Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands haldinn 18. apríl 2013 kl. 20:30
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, NSVE, kölluðu félagsmenn til aðalfundar klukkan 20:30 fimmtudaginn 18. apríl 2013 í Hafnarjarðarleikhúsinu, Strandgötu 50 í Hafnarfirði.
Fundardagskrá
Setning aðalfundar
Kjör fundarstjóra og fundarritara.
Fundargerð síðasta aðalfundar. Umræður og afgreiðsla.
Skýrsla stjórnar og umræður.
Reikningar síðasta reikningsárs, umræður og afgreiðsla.
Lagabreytingar
Kjör stjórnar og skoðunarmanns reikninga.
Önnur mál.
Helena Mjöll Jóhannsdóttir, formaður, setti fund, skipaði Stefán Erlendsson fundarstjóra og Björn Pálsson fundarritara. Síðan var gengið til dagskrár:
1) Skýrsla formanns: Helena Mjöll minntist í upphafi Jóhannesar Ágústssoar, látins fyrsta formanns. Þá rakti hún helstu verkefni félagsins á starfsárinu. Þau voru fjölmörg og yfirgripsmikil. Níu stjórnarfundir voru haldnir á starfsárinu. Eftir nokkrar umræður var skýrsla formans samþykkt samhljóða af fundargestum (sjá fylgiskjal í möppu).
2) Ársreikningur gjaldkera: Eydís Franzdóttir gerði grein fyrir og lagði fram ársreikning NSVE fyrir árið 2012, undirritaðan af stjórn og skoðunarmanni (sjá fylgiskjal í möppu). Heildarekjur ársins urðu 154. 047 kr. og gjöld kr. 69.358 kr. Hagnaður ársins varð því 84.689 kr. Handbært fé NSVE var 54.002 kr. hinn 1. janúar 2012 en er 138.692 kr. þann 31. desember 2012. Ársreikningurinn var ræddur, borinn undir atkvæði fundarmanna og samþykktur.
3) Lagabreytirgar: Engar tillögur um lagabreytingar höfðu borist og þau því óbreytt. Engar breytingar voru heldur gerðar á árgjaldi félagsmanna sem er 1.500 kr.
4) Kjör stjórnar og skoðunarmanns: Allir sitjandi stjórnarmenn voru endurkjörnir, Helena Mjöll var kjörin formaður, Ellert Grétarsson var kjörinn í aðalstjórn og Jónas Grétar Hreinsson iðnrekstrarfræðingur í Grindavík var kjörinn í varastjórn. Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands skipa nú: Aðalmenn: Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Björn Pálsson, Eydís Franzdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir og Ellert Grétarsson. Varamenn: Jóhann Davíðsson, Stefán Erlendsson og Jónas Grétar Hreinsson. Lárus Vilhjálmsson var endurkosinn skoðunarmaður ársreiknings.
5) Önnur mál: Fjölmargt bar á góma undir þessum lið. Þar má nefna línulagnir, aukinn fjölda ferðamanna, verndun Gálgahrauns og hugmynd Grindvíkinga um jarðvang í stað fólkvangs. Margir tóku til máls s.s. Reynir Ingibjartsson, Þorvaldur Örn Árnason, Jónas Pétur Hreinsson, Margrét Pétursdóttir auk flestra stjórnamanna. Eftirfarandi tillögur voru bornar fram og samþykktar.
- a) Ályktun vegna Gálgahrauns: Aðalfundur Náttúruverdarsamtaka Suðvesturlands 2013 mótmælir harðlega áformum Vegagerðarinnar og bæjaryfirvalda í Garðabæ að hefja framkvæmdir við gerð nýs Álftanesvegar yfir ósnortið Gálgahraunið nú strax í vor. NSVE skorar á framkvæmdaaðila nýs Álftanesvegar, að fresta undirritun verksamnings við Íslenska aðalverktaka þar til fyrir liggur fullnægjandi úttekt á núverandi vegstæði í samræmi við svokallaða núlllausn samkvæmt lögum. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands minna á að eldhraun eins og Gálgahraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Samtökin leggja eindregið til að allt Búrfellshraun verði friðað sem fyrst, en ekki aðeins hlutar hraunsins eins og nú er. Gálgahraun er um margt sérstætt á heimsvísu. Það er ysti hluti Búrfellshrauns, sem myndar einstaka hraunheild frá gígnum Búrfelli, og til sjávar gegnt Bessastöðum. Fjöldi fornra leiða liggur um hraunið og þar er að finna margvíslegar búsetuminjar. Í hrauninu er fjölbreytt fuglalíf og gróður. Gálgahraun er sem heild afar verðmætt útivistarsvæði fyrir þéttbýlið á suðvesturhluta landsins. Það gildi vex með hverju árinu. Ekkert hefur komið fram sem gerir endurbætur á núverandi vegi yfir hraunið að lakari kosti en nýr vegur yfir ósnortið hraun. Umhverfismat, sem gert var á sínum tíma, er orðið meira en tíu ára gamalt og sjálfsagt er að kanna hvort það þarfnist endurnýjunar, m.a. virðist fornleifaskráningu ábótavant. Sama gildir um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum Álftanesvegi.
- b) Ályktun vegna Reykjanesfólkvangs: Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands harma þá stefnu bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar að segja sig frá samstarfi um Reykjanesfólkvang. Með því er bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar að rýra gildi náttúruverndar á Reykjanesi. Jarðvangur, eins og stefnt er að að stofna á Reykjanesi af sveitarfélögum, hefur enga lagalega skuldbindingu til náttúruverndar. Það er ljóst að í reglum um jarðvang, sem uppfylla þarf, er mjög jákvætt að lagaleg skuldbinding sé til staðar og við mat á inngöngu í það samstarf sem jarðvangar er. Þá er um öfugþróun að ræða ef Reykjanesfólkvangur verður yfirgefin af Grindarvíkurkaupstað.
Fram komu hugmyndir um að skipuleggja kröfugögu til styrktar náttúruverndar annað hvort á sumardaginn fyrsta eða fyrsta maí. Einnig var rætt um og náttúruverdar- og fræðslugöngur á Krýsuvíkursvæðinu.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið.