Stjórnarfundur, miðvikudaginn 23. nóv. 2016.

posted in: Fundargerðir 2016 | 0

Annar stjórnarfundur sjöttu stjórnar NSVE var haldinn á heimili Helenar Mjallar, formanns, að Austurvegi 29b í Hafnarfirði  miðvikudaginn 23, nóv. 2016. Hófst fundurinn kl. 15:00 með rausnarlegum veitingum húsráðanda.

Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson,  Guðrún Ásmundsdóttir og Jóhann Davíðsson. Dagný Alda Steinsdóttir, Stefán Erlendsson og Lárus Vilhjálmsson voru fjarverandi.

Helena Mjöll formaður setti fund og eftirfarandi mál voru tekin til umræðu:

  1. Rætt var um stöðu mála í Reykjanesbæ vegna framkvæmda við United Silicon -verksmiðjuna sem nú hefur tekið fyrsta áfanga í notkun. Þeirri spurningu var m.a. velt upp hvort NSVE gæti aðstoðað við að koma upp tækjum til mengunarefnamælinga þar. Hæpið væri að treysta mælingum sem væru í höndum United Silicon eða einhverra verktaka þeim hagsmunatengdum. Lífsgæði íbúa nágrennis verða að vera í fyrirrúmi. Þar sem atvinnuástand þess svæðis er gott nú virðist þetta verksmiðjubrölt til lítilla hagsbóta. Þá hefur Thorsil ehf., sem einnig hyggst reisa kísilver í Helguvík, engin gjöld greitt til Reykjanes-hafnar eða -bæjar ennþá.

 

  1. Fjallað var um raflínulagnir. Nýja fregnir norðan úr Eyjafirði um jarðstreng gefa vísbendingu um hugsanlega stefnubreytingu hjá Landsneti en þar skipa loftlínnur enn forsætið.  Ekki er framvinda Suðurnesjalínu 2 enn á hreinu svo þar verður NSVE að standa vaktina. Þá eru nýjar loftlínur frá Sandskeiði til Hafnafjarðar á framkvæmdaáætlun Landsnets næsta vor.  Þær línur munu liggja yfir vatnsverndarsvæði Hafnfirðinga og einnig Gvendarbrunna. Þar verður því vissulega að gæta fyllstu varúðar þar sem þýðingamestu vatnsból flestra  Íslendinga kunna að vera í hættu.

 

  1. Björn Pálsson fjallaði nokkuð um þá ætluðu lausn á mengunarvanda gufuaflsvirkjana að láta þau helstu steinefniefni s.s. kalsít (kalkspat) og brennistein fara aftur með niðurdælingavökva þar sem þau efni féllu þar út sem steindir. Aðferð hefur fundist til að gera þessa útfellingu mögulega en vera kann að sú aðgerð leiði til alvarlegrar niðurstöðu. Sú útfelling steinda í miklu magni gæti fyllt allar holur og sprungur bergsins í nágrenni niðurrennslisholunnar. Nýjar niðurdælingaholur, sem  stöðugt yrði að bæta við,  leiddu sennilega til þess að bergið yrði holufyllt fljótlega. Augljós afleiðing gæti orðið sú að regn- og grunnvatn ætti ekki greiða leið um bergið, lindár myndu þverra, dragár kæmu í staðinn og bestu neysluvatnsbólin yrðu úr sögunni.  Guðrún Ásmundsdóttir skoraði á Björn að rita grein til birtingar þar sem ljósi yrði brugðið á þennan háska.
  2. Rætt var almennt um þau fjölmörgu vandamál sem stóriðjustefnan hefur leitt yfir þjóðina. Ótímabær loforð stjórnmálamanna um raforku til iðjuvera s.s. frá háhitasvæðum sem reynast síðan ekki hafa þá orku tiltæka, hafa valdið og valda enn miklum vandræðum. Í þeim gapastokki sitja nú HS orka og Orkuveita Reykjavíkur.

 

  1. Ekki var tekin ákvörðun um næsta stjórnarfund, tíma né stað.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl. 17:00.
Björn Pálsson/ritari