Þriðji stjórnarfundur fjórðu stjórnar NSVE var haldinn að Stekkjarkoti í Innri-Njarðvík föstudaginn 23. jan. 2015 og hófst hann kl. 15:00. Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Stefán Erlendsson og Ellert Grétarsson. Jóhann Davíðsson og Jónas Pétur Hreinsson höfðu boðað fjarveru sína. Ellert Grétarsson hafði ákveðið fundarstaðinn, sem er forn hjáleiga, og aflað þorramatar sem féll vel að stað og stund.
Þá var fundur settur og gengið til dagskrár um kl. 15:30.
- Fundargerð síðasta stjórnarfundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum í tölvupósti til yfirlestrar, var samþykkt.
- Fjallað var heimasíðu NSVE sem ekki hefur verið í lagi að undanförnu. Ellert taldi að þjónustuaðilar stæðu sig ekki nógu vel og e.t.v. yrði að skipta um hýsingaraðila. Stjórnin var sammála um nauðsyn þess að heimasíða væri í góðu lagi enda tryggði hún best samskipti við almenna félaga.
- Suðurnesjalína 2, dómsmál. Eydís greindi frá því að Hæstiréttur hefði snúið við dómi Héraðsdóms um frávísunarkröfu Landsnets vegna máls sem varðar leyfisveitingu Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2. Hæstiréttur hefði staðfest að NSVE væri aðili að málinu og tekið undir ýmsar þær athugasemdir sem landeigendur o.fl. hefðu gert.
- Allmiklar umræður urðu um erindi Orkustofnunar til Verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Stefán Erlendssson gekk formlega frá þeirri ályktun sem hér er bókfærð:
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands – Ályktun
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands (NSVE) lýsa bæði undrun og vonbrigðum með erindi sem Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn rammaáætlunar um virkjanamál. Þar er meðal annars lagt til að verkefnastjórnin íhugi virkjanakosti sem eru í núverandi verndarflokki rammaáætlunar og skoði auk þess forsendur jarðvarmavirkjunar á Hveravöllum – svæði sem nýtur friðlýsingar samkvæmt landslögum og á því ekkert heima í rammáætlun
Erindi Orkustofnunar raskar friði um rammaáætlun og grefur undan því mikilvæga sáttaferli um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem rammaáætlun er ætlað að tryggja. NSVE hvetur því verkefnisstjórn rammaáætlunar til að fjalla ekki um þá virkjanakosti sem eru í verndarflokki – og voru flokkaðir sem slíkir fyrir aðeins tveimur árum – eins og Orkustofnun mælist til. Um er að ræða virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti og Hólmsá, Norðlingaölduveitu við Þjórsárver og miðlunarlón í Tungnaá (Tungnaárlón), ásamt Brennisteinsfjöllum, þar sem áætlað er að bora þurfi 72 holur til að halda 60 ára líftíma virkjunarinnar auk niðurdælingarholna.
Ennfremur fordæma Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands þingsályktunartillögu stjórnarflokkanna um breytingar á rammaáætlun sem fela í sér tilfærslu á fjórum virkjanakostum í nýtingarflokk: þ.e. Holta- og Urriðafossvirkjunum í Þjórsá, Skrokköldu (á miðhálendinu) og Hagavatni við Langjökul.
Núverandi stjórnarmeirihluti hyggst knýja þessar breytingar í gegn með pólitískum klækjabrögðum án þess að fram fari lýðræðisleg umræða í þinginu, meðal almennings eða af hálfu til þess bærra sérfræðinga. Ef þessi áform ná fram að ganga munu ósnortin svæði og stórbrotin náttúrufyrirbæri heyra sögunni til um alla framtíð.
Að mati NSVE ber okkur siðferðileg skylda til að stöðva þessi áform stjórnarmeirihlutans með öllum tiltækum ráðum.
Hér hefur stríðshanskanum verið kastað í ljótum pólitískum leik!
Skammsýni og fyrirhyggjuleysi mega ekki verða til þess að hagsmunum komandi kynslóða – sem eiga sama rétt til landsins og við – verði fórnað á altari hagvaxtar og stundargróða.
Stjórn Náttúrverndarsamtaka Suðvesturlands
5. Önnur mál. Margt bar á góma undir þessum lið s.s. náið og gott samstarf við Landvernd, aðgerðir til að koma í veg fyrir landskemmdir vegna ágangs ferðamanna o.fl.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl. 18:00.
Björn Pálsson. fundarritari