Aðafundur NSVE haldinn í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði þriðjudaginn 16. júní 2020
Helena Mjöll Jóhannsdóttir, formaður NSVE, setur fundinn og stingur upp á Margréti Pétursdóttur sem fundarstjóra og Stefáni Erlendssyni sem fundarritara og er það samþykkt samhljóða.
- Skýrsla stjórnar og umræður um hana
Þá flytur formaðurinn skýrslu stjórnarinnar. Efni skýrslunnar verður ekki endurtekið hér þar sem hún birtist í heild sinni á heimasíðu og fésbókarsíðu NSVE. Í máli formanns kemur fram að samtökin hafi verið virk og stjórnarmenn víða látið að sér kveða á sviði umhverfis- og náttúruverndar í „umdæmi“ samtakanna á Suðvesturhorni landsins.
Reynir Ingibjartsson vekur máls á fyrirhugaðri göngubraut meðfram nýja Álftanesveginum og spyr hvort eitthvað sé að frétta í því sambandi. Að hans mati sé óþarfi að leggja þennan göngustíg þar sem hægt sé að beina gangandi og hjólandi umferð inn á gamla Álftanesveginn.
Skýrsla formannsins er samþykkt með lófataki. - Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu
Ársreikningar fyrir 2018 og 2019 eru lagðir fram saman þar sem ekki var haldinn aðalfundur á síðasta ári.
Samtökin standa vel fjárhagslega. Gjaldkeri samtakanna, Eydís Franzdóttir, talar um að tímabært sé að koma innheimtu félagsgjalda í betra horf. Tekjur af félagsgjöldum hafa verið óverulegar undanfarin tvö ár en styrkur frá umhverfisráðuneytinu hefur skipt sköpum varðandi nokkuð vænlega fjárhagsstöðu samtakanna.
Helena veltir upp þeirri spurningu hvort mögulegt sé að senda „valkvæðar“ kröfur til félagsmanna í heimabankann hjá þeim. Slíkt yrði samtökunum að kostnaðarlausu og gæti orðið til að auðvelda innheimtu félagsgjalda. Eydísi er falið að kanna þennan möguleika.
Ársreikningarnir eru samþykktir með lófataki. - Kjör stjórnar og skoðunarmanns reikninga
Stjórnarmenn sem eru viðstaddir bjóða sig allir fram til áframhaldandi setu en Margrét Ákadóttir og Dagný Alda Steinsdóttir eru fjarverandi og hverfa úr stjórninni. Sveinn Atli Gunnarsson býður sig fram til stjórnarsetu og Reynir Ingibjartsson er reiðubúinn að halda áfram sem skoðunarmaður reikninga.
Nýkjörin stjórn og skoðunarmaður reikninga klappa fyrir sjálfum sér.
Stjórnina skipa: Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Margrét Pétursdóttir, Lárus Vilhjálmsson, Sveinn Atli Gunnarsson og Stefán Erlendsson. Skoðunarmaður reikninga er Reynir Ingibjartsson. - Ályktanir aðalfundar
Helena segir nokkur formálsorð að ályktun fundarins um svokallaða Ástjörn í landi Hafnarfjarðar en byggð þrengir orðið að tjörninni sem nýtur friðlýsingar að lögum. Athafnasvæði Íþróttafélagsins Hauka er þarna fyrirferðarmest. Deilt hefur verið um skiplag byggðar á svæðinu, segir Reynir Ingibjartsson. Margrét bætir því við að umhverfi tjarnarinnar hafi verið eitt stærsta varpsvæði flórgoða á landinu en nú sé svo komið að flórgoðinn sjáist varla orðið á svæðinu.
Umræður halda áfram um skipulag byggðar en fyrirhuguð hús á svæðinu verða býsna há eða margar hæðir.
Fundarmenn eru sammála um að Ástjarnarsvæðið sé frábært til útivistar og brýnt og mikilvægt sé að huga betur að verndun þess og að girt sé fyrir að byggt verði of nálægt tjörninni.
Margrét les upp ályktunina sem er samþykkt samhljóða.
„Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands NSVE kallar eftir því að bæjarstjórn Hafnarfjarðar komi í veg fyrir að byggt verði í námunda við Ástjörn eins og fyrirhugað er.
Mikil vinna fór í að ná fram verndun Ástjarnar á sínum tíma. Í ljósi þess þykir okkur í stjórn NSVE furðu sæta að nú megi byggja knatthús jafn nálægt tjörninni og stefnt virðist að. Slík framkvæmd mun raska ásýnd svæðisins með ófyrirsjáanlegum hætti jafnvel þótt ekki sé farið inn fyrir tilskilin fjarlægðarmörk þar sem um risabyggingu er að ræða.
Þegar hefur komið fram að gatnagerðargjöldum verði varið til þess að fjármagna íþróttahús Hauka. Nánar tiltekið segir í 4. grein samkomulagsins að tekjur af innheimtum lóðaverðum (gatnagerðargjald, byggingaréttargjald) vegna hinnar nýju íbúðabyggðar á Ásvöllum verði nýttar til uppbyggingar knatthúss á Ásvöllum. Í 10. gr. laga um gatnagerðargjald 153/2006 segir um ráðstöfun gatnagerðargjalds: Sveitarstjórn skal verja gatnagerðargjaldi til gatnagerðar í sveitarfélaginu og til viðhalds gatna og annara gatnamannvirkja. Því verður ekki séð að Hafnarfjarðarbær hafi lagalega heimild til að skuldbinda sig í samningum til þess að ráðstafa gatnagerðargjaldi til annara framkvæmda.
Svæðið var friðlýst árið 1978 (sbr. auglýsingu nr. 189/1978 í Stjórnartíðindum) og við teljum óásættanlegt að ekki sé staðið betur að vernd þess en raun ber vitni. Friðlýsingar eiga að tryggja að helgunarsvæði séu virt. Engin landvarsla er á svæðinu en landverðir Umhverfisstofnunnar heimsóttu svæðið haustið 2018 og gerðu ástandsmat. Í matsgögnum kemur fram að svæðið er afar vinsælt til útivistar og er viðhald göngustíga á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Þess má geta að í skýrslu Ólafs K. Níelsen (1993), sem hefur rannsakað fuglalíf í kringum tjörnina, að fuglalíf þar er mjög fjölbreytt. Flórgoðinn er meðal þeirra fugla sem verpa við Ástjörn.
Það er von okkar að Hafnarfjarðarbær leggi sig betur fram við að vernda umhverfi Ástjarnar, viðhalda göngustígum og setja upp skýr fræðslu- og leiðbeiningaskilti. Nauðsynlegt er að girða Ástjörn af og loka fyrir aðkomu að henni á varptíma frá 1. maí til 15. júlí (en sérfræðingar hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að slíkt sé gert). Einnig þarf að hafa vörslu á svæðinu og þá sérstaklega á varptíma. Loks þarf að koma fyrir hreiðurstæði til að laða frekar að þá fallegu og sérstæðu fugla sem sótt hafa í Ástjörn.
Með hliðsjón af framansögðu förum við þess hér með á leit að Hafnarfjarðarbær endurskoði leyfi sitt til bygginga í jaðri Ástjarnar.“ - Önnur mál
Guðrún Ásmundsdóttir vekur athygli á því sem er að gerast varðandi hús Einars Benediktssonar í Herdísarvík – talar um að sjórinn sé farinn að grafa undan húsinu sem er sögulega merkilegt. Háskólinn gerir ekkert til að varðveita húsið sem er friðlýst. Þjóðskáldið gaf Háskólanum húsið til varðveislu en það rennur Guðrúnu til rifja að Háskólinn skuli ekki gera betur til að varðveita það. Allt bendir til þess að húsið verði náttúruöflunum að bráð og hverfi í hafið ef ekkert er að gert.
Reynir kveður sér hljóðs og segir frá því að hann hafi skrifað göngubók um Reykjanesskagann og lagt það til við bæjarstjórnina í Þorlákshöfn að gera göngustíga í nágrenni við Herdísarvík.
Margrét mælist til þess að fundurinn álykti um málið og hvetji Háskólann til að láta málið í hendur sveitarstjórnar Ölfuss og fái sveitarfélaginu húsið til varðveislu:
„Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands hvetur Háskóla Íslands til að bregðast strax við þeirri óheillavænlegu þróun sem á sér stað í Herdísarvík þar sem landbrot vegna ágangs sjávar er í þann mund að grafa undan húsi Einars Benediktssonar. Ef ekkert er að gert er hætta á því að húsið hverfi í hafið innan tíðar. Þjóðskáldið gaf Háskólanum húsið til varðveilsu og það er friðlýst. Hér eru því ómetanleg menningarverðmæti í húfi. Sveitarstjórn Ölfuss hefur lýst áhuga á að taka húsið í sína umsjá og annast viðhald þess og rekstur ef vilji er til slíks af hálfu Háskóla Íslands.“
Ályktunin er samþykkt með lófataki.
Síðan er fundinum slitið.