Aðalfundur 2012

posted in: Fundargerðir aðalfunda | 0

Aðalfundur NSVE var haldinn 17. apríl 2012 samkvæmt eftirfarandi boðaðri dagskrá stjórnar

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, NSVE, kalla félagsmenn til aðalfundar klukkan 20:00 þriðjudaginn þann 17. apríl 2012 í Gaflaraleikhúsinu, Strandgötu 50 í Hafnarfirði.

Setning aðalfundar

Kjör fundarstjóra og annara embættismanna

Skýrsla stjórnar og umræður um hana

Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu

Lagabreytingar:

Fyrir liggja tvær tillögur um lagabreytingar:

             Að auk fimm manna stjórnar verði kjörnir þrír varamenn í stjórn

              Að skammstöfun Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands verði NSVE

Kjör stjórnar

Kjör skoðunarmanns

Ákveðið árgjald

Fjárhagsáætlun lögð fram

Ályktanir aðalfundar

Skipun í aðgerðahópa

Önnur mál

Formaður, Jóhannes Ágústsson setti fund, var skipaður fundarstjóri og Björn Pálsson fundarritari. Síðan var gengið til dagskrár:

 

1) Skýrsla formanns: Jóhannes gerði grein fyrir starfi samtakanna  og stöðu. NSVE er orðinn fullgildur aðili að Landvernd en starfsemin hefur einkum beinst að „Ramma-áætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.“ Það er áhyggjuefni hversu nýtingarstefnan er ráðandi í því lagafrumvarpi, sem er til umræðu á Alþingi, einkum er varðar  landsvæði NSVE. Þar má sérstaklega nefna Krýsuvíkursvæðið.  Fram kom að bréf stjórnar NSVE til alþingismanna hafi skilað nokkrum árangri. Þannig hafi stjórnin fengið boð um fund með alþingismönnum VG og Samfylkingar.  Þá hafa nokkrir alþingismenn lýst stuðningi við stefnumið NSVE. Þá gat hann sérstaklega um Náttúruverndarþing sem haldið verður laugardaginn 28. apríl. Að lokinni framsögu formanns urðu miklar og fjörugar umræður um málin. Fram kom mjög skörp gagnrýni á hina svokölluðu faglegu umræðu og það sjónarmið að í þeirri umræðu hefðu þeir, sem horfa aðeins til stundarhagsmuna, ráðið för of lengi. Í náttúruverndarmálum yrði að horfa langt til framtíðar og hvernig hagsmunum komandi kynslóða verði best borgið á Íslandi.

 

2) Ársreikningur gjaldkera: Eydís Franzdóttir gerði grein fyrir fjárhagsstöðunni. Þar sem ársreikningur fylgir almanaksárinu er reikningurinn ekki flókinn, nær aðeins yfir tíma-bilið 18. október (stofndagur NSVE) til 31. desember 2011. Innkomin félagsgjöld hinn 31. des. 2011 voru kr. 60.000 og vextir 2. kr. Útlagður kostnaður var aðeins kr. 6.000 þannig að staða um áramót var eign að upphæð kr. 54.002. Skoðunarmaður ársreiknings NSVE var ekki staddur á fundinum og gjaldkeri náði ekki til hans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði fundarmanna og samþykktur.

3) Lagabreytingar: Aðalfundurinn samþykkti tillögu formanns um að 3 fulltrúar verði kjörnir í varastjórn. Þá var einnig samþykkt sú tillaga að skammstöfun félagsins verði NSVE en ekki NSV. Rökstuðningur formanns fyrir þeirri breytingu var sá að við gerð heimasíðu samtakanna kom í ljós að skammstöfunin nsv.is er þegar í notkun en nsve.is ekki. Aðalfundurinn samþykkti því tillögu formanns. Í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands skal því  kjósa þrjá varamenn og skammstöfun samtakanna er  NSVE.

 

4) Kjör stjórnar og skoðunarmanns: Aðalstjórn var endurkjörin en hana skipa Jóhannes Ágústsson, Björn Pálsson, Eydís Franzdóttir, Helena Mjöll Jóhannsdóttir og Ellert Grétarsson. Í varastjórn voru kjörin Guðrún Ásmundsdóttir, Jóhann Davíðsson og Stefán Erlendsson. Skoðunarmaður ársreiknings var kjörinn Lárus Vilhjálmsson.

 

5) Samþykkt var að árgjald kr. 1.500  yrði óbreytt árið 2012. Fjárhagsáætlun næsta árs var ekki lögð fram, en engar athugasemdir gerðar þar um.

 

6) Ályktun aðalfundar: Fundurinn felur stjórn NSVE að kynna og fylgja eftir stefnu-málum samtakanna.

 

7) Aðgerðarhópar: Samþykkt var að stofna þrjá aðgerðahópa. Þeir eru um: I. Hengils-svæðið (Björn Pálsson), II. Krísuvíkursvæðið (Helena Mjöll) og III. Reykjanessvæðið (Ellert Grétarsson). Nöfn í sviga eru þeirra sem hafa skulu forgöngu um gerð hópanna. Samþykkt var að senda félögum bréf með boði um þátttöku í aðgerðahópunum. Jóhannes gat um kærurétt og þau lög sem hóparnir geta stuðst við og nálgast á:

althingi.is à Lagasafn à Kaflar lagasafns à 35 Umhverfismál. Þau lög eru:

1)      Lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 2011 nr. 130 – 30. september, öðluðust gildi 1. janúar 2012.

2)      Lög um mat á umhverfisáhrifum 2000 nr. 106 – 25. maí, þessum lögum var breytt með lögum nr. 13/2011 og öðluðust breytingarnar gildi þann 1. janúar 2012.

3)      Lög um umhverfismat áætlana 2006 nr. 105 – 14. júní, breytt með lögum nr. 126/2011 og öðluðust breytingarnar gildi þann 30. september 2011.

4)      Lög um upplýsingarétt um umhverfismál 2006 nr. 23 – 12. apríl. Lög þessi tóku gildi þann 3. maí 2006 og hefur verið breytt nokkrum sinnum síðan.

5)      Lög um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997 með síðari breytingum.

 

8) Önnur mál: Fram kom það viðhorf að ætluðum jarðvarmavirkjunum svo sem í Krýsu-vík yrði berjast gegn af fullri einurð. Rétt væri að fá til samstarfs ýmis samtök sem hefðu hliðstæða sýn til náttúruverndar og voru þar nefnd samtök eins og Framtíðarlandið, Sól í Straumi o.fl. Þá ætti að standa þétt að baki Landverndar og Náttúruverndarsamtökum Íslands í baráttu þeirra samtaka. Þá voru félagar hvattir til að sækja ráðstefnur á þessu sviði. s.s. Náttúruverndarþingið þann 28. apríl nk. Rætt var um vettvangsgöngur og farið lofsamlegum orðum ljósmyndabók þá sem Ellert hefur sett upp á netinu og heimasíðu-gerð hans.

Fleira ekki fært til bókar, fundi slitið kl 22:30. Fundargerð skráði : Björn Pálsson