Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands árið 2015
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, NSVE, kölluðu félagsmenn til aðalfundar klukkan 20:00 miðvikudaginn 29. apríl 2015 í Gaflaraleikhúsinu, Strandgötu 50 í Hafnarfirði samkvæmt eftirfarandi dagskrá:
- Setning aðalfundar, kjör fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
- Endurskoðaður reikningur lagður fram til afgreiðslu.
- Kjör stjórnar og skoðunarmanns ársreiknings.
- Ályktanir aðalfundar.
- Önnur mál.
1) Helena Mjöll, formaður, setti fund, lagði til að Stefán Erlendsson yrði fundarstjóri og Björn Pálsson fundarritari og var sú tilhögun samþykkt.
- Helena Mjöll flutti eftirfarandi ársskýrslu:
2014-2015 var okkar fjórða starfsár. Það hefur ekki verið nein breyting frá fyrri árum að stjórnarstarfið hafi einkennst af mikilli vinnu, og skýrist það trúlega mest af því að stjórnarmenn láta sig náttúru landsins skipta miklu og því er í mörg horn að líta enda vita allir að ef við erum ekki á tánum og stöndum vörð um náttúruna, þegar t.d. kemur að virkjunum, borunum, rafmagnslínum, vegagerð, rammaáætlun, og fleiru, þá væri verr komið á mörgum stöðum. Sumum finnst kannski að við áorkum litlu, og þið megið vera viss um að þannig er það oft með okkur í stjórninni líka. En víst er að við reynum og það er það sem telur.
Fyrsti stjórnarfundur NSVE var haldinn í Herdísarvík og Strönd í Selvogi á sjálfan höfuðdaginn 29. ágúst og gaman að segja frá því hér að í upphafi þess fundar minntist Guðrún Ásmundsdóttir, stjórnarmaður NSVE, Hlínar Johnson og Einars Benediktssonar, síðustu ábúenda í Herdísarvík, og flutti hún „Hvarf séra Odds frá Miklabæ“ eftir Einar með sínum einstaka hætti og undirrituð var hreinlega komin í geðshræringu af hrifningu.
Stjórnin skipti formlega með sér verkum og er sú skipan óbreytt frá því sem var fyrir síðasta aðalfund. En hún er þannig skipuð:
Formaður Helena Mjöll Jóhannsdóttir,
Varaformaður, Ellert Grétarsson,
Gjaldkeri, Eydís Fransdóttir,
Ritari, Björn Pálsson,
Meðstjórnandi, Guðrún Ásmundsdóttir,
Varamenn, Jóhann Davíðsson, Stefán Erlendsson og Jónas P. Hreinsson.
Fimm formlegir stjórnarfundir hafa verið haldnir. Stjórnin lagði upp með góð áform um að halda fundi að jafnaði mánaðarlega á yfirstandandi starfsári, en válynd veður komu algjörlega í veg fyrir þær áætlanir og urðum við oftar en ekki að fresta fundum, og létum þess í stað tölvu- og símasamskipti duga okkur enda lifum við á tækniöld.
Við í NSVE komum víða við og má geta þess að eitt af því fyrsta sem við tókum þátt í eftir aðalfundinn 22. maí s.l. vor var sameiginlegur fundur með íbúasamtökum í efri byggðum Reykjvíkurborgar, Asma- og ofnæmissamtökum Íslands, Waldorfskólanum og Landvernd. Yfirskrift fundarins var Brennisteinsvetnismengun – Eru heilsa okkar og fjármunir í hættu? Borgarafundur um brennisteinsvetnismengunina frá jaðhitavikjunum Orkuveitu Reykjavíkur og sátu þar í pallborði oddvitar flestra þeirra flokka sem buðu fram í borgarstjórnarkosningunum s.l. vor. Fundurinn var vel sóttur og gerður góður rómur að framtakinu, en eins og oft áður var Orkuveita Reykjavíkur með allmarga fulltrúa á sínum snærum dreifða um salinn. En það er orðið nokkuð algeng sjón þegar þeir eru að vinna fólk á sína skoðun.
Þann 21. október, þegar ár var liðið frá handtökunni í Gálgahrauni, var haldinn samstöðufundur í Gálgahrauninu sem tókst frábærlega vel og sóttu hann á annað hundrað manns. Fluttar voru ræður og Háskólakórinn söng nokkur lög og Ómar Ragnarsson söng Gálgarokk. Trefillinn mikli sem prjónaður var m.a. við réttarhöldin var hafður til sýnis svo og myndir sem hinir og þessir listamenn höfðu gert úti í Gálgahrauni og níðstöng var reist að fornum hætti. Kaffi og meðlæti var á staðnum og óhætt er að segja að veðurguðirnir hafi gengið í lið með okkur því veður var stillt en kalt en fram að því hafði verið óttaleg nepja með rigningu og kalsa.
Síðan voru haldnir tónleikar í Háskólabíói í lok októbermánaðar að frumkvæði Bubba Morthens. Fjölmargir listamenn lögðu hönd á plóg og gáfu þeir allir vinnu sína, en tilgangur tónleikanna var að safna fé sem afhent verður níumenningunum sem fengu dóm í Gálgahraunsmálinu. Þess má geta að fimmtudaginn 21. maí n.k. verður málflutningur vegna níumenninganna í Hæstarétti kl. 9:00.
Við höfum sett okkur vel inn í stöðuna varðandi Suðurnesjalínu 2 og sendum á sínum tíma inn athugasemdir við fyrirhugaða línugerð, og það gerðu fleiri t.d. landeigendur á Vatnsleysuströndinni.
Tregða Landsnets til þess að nýta jarðstrengi til flutnings raforku vekur furðu okkar. Vera má að ríkjandi hagsmunir verktaka og fleiri við uppsetningu loftlína og þekkingarleysi þeirra sömu aðila um jarðstrengi og lagnir þeirra valdi þar nokkru um. Nauðsynlegt virðist að koma upplýsingum þar um í almenna umræðu hérlendis.
Þess má geta að Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms um frávísunarkröfu Landsnets vegna máls sem varðar leyfisveitingu Orkustofnunnar fyrir Suðurnesjalínu 2. En Hæstiréttur hefur staðfest að NSVE er aðili að málinu og tekið undir ýmsar þær athugasemdir sem við höfðum gert. Fulltrúar frá okkur hafa mætt í Héraðsdóm þrisvar sinnum á yfirstandandi stjórnarári og áætlað er að réttað verði í málinu í júní mánuði en það er þó ekki öruggt.
Við höfum rætt um nauðsyn þess að hefja sóknarbaráttu til varnar einstökum og merkum jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga. En eins og flestir vita þá er stefnan sett á boranir í Eldvörpum og fara þar fremst í flokki Grindavíkurbær og HS Orka. Við höfum þegar sent inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins og munum trúlega láta það duga í bili alla vega en það kemur betur í ljós síðar.
Til álita hefur komið að skipuleggja stuttar gönguferðir um Eldvörpin og fleiri viðkvæm svæði til að gera baráttu okkar sýnilega almenningi og munum við halda vöku okkar og annara áfram með stuttum og markvissum greinum og ljósmyndum af viðkomandi svæðum. En einmitt hér nýtist heimasíða NSVE og fésbókarsíðan vel.
Úti í Helguvík hljómar eins og eitthvað langt í burtu eins og einn stjórnarmaður NSVE skrifaði á fésbókarsíðuna okkar en staðreyndin er reyndar sú að Helguvík er aðeins steinsnar frá íbúðarbyggð og hesthúsabyggðinni á Mánagrund.
Stóriðjuverksmiðjurnar sem nú stendur til að byggja þar eru ekki nema um einn og hálfan kílómetra frá vestustu og nyrstu íbúahverfum Reykjanesbæjar. Reynslan af slíku nábýli við stóriðju er ekki góð eins og íbúar í Hvalfirði hafa fengið að kynnast. Við höfum vítin til að varast. Bóndinn á Kúludalsá hefur þurft að fella 12 hross vegna flúormengunar en bærinn er í fjögurra kílómetra fjarlægð frá stóriðjunni á Grundartanga. Það verður spennandi að heyra hvernig samstöðufundurinn í dag hefur gengið hjá þeim sem láta sig þessi mál varða.
Ágangur ferðamanna er mikið áhyggjuefni og höfum við í stjórninni rætt mikið um að við þurfum að standa vörð um mest sóttu náttúruperlur Suðvesturlands með því t.d. að minna á gerð góðra göngustíga, salernisaðstöðu og fleira.
Á degi eins og þessu, þegar vorið er farið að knýja dyra og sólin hækkar stöðugt á lofti, hlökkum við flest til komandi mánaða enda náttúran alltaf svo falleg í græna hlýja litnum. Ólíkt síðustu vikum þar sem veturinn hefur verið þaulsætinn með landslagið allt í skellum – gráum, hvítum og svörtum. En því er nú einu sinni þannig farið að landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, eins og segir í kvæði skáldsins. Þess vegna er það svo mikilvægt að til séu samtök eins og okkar því að þrátt fyrir að okkur finnist stundum að ekkert gerist og að ekkert sé hlustað á okkur eins og ég sagði hér í inngangsorðum mínum þá eru það einmitt samtök eins og okkar sem hlusta á almenning – sem vill náttúrunni vel og ýtir við stórfyrirtækjum, orkurisum og stjórnmálamönnum. Munum að dropinn holar steininn, við erum hvergi nærri hætt og höldum ótrauð áfram í baráttu okkur til verndar náttúru okkar. (Helena Mjöll form.)
Nokkrar umræður urðu um árskýrsluna. Þar var fjallað um ágreining milli Landsnets og Hafnarfjarðarbæjar um jarðstrengi eða loftlínur til flutnings rafmags á skipulagssvæði þess sveitarfélags. Fram kom að svo virðist að stofnanir s.s. Landsnet lúti engu opinberu eftirliti um gerðir sínar og hafi nánast sjálfdæmi þar um. Orkustofnun, sem samkvæmt lögum hefur hlutverk eftirlitsaðila, sinnir engan veginn þeirri skyldu sinni. Virðist jafnvel svo að ráðamenn þar hugsi fremur til þess að skapa starfsmönnum þar vinnu við undirbúning orkuvera en náttúrvernd og jafnvel heilsuskemmandi aðgerðir skipti litlu eða engu máli.
Þá var rætt nokkuð um heimasíðu NSVE og nauðsyn hennar til að koma upplýsingum til félaga o.fl. Heimassíðan hefur verið óvirk alllengi en Ellert varaformaður upplýsti að nú væri hún komin til annars hýsingaraðila og uppsetning hennar þar væri á lokastigi.
3) Ársreikningur gjaldkera: Eydís Franzdóttir gjaldkeri lagði fram ársreikning 2014 undirritaðan af skoðunarmanni og stjórn (sjá fylgiskjal í möppu). Heildartekjur ársins voru kr. 94.234 og gjöld kr. 68.512. Hagnaður ársins með vaxtatekjum að frádregnum fjámagnstekjuskatti varð kr. 25.722. Handbært fé NSVe var kr. 206.744 þann 1. jan. 2014 en er kr. 232.716 þann 31. des. 2014.
Fram kom í máli gjaldkera að innheimtu félagsgjalda hafi ekki verið fylgt nógu vel eftir á liðnu fjárhagsári. Óvirk heimasíða síðari hluta ársins hafi valdið þar nokkru en það stendur nú til bóta. Ársreikningurinn var samþykktur einróma af fundarmönnum og Eydísi þökkuð örugg og markviss stjórn á fjármálum félagsins.
4) Kjör stjórnar og skoðunarmanns ársreiknings: Sitjandi stjórn gaf kost á sér, engin mótframboð komu fram og stjórnin því öll endurkjörin með lófataki. Svo var einnig um kjör skoðunarmanns sem einnig var endurkjörinn.
5) Ályktanir aðalfundar:
- a) Eydís gjaldkeri lagði fram tillögu fjárhagsáætlunar vegna ársins 2015. Þar er gert ráð fyrir óbreyttu árgjaldi félagsmanna 1.500.
Heildartekjur ársins verði kr. 351.000 og áætluð gjöld kr. 308.195. Þá gerir fjárhagáætlunin ráð fyrir kr. 200.000 til verkefnisins Ljósmyndasýning á Ljósanótt. Fjárhagsáætlunin rædd nokkuð og samþykkt. (Sjá fylgiskjal í möppu).
- b) Ellert Grétarsson lagði fram og gerði grein fyrir mótmælasamþykkt vegna stór-iðjuframkvæmda í Helguvík. Einróma samþykkt aðalfundar NSVE 2015 er þessi:
Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands 2015 tekur undir þær áhyggjur sem fram hafa komið hjá íbúum í Reykjanesbæ undanfarið vegna þeirrar miklu stóriðjuvæðingar sem stendur fyrir dyrum í Helguvík, örskammt frá íbúabyggð og helstu frístundasvæðum bæjarins.
Hesthúsahverfið á Mánagrund og beitarland lendir allt innan þynningarsvæðisins þar sem mengun má vera yfir viðmiðunarmörkum og telur NSVE það algjörlega ábyrgðarlaust af bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ ætli þau sér að heimila byggingu kísilmálmverksmiðu sem staðsett er aðeins 1km frá Mánagrund og 1,4km frá íbúabyggð.
Í áliti Skipulagsstofnunar og fylgigögnum koma fram fjölmörg vafaatriði um loftdreifingu og mengun.
Meðal annars bendir Veðurstofan á að vindsvið líkankeyrslna hafi ekki verið sannreynt á nokkurn hátt, spár um dreifingu mengunarefna sé ekki byggðar á traustum gögnum og vinnslu dreifingarkortanna sé ábótavant. Einnig er athyglisvert að lesa nýlegt svar skýrsluhöfundar í Víkurfréttum þar sem hann segir spurningu um afdráttarlausar upplýsingar um loftgæði í íbúabyggð Reykjanesbæjar „ekki hægt að svara af mikilli nákvæmni“. Í sérfræðiáliti sem Skipulagsstofnun styðst við í áliti sínu er síðan lagt til að spárnar verði sannreyndar með vöktun eftir að rekstur hefst, „með hliðsjón af reynslunni frá Grundartanga“.
Samkvæmt þessu er lagt til að bæjarbúar verði gerðir að þáttakendum í lýðheilsutilraun stóriðjunnar í Helguvík, sem er vitaskuld algjörlega óásættanlegt. Með þessu væri einfaldlega verið að taka of mikla áhættu þar sem heilsa fólks og dýra væri lögð undir en verksmiðjurnar fengju að njóta vafans. Á það verður ekki fallist.
Að lokum skal bent á að réttur almennings til heilbrigðs umhverfis er varinn í umhverfislöggjöfinni, einnig í alþjóðlegri umhverfisslöggjöf. Jafnframt er kveðið á um þennan rétt í íslensku stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu.
6) Önnur mál:
Margt kom til umræðu undir þessum lið og margir komu með athugasemdir og ábendingar. Lárus Vilhjálmsson vakti athygli á því stóriðjuslysi sem nú væri í fullum gangi í Hvalfirði og spurði hvort eðlilegt gæti talist að sá sem menguninni ylli væri falið að annast eftirlit með sjálfum sér. Hann minnti á göngu Hraunavina þann 10. maí n.k. og hvatti til þáttöku í þeirri göngu. Þá gat hann um nauðsyn aukins þrýstings á stjórnmálmenn bæði í sveitarstjónum og Alþingi til verndar íslenskri náttúru. Fleiri fundarmenn s.s. Margrét Guðnadóttir, Hörður Einarsson, og Valdimar Harðarson auk stjórnarmanna tóku þátt í umræðum. Bent var á landlæga ofurtrú á stóriðju og nauðsyn þess að upplýsa almenning betur um þau heilsufarslegu vandamál sem kunna að verða fylgifiskar hennar. Þá svaraði Ellert Grétarsson spurningum fundarmanna um þann fund sem haldinn var með íbúum Reykjanessbæjar síðdegis þennan sama dag. Ellert taldi að þeim sveitarsjórnarmönnum og stóriðjusinnum sem sóttu fundinn mætti vera ljóst að mikil andstaða væri meðal íbúa um ætlaða stóriðju þar. Þá nefndi Stefán Erlendsson þann möguleika að hann snaraði yfir á ensku þeim greinum, sem birst hafa í fréttablaði NSVE, um Þingvallavatn og umhverfi þess. Slíkar greinar með góðum myndum gæti verið heppileg leið til þess að upplýsa erlenda gesti og áhugamenn um þá náttúruperlu og þær hættur sem vanhugsaðar gerðir okkar kunna valda þeirri alþjóðlegu náttúruparadís.
Fleira ekki fært til bókar. Aðalfundi slitið um kl. 22. / Björn Pálsson fundarritari.