Eldvörp – mikil fórn fyrir lítinn ávinning

posted in: Náttúruperlur | 0

kort eldvorpEldvörp eru um 10 km löng gígaröð um fjóra kílómetra vestan við Bláa lónið og Svartsengi. Gígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á 13. öld en þá runnu Eldvarpahraun, Stampahraun yst á Reykjanesi og Arnarseturshraun. Þegar farið er um þessi svæði á ysta hluta Reykjanesskagans er ekki erfitt að ímynda sér hvað gengið hefur á í þessum jarðeldum. Hvergi í heiminum eru ummerki eldvirkninnar á mótum tveggja jarðskorpufleka jafn sýnileg og þarna. Gígaraðir eru eitt verðmætasta og sérstæðasta sérkenni íslensks landslags. Flestar hafa myndast undir jökli og skilið eftir móbergsmyndanir, svo sem móbergshryggi. Fátíðari eru gígaraðir sem myndast hafa á Nútíma eftir að ísaldarjöklarnir hurfu. Eldvörp er eins konar smækkuð útgáfa af Lakagígum, frægustu gígaröð landsins og eru þau á náttúruminjaskrá. Mikil verðmæti felast í því að eiga slíka perlu tiltölulega ósnortna  í nágrenni við þéttbýlið m.a. með tilliti til möguleika í ferðaþjónustu. Hins vegar er henni nú ógnað með áformum um rannsóknarboranir og huganlega virkjun í framhaldinu.

Merkilegar söguslóðir

Eldvarpasvæðið er kynngimagnað þar sem saman fer áhugaverð jarðfræði og forvitnileg saga. Þarna liggja gamlar alfaraleiðir og vinsælar gönguleiðir eins og Árnastígur, Skipsstígur og Prestastígur. Í hrauninu skammt austan við aðalgíginn eru Tyrkabyrgin svokölluðu, hátt í 400 ára gamlar fornleifar sem gaman og fróðlegt er að skoða. Þau fundust fyrir tilviljun í hrauninu árið 1872. Nafngiftin á byrgjunum er tilkomin vegna þeirrar tilgátu að þorpsbúar í Grindavík hafi hlaðið þau til að nýta sem felustað ef „Tyrkirnir“ kæmu aftur en þeir gerðu strandhögg í Grindavík árið 1627 og fóru þar um ránshendi. Höfðu þeir einnig fólk á brott með sér.  Ekki hafa fundist neinar heimildir um þessi mannvirki og verða þau því sveipuð dulúð enn um sinn. Byrgin standa við gamla leið sem nefnd er Brauðstígur vegna þess að áður fyrr fóru Staðhverfingar eftir honum  upp í Eldvörp til að baka brauðin sín við jarðhitann. Hefur hann komið sér vel þegar eldiviður var af skornum skammti.

Einstakt náttúruundur

Gígaröðin öll er afar forvitnileg. Nyrst í henni er svonefndur Tvígígahellir en þar er hægt að ganga neðanjarðar á milli tveggja eldgíga eftir gosrásinni á milli þeirra. Þegar komið er inn í stærri gíginn er hægt að fara niður að rótum hans og horfa ofan í sprunguna sem hann stendur á en glóandi hraunið hefur greinilega runnið til baka niður í sprunguna í lok gossins og gígurinn tæmst. Veður það að teljast einstakt að hægt sé að skoða innviði eldgíga með þessum hætti.

Umfangsmikið, óafturkræft rask

Mitt í gígaröð Eldvarpa er borhola frá árinu 1983 en hún hefur aldrei verið nýtt.  Umhverfisspjöllin af völdum hennar eru talsverð en þó lítilfjörleg miðað við þau áform sem nú eru uppi um tilraunaboranir á svæðinu, svo ekki sé nú talað um eyðilegginguna ef af virkjun verður. Samkvæmt skipulagslýsingu verða borteigar á svæðinu alls fimm og hver um sig 4 – 5 þúsund fermetrar að stærð. Það er ekki erfitt að ímynda sér fyrir þann sem þekkir svæðið að fyrirhuguð 30-50 MW virkjun í Eldvörpum myndi hafa mikil áhrif á náttúru svæðisins, landslag og ásýnd. Í matskýrslu vegna framkvæmdanna kemur reyndar fram að ekki verði hróflað við gígunum sjálfum og hefur því verið haldið á lofti eins og framkvæmdin muni ekki hafa nein áhrif. Ljósmyndir í matsskýrslunni, sem eiga að sýna afstöðu borstæðanna við gígaröðina og hugsanlega ásýnd, eru beinlínis villandi þar sem þær eru ýmist teknar FRÁ gígunum eða með svo gleiðri linsu að gígarnir virðast í órafjarlægð.

Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa nýverið veitt HS Orku leyfi til rannsóknarborana í Eldvörpum, þrátt fyrir umsögn Skipulagsstofnunar um neikvæð umhverfisáhrif af slíkum borunum. Skipulagsstofnun skilaði áliti um matsskýrsluna haustið 2015  og tekur í umsögn sinni undir þau sjónarmið að lítt raskað svæði eins og Eldvörp sé afar mikilvægt til útivistar og ferðamennsku í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Stofnunin segir áhrif fyrirhugaðra framkvæmda „talsvert neikvæð“ vegna rasks á eldhrauni. Jafnframt verði áhrif á gróður talsverð neikvæð þar sem um sé að ræða „nokkuð umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, m.a. mosagrónum nútímahraunum sem hafa ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu“, segir í umsögninni..

Náttúran nýtur ekki vafans

Jarðvangurinn Reykjanes Geopark var stofnaður að frumkvæði Grindavíkurbæjar og HS Orku og er ætlað að hafa „fræðslugildi vegna fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja“ svo vitnað sé beint í talsmann jarðvangsins. Í nýlegu fjölmiðlaviðtali talar bæjarstjórinn í Grindavík einnig um „uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðslu sem byggir á einstökum jarðminjum“. Þessar yfirlýsingar verða að teljast furðulegar í ljósi þess að á sama tíma gaf Grindavíkurbær HS Orku leyfi til rannsóknaborana ofan í merkilegustu jarðminjum svæðisins þar sem gígaröðin í Eldvörpum verður „skreytt“ með fimm risastórum borteigum.
Í matsskýrslunni kemur glögglega fram að tengsl eru á milli hitasvæðanna í Eldvörpum og Svartsengi. Allt bendir til þess að um sama jarðhitageyminn sé að ræða. Orkuvinnsla í Eldvörpum yrði því aldrei sjáflbær, ekki frekar en vinnslan í Svartsengi sem er keyrð á rúmlega 70% afköstum. Einungis þannig er mögulegt að halda henni í jafnvægi. HS Orka vill sumé ganga úr skugga um þetta með tilraunaborunum. Náttúran fær ekki að njóta vafans.

 Texti og ljósmyndir: Ellert Grétarsson.

Upphaflega birt 24.04.2015.
Uppfært 26.09.2016.