Þriðji stjórnarfundur 12. stjórnar NSVE var haldinn 19.04. 2024 að heimili Helenu Mjallar Jóhannsdóttur að Austurgötu 29b, Hafnarfirði. Fundurinn hófst klukkan 17:30 með rausnarlegum veitingum húsráðanda eins og jafnan áður.
Mættir voru stjórnarmeðlimirinir Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir og Stefán Erlendsson.
Helena Mjöll formaður setti fund og eftirfarandi mál voru rædd:
- Carbfix
Staða Carbfix var rædd stuttlega í framhaldi af fyrri umræðum um fyrirtækið og starfsemi þess. Bandarískir fræðimenn hafa bent á að niðurdæling á koltvísýringi geti ekki leyst nema 1% af útblástursvanda heimsins og því sé full mikil bjartsýni að binda miklar vonir við þessa aðferð. Eins virðast vera margir óvissuþættir í þessu sambandi s.s. varðandi berggrunninn, grunnvatn og grunnvatnsflæði. Spurt var: Hvaða vit er í því að taka við úrgangi frá öðrum þjóðum sem hefur verið fluttur langa leið milli landa með ærnum tilkostnaði og tilheyrandi mengun og dæla honum niður í bergrunninn hér hjá okkur og réttlæta það á þeim forsendum að slíkt gæti falið í sér framlag okkar til þess að draga úr útblæstri koltvísýrings á heimsvísu? - Framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2
Stjórn NSVE þarf að ákveða hvort samtökin leggi fram kæru vegna nýlegs úrskurðar Kærunefndar umhverfismála varðandi framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að náttúruverndarsamtök séu ekki aðilar máls á þeim forsendum að þau eigi ekki lögvarðra hagsmuna að gæta. Hörður Einarsson lögfræðingur, sem hefur rekist í ýmsum lögfræðimálum fyrir NSVE, telur að þetta sé rangt og fullt tilefni til að kæra úrskurðinn og sækja málið fyrir dómstólum. Samtökin eiga umtalsverða fjármuni í sjóði til að standa straum af kostnaði við slíka málssókn. Stefnt er að því að fá Hraunavini til liðs við okkur í þessum málarekstri. - Starfið framundan
Á síðasta fundi var talað um að halda næsta aðalfund samtakanna seinni partinn í apríl en fyrirvarinn er orðinn of stuttur og því ákveðið að hafa fundinn mánuði seinna eða 23. maí á þessu ári. Ákveðið var að freista þess að fá tvo fyrirlesara til að fjalla um tvö málefni sem hafa verið í deiglunni:
(i) nýjustu vendingar stjórnvalda í tengslum við rammaáætlun og meintan aðsteðjandi orkuskort í landinu sem muni tefja fyrir orkuskiptum vegna hnattrænnar hlýnunar undir kjörorðinu „skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála“; og
(ii) Reykjanesfólkvang sem virðist vera orðinn afskiptur og hornreka. - Önnur mál
Stjórnarfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun um Carbfix og niðurdælingu á koltvísýringi:
„Stjórn NSVE telur fulla ástæðu til að staldra við og gaumgæfa hvort niðurdæling á koltvísýringi á vegum Carbfix, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sé ákjósanleg leið til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum. Aðferðin sem notuð er felst í því að fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu og dæla honum niður í jörðina þar sem hann umbreytist í stein. Sérfræðingar í loftslagsmálum hafa djúpstæðar efasemdir um gildi þessarar aðferðar og telja að eina raunhæfa leiðin til að minnka kolefnislosun sé að stórminnka notkun jarðefnaeldsneytis. Einfaldar hátæknilausnir á borð við kolefnisföngun muni ekki leysa vandann og jafnvel kynda undir óraunsærri bjartsýni fólks. Eins virðast vera margir óvissuþættir samfara niðurdælingu koltvísýrings hér á landi s.s. hvaða áhrif hún muni hafa á berggrunninn og grunnvatnsflæði á þeim landsvæðum sem notuð verða í þessum tilgangi til lengri tíma litið. Loks vakna spurningar um hvort eða hvaða ósnortnu landi skuli raskað í þessu sambandi.
Við hljótum því að spyrja: Er eitthvert vit í því að taka við úrgangi frá öðrum þjóðum sem hefur verið fluttur langa leið milli landa með ærnum tilkostnaði og tilheyrandi mengun og dæla honum niður í bergrunninn hér hjá okkur og réttlæta það á þeim forsendum að slíkt gæti falið í sér framlag okkar til þess að draga úr útblæstri koltvísýrings á heimsvísu?“
Fundi slitið kl. 19:15
Stefán Erlendsson/ritari