Helena Mjöll Jóhannsdóttir, formaður NSVE, stígur í ræðupúlt og segir frá því að aðalfundur NSVE hafi verið haldinn á mismunandi stöðum s.s. í Reykjavík, Hafnarfirði, Herdísarvík og að ósk Björns Pálssonar hafi fundurinn verið haldinn í Hveragerði að þessu sinni. Því næst setur hún fundinn og býður sig fram sem fundarstjóra og stingur upp á Stefáni Erlendssyni sem fundarritara og er það samþykkt samhljóða.
Gengið er til dagskrár/hefðbundin aðalstörf.
- Helena les upp skýrslu formanns um nýliðið starfsár samtakanna. Nefnir að komið hafi fram hugmyndir um að sameina NSVE og Hraunavini og niðurstaðan hafi orðið sú að Hraunavinir gengu í NSVE. Þetta hefur síðan skilað sér í öflugra starfi.
Segir frá óeigingjörnu starfi Eydísar Fransdóttur sem hefur gert margvíslegar athugaemdir við áform og starfshætti Landnets – og sem hefur leitt til smásigra fyrir dómstólum og orðið til þess að framkvæmdum hefur verið frestað og áformum um línulagnir verið breytt. - Reynir Ingibjartsson skoðunarmaður reikninga fer yfir ársreikning NSVE. Hann les upp yfirlýsingu um „endurskoðun ársreiknings“ sem hafi ekki leitt neitt misjafnt í ljós.
Mikill munur var á milli áranna 2016 og 2017 vegna kostnaðarsamra málaferla sem NSVE voru aðili að.
Skýrsla stjórnar og ársreikningur borin undir fundinn og samþykkt samhljóða. - Árgjald NSVE hefur verið 1.500 kr. og ákveðið er að það verði áfram óbreytt.
- Kjör stjórnar. Margrét Pétursdóttir (Hraunavinur) býður sig fram til stjórnarsetu. Klappað til samþykkis. Aðafundur samþykkir jafnframt að veita henni umboð til að tala við Þórunni ??? um að taka einnig sæti í stjórninni. Það er samþykkt samhljóða. Stjórnin er að öðru leyti endurkjörin.
- Ályktanir. Engar ályktanir eru settar fram á fundinum.
- Björn Pálsson flytur erindi um náttúruvernd – sem er e-k svanasöngur hans með NSVE þar sem hann lætur af stjórnarsetu á fundinum. Góður rómur er gerður að erindi Björns sem er bæði áheyrilegt og áhugavert eins og hans er von og vísa.
Þar með er dagskrá fundarins tæmd og Helena formaður slítur fundi.
Að lokinni formlegri dagskrá aðalfundar kveður Guðrún Ásmundsdóttir stjórnarkona í NSVE sér hljóðs. Hún stígur í pontu og hefur upp raust sína. Segir fyrst frá sjúkraþjálfaranum sínum sem hún þakkar það að geta staðið í fæturna og getur þess jafnframt að hún sé náttúruverndarsinni. Þá lýkur Guðrún lofsorði á Björn Pálsson og þakkar honum samstarfið – og allar fundaseturnar – og getur þess sérstaklega að hann hafi alltaf verið skemmtilegastur þegar hann var hvað æstastur. Heldur síðan áfram að tala um náttúruvernd og baráttuna í þágu ósnortinnar náttúru – reiðina sem blossar oft upp hjá stjórn og meðlimum í litlum og févana samtökum sem reyna sitt besta. Guðrún þakkar svo utanaðkomandi fjárhagsaðstoð sem gerði NSVE kleift að sækja mál fyrir dómstólum til að koma í veg fyrir eignarnám á jörðum í Vogum. Sigri hafi verið fagnað á aðalfundi í Iðnó í kjölfarið. Loks segir Guðrún frá Eydísar þætti Franzdóttur. Hún hafi – eins og Jóhanna af Örk – staðið andspænis hópi „jakkafatadrengja“ og haft þá undir í baráttunni gegn Lyklafellslínu. Að endingu nefnir Guðrún Árneshrepp á Ströndum – hvernig náttúran þar á undir högg að sækja gagnvart þeim sem engu eira í sókn sinni eftir skjótfengnum gróða.
Reynir Ingibjartsson kemur upp í pontu og mælist til þess að fundurinn hylli Björn Pálsson fyrir ómetanlegt framlag til náttúruverndar á Henglissvæðinu, einkum Grændals og Reykjadals. Segir síðan stutta sögu af ferð sem hann fór með fjölskyldu sinni – lautarferð – í Laxárdal í Þingeyjarsýslu sem aldrei hefði verið farin ef bændur hefðu ekki spyrnt við fótum og staðið vörð um dalinn og ána.
Stefán Erlendsson biður um orðið og talar úr sæti sínu um náttúruvernd í heimi skammsýni, skilningsleysis og græðgi – að náttúran og náttúruvernd eigi undir högg að sækja og að oft virðist baráttan vonlítil en að við megum ekki gefast upp þótt á móti blási.
Rakel Gylfadóttir stígur í pontu og talar um að það þurfi hugrekki til þess að standa með hugsjónum sínum. Það þarf hugrekki til að verja tíma sínum í þágu góðs málstaðar, segir hún. Verið ekki hrædd við að koma fram með skoðanir ykkar. Við þurfum að kortleggja „peningana“ – sýna fram á hagsmunatengslin milli framkvæmdaaðilanna og vísindamannanna, eftirlitsaðila og sveitarstjórna. Segir frá Línudansi, mynd um baráttuna gegn línulögnum í Skagafirði, að blekkingar hafi verið hafðar í frammi – háspennulínurnar hafi verið lagðar í þágu framtíðarstóriðju en ekki fólksins heima í héraði.
Áður en fundarmenn standa upp og fara hver til síns heima er Björn Pálsson hylltur fyrir ómetanlegt framlag sitt … með ferföldu húrrahrópi!