Þriðji fundur í annarri stjórn NSVE haldinn á heimili Guðrúnar Ásmundsdóttir að Grandavegi 36 í Reykjavík föstudaginn 31. ágúst 2012 og hófst hann kl. 15:00.
Allir stjórnarmenn mættu bæði aðal- og varamenn nema Ellert Grétarsson sem boðaði forföll. Gestur fundarins var Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, nýkjörinn formaður Náttúruverdarsamtaka Suðurlands.
Jóhannes formaður setti fund og minntist Guðmundar Páls Ólafssonar, náttúruverdarmanns og rithöfundar, sem lést daginn áður.
Eftirtaldir málaflokkar voru síðan teknir til umræðu:
- Hugmynd að málþingi um Þingvallavatn á komandi vetri.
- Breyting á skipun stjórnar NVSE
- Andóf gegn ætluðum jarðvarmavirkjunum í Krýsuvík og á Suðurnesjum
- Baráttan gegn nýrri loftlínu rafmagns „Suðvesturlínu“ um jarðir sveitarfélagsins Voga.
- Staða mála á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu.
- Lögformleg staða s.s. vegna hugsanlegra kærumála.
- Önnur mál.
1. Ingibjörg Elsa og Björn reifuðu málsþingshugmyndina sem yrði samstarfsverkefni NSS og NSVE. Þar þarf að spinna saman þætti verndar, fræða, lista og mögulegu betra aðgengi fólks að bökkum vatnsins. Guðrún og Björn voru kjörin til þess að vinna að málinu fyrir hönd stjórnar NSVE.
2. Ellert Grétarsson hafði beðist lausnar frá aðastjórn vegna persónulegra aðstæðna. Hann mun hins vegar sitja áfram sem varastjórnarmaður og aðstoða við gerð fréttabréfs o.fl. Guðrún Ásmundsdóttir samþykkti að taka sæti í aðalstjórn að tilmælum formanns og annarra stjórnamanna í NSVE.
3. Helena Mjöll gerði grein fyrir þeim málum og hversu erfitt virtist vera að fá fólk á vettvangi stjórnsýslu s.s. í sveitarstjórnum til að víkja frá ætluðum virkjanáformum gufuafls. Aukið og bætt aðgengi að þessum náttúruperlum s.s. við Seltún gæfi þó von um að tíminn ynni með verndunarsinnum. Ákveðið var að Helena Mjöll og Jóhannes formaður afhentu bæjarstjóra Hafnarfjarðar bók Ellerts, Reykjanesskaginn – Ruslatunna Rammaáætlunar.
4. Eydís stendur þar í eldlínu andófsins og sagði frá stöðunni. Hún taldi að lögfræðingar á vegum Landsnets hefðu beitt landeigendur í sveitarfélaginu miklum þrýstingi. Þeir hefðu kallað einn og einn landeiganda til viðtals, gert kauptilboð og hótað eignanámi ef ekki yrði gengið að tilboðinu. Þessi kauptilboð væru til skamms tíma og falla úr gildi fljótlega samkvæmt yfirlýsingu Landsnets. Sveitastjórn Voga stæði hinsvegar fast gegn nýrri loftlínu og Eydís fær góðan stuðning þaðan. Um helgina hyggst hún rita bréf til umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra.
Sjórn NSVE lýsti fullum stuðningi við afstöðu og gerðir Eydísar og Jóhannesi formanni var falið að aðstoða Eydísi við lokafrágang bréfsins og undirritun þess fyrir hönd stjórnar.
5. Björn og Stefán sögðu frá stöðunni þar. Stefán fjallaði um mikið álag í Reykjadal vegna fjölgunar ferðamanna bæði fótgangandi og á hesbaki. Í sumar hefði verið ráðist í umbætur vegna hestaferða á stígum o.fl. Þar hefðu verið gerð mistök og ætla Stefán og Björn að kanna þau svæði betur fljótlega. Baráttan fyrir verdun Bitrusvæðis, Þverárdals og Þingvallavatns er þeim báðum ofarlega í huga og einnig að Hverahlíðarvirkjun verði sett í biðflokk.
6. Jóhannes formaður og Jóhann Davíðsson vinna saman við að kanna lögformlega stöðu NSVE einkum með hliðsjón af lögformlegum kærurétti félagsins. Það er langtímaverk þar sem nauðsyn er að móta stefnuna í samvinnu við önnur félög svo sem Landvernd.
Þá var samþykkt að Jóhannes sendi bréf til alþingismanna í sambandi við rammaáætlunina sem væntanlega verður tekin til afgreiðslu á Alþingi nú í september.
7. Önnur mál: Lýst var ánægju með komu Ingibjörgu Elsu á stjórnarfundinn enda eiga þessi tvö náttúrverndarsamtök langa sameiginlega markalínu. Því er nauðyn að sem best samstaða sé um þau markasvæði. Þá er landshlutasamtökum sem þessum samvinna mikilvæg þar sem um hliðstæða varnarbaráttu gegn ágengri nýting náttúruauðlinda er oftast að ræða. Gott samstarf við nátturuverndarsamtök á landsvísu, s.s. Landvernd, er NSVE mikilvægt. Formaður las bréf frá Birni Guðmundssyni, Móvaði 15 Reykjavík. Þar bendir bréfritari á, með stuðningi ljósmynda, nýja gönguslóð um mosagróið hraun frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum að Þríhnúkagíg. Nú í sumar hefur ferðamönnum verið gefin kostur á að síga niður í gíginn með tilheyrandi kranabúnaði en fyrir liggur frummatsskýrsla um bílveg að gígnum og borun ganga inn í gíginn þar sem ferðmönnum verði búin aðstaða til að sjá hann innanveðan. Bréfritari spyr um afstöðu NSVE til þessa máls. Stjórnin ræddi um nauðsyn þess að búa betur að fjölsóttum ferðamannastöðum og gera fleiri svæði aðgengileg. Gjaldtaka á þeim stöðum, til þess að standa undir kostnaði vegna nauðsynlegrar aðstöðu til móttöku ferðamanna, telur stjórnin vera eðlilega. Þríhnúkar er, að mati stjórnar NSVE, einn þeirra staða. Þar, sem annars staðar, telur stjórnin að gæta verði þess að mannvirkin valdi sem minnstum náttúruspjöllum og falli sem best að landslagi.
Fleira ekki fært til bókar.
Næsti sjórnarfundur verður haldinn á heimili Jóhanns Davíðssonar að Hrauntungu 53 í Kópavogi miðvikudaginn 3. október kl. 17:00.
Stjórnarfundi slitið kl. 17:30
Fundargerð skráði Björn Pálsson ritari