Annar stjórnarfundur fimmtu stjórnar NSVE var haldinn á heimili Stefáns Erlendssonar Sæviðarsundi 29 í Reykjavík annan febrúar 2016. Hófst hann kl. 17:00 með rausnarlegum veitingum húsráðanda.
Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson, Stefán Erlendsson og Jóhann Davíðsson. Ellert Grétarsson, Guðrún Ásmundsdóttir og Jónas Pétur Hreinsson voru fjarverandi.
Helena Mjöll formaður setti fund og eftirfarandi mál voru tekin til afgreiðslu:
1) Eydís gerði grein fyrir 1.800.000 kr. styrkumsókn f.h. NSVE til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Svar hefur ekki borist ennþá. Þá nefndi hún væntanleg málaferli sem gætu orðið dýr ef gjafsókn fæst ekki.
2) Þá var rætt um ætlaðar virkjunarframkvæmdir í Eldvörpum þar sem nú virðist hafa verið gefið grænt ljós til framkvæmda. Stjórn NSVE telur að þær framkvæmdir muni valda miklum óafturkræfum náttúruspjöllum. Þá er og óvíst um vinnslugetu þess svæðis. Jarðvísindamenn hafa lýst efasemdum þar um og telja að þar verði einungis dælt úr þeim sama potti sem nú knýr orkuverin við Svartsengi.
3) Nokkuð var rætt um stöðu rammaáætlunar og stjórn NSVE andmælir þeirri stefnu núverandi ríkisstjórnar að viðurkenna ekki vernduð svæði í þeirri áætlun.
4) Stefán nefndi þá ætlan sína að þýða á ensku þær greinar um Þingvallavatn og umhverfi þess sem birst hafa í fréttablaði NSVE.
5) Skilaboð bárust frá Ellert Grétarssyni um að heimasíða NSVE væri nú komin í betra horf og gert er ráð fyrir að hún verði nú síður fyrir skemmdarárásum en áður.
6) Þá var rætt um að efla starfsemi NSVE s.s. með málstefnu sem beindi athyglinni að þeim takmörkum sem sýnast vera á notkun háhitasvæða til raforkuframleiðslu og skemmda þeirra á náttúrulegu umhverfi, ferðamennsku til tjóns. Björn tók að sér að reyna að skipuleggja þá málstefnu sem haldin yrði í apríl fyrir næsta aðalfund NSVE.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl.19:00.
Björn Pálsson/ritari