Aðalfundur 2016

posted in: Fundargerðir aðalfunda | 0

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands árið 2016

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, NSVE, boða til

aðalfundar og fagnaðar í Iðnó mánudaginn 6. júní kl. 17.00-19.00.

 

Dagskrá:

1.    Venjuleg aðalfundarstörf.

2.    Fögnuður vegna úrskurðar Hæstaréttar um Suðurnesjalínu 2.

3.    Alexandra Chernyshova sópransöngkona frá Úkraínu syngur og segir frá hvernig náttúran var fótum troðin fyrir kjarnorkuver í heimalandi hennar líkt og er að gerast  í Hvalfirði.

4.    Guðrún Ásmundsdóttir leikkona segir brot úr ævintýri í Iðnó er reist var höll á tjarnarbakkanum.

5.    Ályktanir aðalfundar.

6.    Önnur mál.

Félagsmenn athugið að vegna kjörs stjórnar og varastjórnar er óskað eftir að áhugasamir gefi sig fram.

Stjórn NSVE.

 

Helena Mjöll Jóhannsdóttir formaður setti fund, skipaði Lárus Vilhjálmsson fundarstjóra og Björn Pálsson fundarritara.  Þá var gengið til dagskrár.

 

1)
Formaður flutti ársskýrslu stjórnar (sjá fylgiskjal í möppu). Þar kom m.a. fram: Í mörg horn var að líta á þessu fimmta starfsári NSVE. Þeir sem standa vörðinn fyrir náttúru Íslands  verða ætíð að varast að henni verði spillt með skammtíma gróðahyggju fárra að leiðarljósi.

Stjórnina skipuðu Helena Mjöll Jóhannsdóttir formaður, Ellert Grétarsson varaformaður, Eydís Franzdóttir gjaldkeri, Björn Pálsson ritari og Guðrún Ásmundsdóttir meðstjórnandi. Varamenn voru Jóhann Davíðsson, Stefán Erlendsson og Jónas P. Hreinsson. Þrír formlegir stjórnarfundir voru haldnir á árinu.  Stórfelldum áætlunum um virkjun háhitasvæða s.s. í Eldvörpum og í Krísuvík hefur verið andmælt og margt fleira í stefnu núverandi stjórnvalda veldur áhyggjum.

Haldin var málstefna í Norræna húsinu þann sjötta apríl 2016 sem bar heitið „Á að fórna náttúruauðlindum fyrir ósjálfbærar jarðgufuvirkjanir?“ Þar voru fluttir fjórir fyrirlestrar með ágætu myndefni s.s. af náttúruperlum á Reykjanesskaga.

NSVE hefur orðið ásamt fleirum að kæra  ýmsar gerðir er lúta að rýrnum náttúrugæða á svæðinu. Þar ber nú hæst Suðurnesjalínu 2. Þar vannst  sigur fyrir Hæstarétti sem mun væntanlega móta jákvæðari stefnu á þeim vettvangi.

Ársskýrslan var samþykkt án athugasemda.

 

2)
Eydís Franzdóttir gjaldkeri lagði fram ársreikning 2015 undirritaðan af skoðunarmanni og stjórn (sjá fylgiskjal í möppu). Heildartekjur ársins voru kr. 1.791.861 og gjöld kr. 1.785.585. Hagnaður ársins með vaxtatekjum að frádregnum fjármagnstekjuskatti varð kr. 7.972. Handbært fé NSVE var kr. 232.716 þann 31. des. 2014 en kr. 240.688 þann 31. des. 2015.                                                               Fram kom í máli gjaldkera að greidd félagsgjöld  voru aðeins kr. 61.500 en styrkir vegna reksturs dómsmáls kr. 1.730.361. Ársreikningurinn var samþykktur einróma af fundarmönnum og Eydísi þökkuð örugg og markviss stjórn á fjármálum NSVE.

 

3)
Kjör stjórnar: Fimm stjórnarmanna gáfu kost á sér til framhaldandi stjórnarsetu en tveir nýjir voru kjörnir;  þau Dagný Alda Steinsdóttir og Lárus Vilhjálmsson.Eftirtaldir skipa því stjórnina til næsta aðalfundar:

Helena Mjöll Jóhannsdóttir,

Eydís Franzdóttir,

Björn Pálsson,

Guðrún Ásmundsdóttir,

Jóhann Davíðsson,

Stefán Erlendsson,

Dagný Alda Steinsdóttir og

Lárus Vilhjálmsson

Árgjald félaga var samþykkt óbreytt kr. 1.500.

 

4)
Fögnuður vegna úrskurðar Hæstaréttar um Suðurnesjalínu 2.

Alexandra Chernyshova sópransöngkona frá Úkrainu nú búandi í Hvalfirði söng nokkur lög og sagði frá móðurlandi sínu og hvernig það hefur spillst frá 1940. Hún klökknaði þá hún rifjaði upp frásögn ömmu sinnar af því hvernig var fyrrum. Þar var glæsilegt skóglendi, sveppi og ber mátti tína og eta og tærar vatnslindir, sem af mátti drekka, voru alls staðar. Í hinni svörtu mold mátti rækta allt s.s. korn af öllum tegundum.

Undir hersetu þjóðverja 1942 var hinni svörtu mold mokað á vörubifreiðar og ekið til vesturs. Síðan varð til kjarnorkuverið í Chernobyl og af því átti engin hætta að vera að sögn vísindamanna. Þar varð hið mikla kjarnorkuslys þann 26. apríl 1986 og gróðurlendi og vatnsból hafa spillst mjög. Þannig mun neysluvatn í Kænugarði (Kiel) um 150 km sunnar vera gjörspillt og engir eta nú villt  ber og sveppi þar nú. Alexandra sagði að skýjafar við verksmiðjurnar á Grundartanga vektu oft sárar minningar frá æskustöðvum hennar.

Guðrún Ásmundsdóttir flutti fróðlegt og listrænt erindi um Iðnó, tilurð þess húss og sögu. Eydís Franzdóttir spilaði nokkur lög á óbó og Ómar Ragnarsson flutti gamanmál úr sal.

4)
Um brýn næstu varnaverkefni NSVE nefndi Eydís Franzdóttir ýmis virkjunaráform s.s. á Austurengjum við Kleifarvatn og Björn nefndi friðlýsingu Þverárdals, sem nú er í  nýtingarflokki samkvæmt tillögu að ramma 3 og nauðsyn aukinnar verdunar Þingvallavatns. Bentu þau bæði á að skilafrestur athugasemda vegna ramma 3 er til 3. ágústs 2016.

5)
Önnur mál. Jón Aðalsteinn Þorgeirsson sagði frá ætluðum stofnfundi nýs félags til verndunar Suðurár og Svartár sem falla til Skjálfandafljóts í sunnanverðum Bárðardal í S-Þing. Þar er nú ætluð virkjun sem væntanlegt félag hyggst beita sér gegn. Jón Aðalsteinn var þarna talsmaður nokkurs hóps sem mættur var á aðalalfund NSVE og gerðust þar félagar.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 19:00.