Fjórði stjórnarfundur fjórðu stjórnar NSVE var haldinn á heimili Guðrúnar Ásmundsdóttur að Grandavegi 36, 107 Reykjavik þann 16. mars 2015. Fundurinn hófst kl. 19:00 með glæsilegri kvöldmáltíð í boði húsráðenda þar. Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Stefán Erlendsson og Jóhann Davíðsson. Ellert Grétarsson og Jónas Pétur Hreinsson höfðu boðað fjarveru sína.
Að kvöldverði loknum hófst formlegur stjórnarfundur og eftirtalin mál tekin fyrir:
Rætt var nokkuð um boð fulltrúa NSVE á fund atvinnuveganefndar Alþingis um fjárfestingasamning við Thorsil ehf. vegna kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ. Á fund, sem síðan varð ekki, hafði Helena Mjöll, formaður, fengið boð með mjög skömmum fyrirvara og hvorki hún né nokkur annar stjórnarmanna hefði haft möguleika á að mæta. Niðurstaða stjórnar NSVE er sú að nauðsylegt sé að mæta á fundi sem þessa. Þrátt fyrir litla von um árangur á þeim fundum er fjarvera visst veikleikamerki. Skriflegum athugasemdum NSVE mætti þá einnig koma til Alþingismanna utan viðkomandi nefnda og jafnvel fjölmiðla til upplýsinga fyrir almenning.
- Suðurnesjalína 2, staða dómsmáls. Það mál (sjá 3. lið síðustu stjórnarfundargerðar) verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. mars nk. kl. 14:20. Guðrún Ásmundsdóttir og Jóhann Davíðsson munu mæta þar fyrir hönd NSVE sem er aðili málsins.
- Rætt var um leyfisveitingu Sveitarfélagsins Voga o.fl. til Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu. Eydís gerði grein fyrir stöðu þeirra mála. Tregða Landsnets til þess að nýta jarðstrengi til flutnings raforku vekur furðu. Vera má að ríkjandi hagsmunir verktaka og fleiri við uppsetningu loftlína og þekkingjarleysi þeirra sömu aðila um jarðstrengi og langnir þeirra valdi þar nokkru. Nauðsynlegt virðist að koma upplýsingum þar um í almenna umræðu hérlendis. Stjórn NSVE mun kanna möguleika á að ýta þeirri umræðu úr vör á næstunni.
- Komið hafa fram hugmyndir s.s. um för til Krýsuvíkur í minningu Jóhannesar Ágústssonar fyrsta formanns NSVE. Þar koma systkini Jóhannesar við sögu og er stjórn NSVE sammála um að aðgerðir í minningu Jóhannesar og áhugamála hans séu sjálfsagðar og geti einnig orðið félaginu til styrktar. Ákveðið var að efna til hópferðar t.d. um Selatanga, til Krísuvíkur og með endastöð á slóðum Einars Benediktssonar í Herdísarvík. Guðrún Ásmundsdóttir mun vinna að dagskrárgerð með aðstoð Jóhanns Davíðssonar.
- Rætt var um nauðsyn þess að hefja sóknarbaráttu til varnar einstökum og merkum jarðhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar koma til álita stuttar gönguferðir um þau svæði á komandi sumri. Gera verður þá baráttu sýnilega almenningi með stuttum markvissum greinum og ljósmyndum af viðkomandi svæðum. Þar er virk heimasíða NSVE þýðingarmikil og auk staðbundinna fréttablaða í nærumhverfinu.
- Þá var rætt um komandi aðalfund NSVE og ákveðið að hann skuli haldinn miðvikudaginn 29. apríl nk. og hefjast kl. 20:00. Samþykkt var að stjórn NSVE kæmi saman á heimili Helenu Mjallar formanns á þeim degi tveim klst. fyrir aðalfundinn. Þar hyggst stjórnin m.a. leggja lokahönd á undirbúning aðalfundarins.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl.22:00.
Björn Pálsson/ritari