Annar stjórnarfundur fjórðu stjórnar NSVE var haldinn að heimili formanns Austurgötu 29b, Hafnarfirði, föstudaginn 10. okt. 2014 og hófst hann kl. 15:00. Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Stefán Erlendsson og Jóhann Davíðsson. Ellert Grétarsson og Jónas Pétur Hreinsson höfðu boðað fjarveru sína.
Þá var fundur settur og gengið til dagskrár um kl. 15:30.
1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum í tölvupósti til yfirlestrar, var samþykkt.
2.Fjallað var um úrskurð héraðsdóms í Gálgahraunsmáli og voru stjórnarmenn allir mjög ósáttir við niðurstöðu dómsins. Helena Mjöll formaður gerði grein fyrir samkomu undir heitinu, Gálgarokk – baráttufundur, sem haldin verður á ársafmæli þeirra friðsamlegu mótmæla sem nú er verið að dæma fjölmarga fyrir.
3. Staða mála Suðurnesjalínu 2, jarðstrengja o.fl. Eydís gerði grein fyrir stöðu þeirra mála en þau eru í farvegi dómsmála. Eydís hefur unnið mjög markvisst í málinu og hefur nú yfirgripsmikla þekkingu á því. Hún er ein í hópi þeirra landeiganda sem þar eru í varnarbaráttu gegn eignarnámskröfu Landsnets. Stjórnarmenn í NSVE töldu hæpið að félagið réði lögfræðing til þess að reka málið fyrir hönd NSVE enda hefur afstaða félagsins komið fram í greinargerðum sem teljast nú fylgiskjöl máls. Þá liggja einnig fyrir athugasemdir og andmæli NSVE sem fjallað er um í fundargerð stjórnarfundar frá 29. ágúst 2014.
4. Rætt var um fjölgun félaga í NSVE, innheimtu árgjalda o.fl. Það veldur nokkrum erfiðleikum nú að heimasíðan lá niðri um tíma – virðist hafa orðið fyrir tölvuárás. Rætt var um gildi og mikilvægi síðunnar varðandi upplýsingamiðlun til félaga og annarra. Fram kom ábending um að rétt væri að hafa þar á áberandi stað upplýsingar um bankareikning NSVE til að auðvelda innheimtu árgjalda. Stjórnin lýsti þakkklæti sínu á glæsilegri sjálfboðavinnu Ellerts við gerð þeirrar síðu og glæsilegu myndefni sem hann hefur birt þar og víðar. Það er NSVE og baráttumálum þess félags ómetanlegt að eiga slíkan snilling í framvarðarsveit sinni.
5. Írski mannfræðingurinn James J. Maguire og gerðir hans. Björn og Stefán gerðu grein fyrir því máli. Stjórnin er sammála því að það verkefni og birting þess á erlendum vettvangi geti styrkt NSVE og baráttumál þess félags í víðara samhengi.
6. Önnur mál. Margt bar á góma undir þessum lið s.s. hversu illa er staðið að því að undirbúa viðkvæma náttúru fyrir auknum ágangi ferðamanna innlendra og erlendra. Nýjasti vitnisburður þar um er lýsing skosks fræðimanns í göngustígagerð um vankunnáttu Íslendinga á því sviði.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl. 18:30.
Björn Pálsson, fundarritari.