Stjórnarfundur 27. janúar 2024

posted in: Fundargerðir 2024 | 0

Annar stjórnarfundur 12. stjórnar NSVE var haldinn 27.01. 2024 að heimili Helenu Mjallar Jóhannsdóttur að Austurgötu 29b, Hafnarfirði. Fundurinn hófst klukkan 11:00 með dægilegum veitingum húsráðanda eins og endranær.
Mættir voru stjórnarmeðlimirinir Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir, Margrét Pétursdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir og Stefán Erlendsson.
Helena Mjöll formaður setti fund og eftirfarandi mál voru rædd:

  1. Frágangur vegna bankareiknings NSVE
    Eydís hnykkti á því að ganga þurfi frá fundargerð síðasta aðalfundar frá 30. nóvember 2022 og fyrsta stjórnarfundi sitjandi stjórnar frá x. febrúar 2023 – þar sem stjórnin skipti með sér verkum – svo að gjaldkeri og prókúruhafi geti notað bankareikning samtakanna en aðgangur að reikningnum hefur verið lokaður síðastliðin tvö ár af „tæknilegum“ ástæðum. Fram kom að rúmlega tvær milljónir króna eru inni á reikningnum.
  2. Fundargerðir og heimasíða
    Umræðu um stöðu mála varðandi fundargerðir, heimasíðu og fésbókarsíðu samtakanna var fram haldið eftir óformlegt spjall um þetta efni milli stjórnarmanna undanfarna viku. Eftir að Björn Pálsson sagði sig úr stjórninni hefur verið svolítill losarabragur á fundargerðum – en þau mál voru í góðum höndum allan þann tíma sem krafta Björns naut við. Fundargerðirnar eru allar til en þær hafa ekki verið límdar inn í þar til gerða fundargerðabók sem Björn skildi eftir sig og ekki heldur birtar á heimasíðunni eins og vera ber. Stefán, sem tók við stöðu ritara á síðasta stjórnarfundi, sagðist mundu kippa þessu í liðinn og Helena Mjöll verður honum innan handar. Stefán lofaði einnig að vera duglegri við að skrifa stöðuuppfærslur á fésbókarsíðu samtakanna þegar tilefni þykir til. Ellert Grétarsson, fyrrverandi stjórnarmaður í samtökunum, hefur gefið vilyrði fyrir því að setja fundargerðirnar inn á heimasíðuna og fleira efni ef/þegar því er að skipta.
    Að sjálfsögðu voru allir sammála um að mikilvægt væri að það starf sem unnið er á vettvangi stjórnarinar – og samtakanna – væri sýnilegt og aðgengilegt þeim sem hafa áhuga á að kynna sér og/eða fylgjast með því sem er verið að gera.
  3. Coda Terminal – breytt staða við Straumsvík
    Rætt var stuttlega um Coda Terminal og hugsanlegar breytingar varðandi starfsemi fyrirtækisins við Straumsvík. Stjórnarmenn voru á einu máli um að við þyrftum að halda vöku okkar og fylgjast vel með því sem er að gerast þar og gæti verið framundan.
  4. Framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins Voga til Landsnets fyrir Suðurnesjalínu 2
    Eydís kvaddi sér hljóðs um Suðurnesjalínu 2. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði nýverið kröfu NSVE og Hraunavina um að afturkalla framkvæmdaleyfi Landsnets til að leggja línuna í lofti. Að mati samtakanna er ekki farið að ráðum fagaðila um staðsetningu línunnar norðan Reykjanesbrautar. Fyrir skömmu fór rafmagn af Suðurnesjalínu 1 vegna þrumu- og eldingaveðurs. Til stendur að reisa Suðurnesjalínu 2 í hærri möstrum en línu 1 sem þýðir einfaldlega að eldingahættan eykst. Besti kosturinn er einfaldlega að leggja línuna í jörð. Stjórnvöldum ber að legga álit Skipulagsstofnunar til grundvallar framkvæmdaleyfi. Úrskurðarnefndin virðist aftur á móti taka lög um raforkuöryggi og hagkvæmni fram yfir umhverfislög.
  5. Starfið framundan
    Varðandi starfið framundan er áformað að halda aðalfund samtakanna seinni partinn í apríl á þessu ári.
  6. Önnur mál
    Stjórnarfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun um Suðurnesjalínu 2:
    „Stjórn NSVE harmar að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skyldi hafna kröfu samtakanna, Hraunavina og Landverndar um að afturkalla framkvæmdaleyfið sem sveitarfélagið Vogar veitti Landsneti til að leggja Suðurnesjalínu 2 í lofti við hliðina á Suðurnesjalínu 1 sunnan Reykjanesbrautar. Jarðvísindamenn mæla með því að línan sé lögð norðan Reykjanesbrautar vegna þess að Suðurnesjalína 1 er á sprungusvæði en svæðið nær Reykjanesbraut bæði sunnan og norðan brautarinnar er það ekki. Öruggast væri að leggja línuna í jörð norðan Reykjanesbrautar sem myndi þannig virka eins og varnargarður fyrir strenginn. Auk þess er ljóst að allt verður lagt í sölurnar til að verja Reykjanesbraut fyrir hraunrennsli ef eldgos kemur upp á svæðinu. Fyrirhuguð 220 kV loftlína við hlið Suðurnesjalínu 1 yrði reist í hærri möstrum og því viðkvæmari gagnvart hættunni sem stafar af eldingum en lægri línan. Rafmagnið fór nýverið af Suðurnesjalínu 1 vegna þrumu- og eldingaveðurs. Það getur ekki verið besta leiðin til að auka raforkuöryggi að reisa aðra línu samsíða henni sem er enn viðkvæmari fyrir eldingum.
    Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands skora á stjórnvöld, Landsnet og sveitarfélög á línuleiðinni að gaumgæfa lagningu jarðstrengs norðan Reykjanesbrautar til að auka raforkuöryggi á Suðurnesjum. Sá möguleiki hefur aldrei verið kannaður.“
    Fundi slitið kl. 13:00
    Stefán Erlendsson/ritari