Eldvörp: Fórna fágætri náttúruperlu á heimsvísu

posted in: Video | 0

Náttúruperlan Eldvörp á Reykjanesi er algjörlega einstök. Úr einum aðalgígnum í miðri gígaröðinni, sem er um 10km löng, og í hrauninu umhverfis, rýkur jarðhitinn eins og gosi sé nýlokið. Gígarnir mynduðust hins vegar í mikilli eldgosahrinu sem skók Reykjanesið á 13. öld. Jarðgufan sveipar umhverfið allt mikilli dulúð og gerir þessa náttúruperlu svo kynngimagnaða að erfitt er að lýsa því með orðum. Ég reyni að koma því til skila í myndbandinu sem hér fylgir en auðvitað jafnast ekkert á við upplifunina sjálfa – að vera á staðnum.

Því miður verður þetta magnaða svæði brátt eyðileggingunni að bráð þar sem Grindavíkurbær hefur veitt HS Orku leyfi til tilraunaborana á svæðinu þrátt fyrir neikvæða umsögn Skipulagsstofnunar varðandi þau óafturkræfu umhverfisáhrif sem þær munu hafa í för með sér. Gert er ráð fyrir fimm risastórum borteigum nánast ofan í gígaröðinni, sem hver og einn verður á bilinu  4 – 5 þúsund fermetrar að stærð.

Reykjanes Geopark var stofnaður af Grindavíkurbæ og HS Orku. Er jarðvanginum ætlað að hafa „fræðslugildi vegna fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja“ svo vitnað sé beint í talsmann jarðvangsins. Bæjarstjórinn í Grindavík talar einnig í nýlegu viðtali um „uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðslu sem byggir á einstökum jarðminjum“.
Við falskan tón kveður í þessum yfirlýsingum því á sama tíma gaf Grindavíkurbær HS Orku grænt ljós til að hefja rannsóknarboranir ofan í  merkilegustu jarðminjum svæðisins. Menn segja eitt og gera annað, eftir hentugleikum.

Ellert Grétarsson.