Stjórnarfundur, föstudaginn 28. október 2016

posted in: Fundargerðir 2016 | 0

Fyrsti stjórnarfundur sjöttu stjórnar NSVE var haldinn á heimili Eydísar Franzdóttur að Landakoti á Vatnsleysuströnd föstudaginn 28. október 2016. Hófst hann kl. 15:00 með rausnarlegum veitingum húsráðanda.

Mættir voru stjórnarmennirnir Helena Mjöll, Eydís Franzdóttir, Björn Pálsson,  Guðrún Ásmundsdóttir, Stefán Erlendsson og Dagný Alda Steinsdóttir. Jóhann Davíðsson og Lárus Vilhjálmsson voru fjarverandi.

Helena Mjöll formaður setti fund og eftirfarandi mál voru tekin til umræðu:

 1. Stjórnin skipti með sér verkum og er skipan hennar þessi:
  Helena Mjöll Jóhannsdóttir formaður,
  Björn Pálsson ritari,
  Eydís Franzdóttir gjaldkeri,
  Dagný Alda Steinsdóttir varaformaður,
  Guðrún Ásmundsdóttir meðstjórnandi.

Varamenn eru Stefán Erlendsson, Jóhann Davíðsson og Lárus Vilhjálmsson.

 

 1. Helstu verkefni stjórnar frá aðalfundi þann 6. júní 2016 voru vegna   RAMMA-3. Lögð voru inn ítarleg andmæli og athugasamdir um ætlaða orkunýtingu háhita á Reykjanesi og Hengilssvæðinu. (Sjá fylgiskjöl í möppu).  Því miður var ekki tekið tillit til þeirra athugasemda við frágang Ramma-áætlunar. Þar bíður því mörg varnarbaráttan stjórn og félaga í NSVE.

 

 1. Tveir markverðir og jákvæðir atburðir urðu í október:
  a) Hæstiréttur felldi með dómi þann 13.10.2016 úr gildi leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2 á þeirri forsendu að ekki hafi verið skoðað með raunhæfum hætti að leggja línuna í jörð. NSVE var aðili að málinu auk landeigenda í sveitarfélaginu Vogum. Magnús Óskarsson lögmaður flutti málið fyrir NSVE.
  b) Þann 26.10. 2016 felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála úr gildi starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir Kísilveri Thorsil í Helguvík vegna kæru NSVE og Landverndar. Ellert Grétarsson og Hörður Einarsson eiga heiðurinn af þeirri kæru og þakkir skildar fyrir.

 

 1. Rætt var um nauðsyn þess að halda úti fréttabréfi NSVE og fram kom að Ellert Grétarsson mun vilja leggja því máli lið. Hann er frumkvöðull,  aðalhöfundur og sá sem hefur séð um útgáfu þess netbéfs frá upphafi. Þá var rædd nauðsyn á eflingu starfssemi NSVE svo sem með nánari tengingu við þau samtök sem vinna að verndun Hvalfjarðar.

 

 1. Ákveðið var að næsti stjórnarfundur verði haldinn þann 23. nóv. 2016 kl. 15:00 að heimili formanns í Hafnarfirði.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið um kl. 17:20. Björn Pálsson/ritari