkvæmt raforkuspá Orkuspárnefndar fyrir árin 2012-2050 mun árleg aukning raforkunotkunar vera að meðaltali 1,7% fram til ársins 2050. Í sömu raforkuspá er gert ráð fyrir að raforkunotkun Suðurnesja, bæði forgangs- og ótryggð orka, fyrir árið 2013 sé 202,4 GWh (202400 MWh) og verði um 309,4 GWh árið 2050 (309400 MWh). Sé áætluð raforkunotkun ársins 2050 á Suðurnesjum umreiknuð í MW fást u.þ.b. 35,3 MW. Samkvæmt matsskýrslu Landsnets um Suðvesturlínur yrði flutningsgeta 220 kV Suðurnesjalínu 2 u.þ.b. 600 MW (690 MVA). Gæti því fyrirhugað mannvirki flutt um 26-falda núverandi ársnotkun á svæðinu og 17-falda þá flutningsgetu sem talið er að notuð verði árið 2050 samkvæmt spám. 220 kV háspennulína, sem Landsnet hyggst reisa, hefur því flutningsgetu langt umfram almenna raforkuþörf á svæðinu til framtíðar litið og ekki verður annað séð en 132 kV lína myndi fyllilega anna fyrirséðri þörf næstu áratugi. Raunveruleg þörf á línu af jafn hárri spennu og mikilli flutningsgetu og fyrirhugað er að reisa, er því ekki fyrir hendi.
Viðbrögð forsvarsmanna Landsnets við nýjum upplýsingum
Í svari við opnu bréfi Guðmundar Inga Ásmundssonar aðstoðarforstjóra Landsnets hf. í Akureyrarblaðinu 10. október s.l. segir hann:
,,Miðað við kostnað og tækni hefur ekki verið raunhæft að leggja afkastamestu línurnar í jörð, nema ímjög takmörkuðum mæli. Á þessu ári hefur hins vegar orðið ákveðin þróun til verðlækkunar á spennuhærri strengjum, jafnframt því sem verið er að leita leiða til að lækka kostnað við lagningu þeirra í jörð. Landsnet er því að láta endurskoða kostnaðaráætlanir varðandi jarðstrengjalausnir, út frá nýjustu og bestu upplýsingum sem fánalegar eru frá flutningsfyrirtækjum í Evrópu, og verður að sjálfsögðu tekið tillit til þeirra niðurstaðna, þó ljóst sé að áfram verði strengir mun dýrari kostur en línur.“
Í viðtali í Fréttablaðinu 21. október s.l. tekur Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets hf. í sama streng. Hann segir: „Við erum að endurskoða allar okkar áætlanir um jarðstrengi; ekki síst einstaka kostnaðarþætti er varða jarðstrengjavæðingu.“
Við eigum val!
[Best_Wordpress_Gallery id=”7″ gal_title=”Suðurnesjalína 2″]