Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands árið 2014
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, NSVE, kölluðu félagsmenn til aðalfundar klukkan 17:30 fimmtudaginn 22. maí 2014 í Gaflaraleikhúsinu, Strandgötu 50 í Hafnarfirði.
Fundardagskrá
Setning aðalfundar, kjör fundarstjóra og fundarritara.
1) Skýrsla stjórnar, umræður og afgreiðsla.
2) Ársreikningur gjaldkera, umræður og afgreiðsla.
3) Árgjald félagsmanna og lagabreytingar.
4) Kjör stjórnar og skoðunarmanns ársreiknings.
5) Fjárhagsáætlun gjaldkera vegna ársins 1914.
6) Helstu baráttumál komandi árs.
7) Önnur mál.
Helena Mjöll Jóhannsdóttir, formaður, setti fund, skipaði Lárus Vilhjálmsson fundarstjóra og Björn Pálsson fundarritara. Síðan var gengið til dagskrár:
1) Skýrsla formanns: Að loknum nokkrum umræðum var skýrsla formanns samþykkt samhljóða af fundargestum (sjá fylgiskjal í möppu).
2) Ársreikningur gjaldkera: Eydís Franzdóttir lagði fram ársreikning NSVE vegna ársins 2013, undirritaðan af stjórn og skoðunarmanni (sjá fylgiskjal í möppu). Heildarekjur ársins urðu 151.751 kr. og gjöld kr. 83.698 kr. Hagnaður ársins með vaxtatekjum að frádregnum fjármagnstekjuskatti varð 68.053 kr. Handbært fé NSVE var 138.692 kr. þann 1. jan. 2013 en er 206.744 kr. þann 31. des. 2013. Fram kom í máli gjaldkera að þrátt fyrir mikla starfsemi á liðnu ári megi rekja hina góðu fjárhagsstöðu til mikillar sjálfboðavinnu stjórnarmanna o.fl. Ársreikningurinn var ræddur, borinn undir atkvæði fundarmanna og samþykktur.
3) Kjör stjórnar og skoðunarmanns: Allir sitjandi stjórnarmenn voru endurkjörnir, sjá nöfn þeirra í fundarboði. Þá var Lárus Vilhjálmsson endurkosinn skoðunarmaður ársreiknings.
4) Árgjald félagsmanna var ákveðið óbreytt kr. 1.500 en skráðir félagsmenn eru nú 199. Engar tillögur um lagabreytirngar höfðu borist aðalfundi og lög NSVE því óbreytt.
5) Eydís lagði fram fjárhagsáætlun ársins 2014 sem er í meginatriðum þessi: Tekjur kr. 350.000, gjöld kr. 293.698 og rekstrarhagnaður því ætlaður kr. 56.302. Framlögð áætlun var samþykkt og Eydísi var þökkuð örugg sjórn á fjármálum félagsins.
6) Aðalfundur hvetur stjórn NSVE berjast einarðlega áfram fyrir þessum málum: a) Að lagður verður jarðstrengur en ekki loftlína til flutnings raforku til Suðurnesja. b) Þingvallavatn verði verndað og þar verði m.a. frárennslismálum sumarbústaða komið í viðunandi horf eins og lög segja til um. c) Orkuveitu Reykjavíkur verði ekki heimiluð tímabundin undanþága frá þeim reglum um hámarkslosun brennisteinsvetnis í andrúsmsloft sem taka gildi 1. júlí næstkomandi.
7) Önnur mál: a) Fram kom að samkvæmt úrskurði Hæstaréttar verði héraðsdómur að úrskurða í máli sakborninga í Gálgahraunsmálinu;- en sé ekki heimilt að vísa málinu frá.
- b) Skipun svæðis í fólkvang virðist hafa lítið náttúruverndargildi gegn ákvörðun viðkomandi sveitarstjórna um framkvæmdir s.s. virkjanir sem gjörbreyta ásýnd viðkomandi svæða og jafnvel þjóðgarðar njóta ekki lögbundinnar verndunar og er Þingvallaþjóðgarður sorglegt dæmi þar um.
- c) Þá virðast sveitarstjórnir ráða illa við skipulagsvald sitt. Ef t.d. ætluð stórvirkjun á að standa innan stjórnsýslumarka viðkomandi sveitarfélags virðist vonin um fasteignagjöldin ráða miklu um afstöðu viðkomandi sveitarstjórnar í skipulagsmálum. Þannig fá fjársterk orkufyrirtæki mikil óbein völd. Því þarf að breyta svo sem með breyttum skipulagslögum og/eða þeirri breytingu að fasteignagjöld af slíkum stórfyrirtækjum falli í sameiginlegan sjóð allra sveitarfélaga landsins.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið.
Fundargerð skráði Björn Pálsson.