Aðalfundur 12. júní 2024

posted in: Fundargerðir aðalfunda | 0

Aðafundur NSVE haldinn í Samfylkingarsalnum í Hafnarfirði miðvikudaginn 12. júní 2024

Helena Mjöll Jóhannsdóttir formaður NSVE setur fundinn, skipar sjálfa sig fundarstjóra og Stefán Erlendsson fundarritara, og svo er gengið til dagskrár.

Fundurinn er fámennur og Helena Mjöll ákveður að breyta svolítið uppröðun dagskrár (með samþykki fundarins).

1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana

Formaðurinn flytur skýrslu stjórnarinnar frá síðastliðnum tveimur árum þar sem ekki var haldinn aðalfundur á síðasta ári. Skýrslan, sem var samþykkt með lófataki, verður birt í heild sinni á heimasíðu og/eða fésbókarsíðu NSVE og efni hennar því ekki rakið hér. Umræður um skýrsluna voru færðar undir önnur mál.

2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu

Þar sem ekki var haldinn aðalfundur á síðasta ári eru ársreikningar fyrir 2022 og 2023 einnig lagðir fram saman. Eydís Franzdóttir, gjaldkeri NSVE, gerði skilmerkilega grein fyrir tekjum og gjöldum og fjárhags/eignastöðu samtakanna sem er góð. Tekjur af félagsgjöldum eru óverulegar eins og verið hefur undanfarin ár en styrkur frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti hefur verið búhnykkur fyrir samtökin. Eydís sagði frá því að framundan væru fyrirhuguð málaferli með aðkomu NSVE vegna úrskurðar ÚUA um kæru NSVE, Hraunavina og Landverndar á framkvæmdarleyfi Sveitarfélagsins Voga fyrir Suðurnesjalínu 2 sem munu kosta samtökin umtalsverða fjármuni. Áfram verður sótt um þá styrki sem í boði eru.

3. Kjör stjórnar og skoðunarmanns

Helena Mjöll, Eydís, Guðrún og Stefán gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og Davíð Arnar Stefánsson býður sig einnig fram í aðalstjórn. Margrét er tilbúin að sitja áfram í stjórn sem varamaður. Reynir Ingibjartsson og Þorvaldur Örn Árnason bjóða sig einnig fram sem varamenn.

Kosningin er afgreidd með lófataki.

Stjórnina skipa: Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Eydís Franzdóttir, Stefán Erlendsson, Davíð Arnar Stefánsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Margrét Pétursdóttir, Reynir Ingibjartsson og Þorvaldur Örn Árnason.

Í stað Reynis Ingibjartssonar sem tekur sæti í stjórninni var Guðni Gíslason kjörinn skoðunarmaður reikninga.

4. Breyting á dagskrá: Þorvaldur Örn Árnason líffræðingur og kennari flytur erindi sitt um þjóðgarð á Reykjanesskaga

Í upphafi máls síns býður Þorvaldur Örn fundarmönnum að „grípa fram í“ og spyrja eða gera athugasemdir undir flutningnum. Meginniðurstaða hans að undangenginni skoðun á málinu og í ljósi persónulegrar reynslu hans af setu í stjórn Reykjanesfólkvangs er sú að affarasælast væri að breyta Reykjanesfólkvangi í þjóðgarð að fyrirmynd Vatnajökulsþjóðgarðs. Slíkt hefði ótvíræða kosti hvað varðar alla stjórnsýslu, skipulag, umsjón og framkvæmdir. Reykjanesþjóðgarður yrði þar með næststærsti þjóðgarður landsins.

Uppbyggilegar umræður fara fram um erindi Þorvalds Arnar. Reynir Ingbjartsson er flestum hnútum kunnugur varðandi Reykjanesfólkvang og Helena Mjöll þekkir málefnið einnig vel.

Þorvaldur Örn upplýsti að framtíð Reykjanesfólkvangs væri óráðin. Fjárframlög til fólkvangsins á yfirstandandi ári takmörkuðust við 6 mánuði.

Í umræðunni kom fram að fólkvangsfyrirkomulagið hefði ekki reynst vel á Reykjanesi vegna þess hveru mörg sveitarfélög koma að rekstri hans. Akureyrarfólkvangur gengi aftur á móti mjög vel og þætti vel heppnaður en Akureyrarbær einn stendur að honum …

Reynir Ingibjartsson sat um tíma í stjórn Reykjanesfólkvangs og sagðist hafa litið á sig sem fulltrúa fólksins en ekki sveitarfélaganna eða annarra – og að sér hafi að endingu verið fleygt út úr stjórninni.

Reynir bendir á að komin sé upp ný og breytt staða varðandi fólkvanginn vegna eldsumbrota á Reykjanesi. Hann leggur til að leitað verði hófanna um upplýsingar hjá stjórnendum Snæfellsnesþjóðgarðs varðandi fyrirmyndir að skipulagi á náttúru Reykjaness. Og nefnir að einnig væri ráð að fá jarðvísindamenn og aðra sérfræðinga til skrafs og ráðagerða. Loks setur hann fram hugmynd/tillögu um að Reykjanesskaga verði skipt í tvennt – milli atvinnustarfsemi og friðunar.

Í þessu samhengi stingur Davíð Arnar upp á því að fundurinn álykti um stofnun þjóðgarðs á Reykjanesi. Ákveðið var að ræða þessa ályktun og tvær aðrar í lok fundarins.

Erindi Þorvalds Arnar verður birt í heild sinni á heimasíðu NSVE.

5. Önnur mál.

Ýmislegt var rætt undir þessum lið en meginefnið var fyrirhuguð niðurdæling Coda Terminal á koltvísýringi í næsta nágrenni við íbúabyggðina á Völlunum vestast í Hafnarfirði.

Ragnar Þór Reynisson og Arndís Kjartansdóttir, fulltrúar nýstofnaðs „Vinnuhóps vegna CT“ – aðgerðahóps sem hyggst beita sér gegn áformum Coda Terminal – komu sérstaklega á fundinn til þess að kynna sig og málefnið. Að þeirra sögn var markmiðið með stofnun hópsins að skapa umræðu um og kalla eftir frekari kynningu á málefninu og krefjast íbúakosningar um þessi fyrirhuguðu áform. Íbúar á Völlunum eru áhyggjufullir en vita lítið sem ekkert um málið og mótmæla því að svona atvinnustarfsemi fari fram í næsta nágrenni við íbúðarhverfi.

Út frá þessari kynningu spruttu líflegar umræður um umhverfismat, vatnsnotkun, áhrif niðurdælingar á lífríkið, vatnsstöðu, grunnvatnsflæði og margt fleira. Ragnar Þór og Arndís sögðust aldrei hafa tekið þátt í svona starfi áður og leituðu ráða um hvernig best væri fyrir þau að bera sig að sem býbakaðir aðgerðasinnar.

Niðurstaða fundarins var sú að gott væri að byrja á því að halda opinn íbúafund með fulltrúum Coda Terminal og Hafnafjarðarbæjar – helst innan vikutíma eða svo – og ræða málið opinskátt og á uppbyggilegan hátt.

6. Ályktanir aðalfundar.

Ályktun um stofnun Reykjanesþjóðgarðs:

„Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands skora á Alþingi og ríksstjórnina að breyta Reykjanesfólkvangi og Bláfjallafólkvangi í þjóðgarð og aðliggjandi svæðum verði bætt þar við eins og um semst, svo sem ríkisjörðinni Herdísarvík. Yrði þannig til næststærsti þjóðgarður landsins með ótal náttúruperlur innanborðs, í seilingar fjarlægð frá þéttbýlasta svæði landsins og alþjóðaflugvelli. Ljóst er orðið að tugur sveitarfélaga getur ekki með góðu móti rekið saman fólkvang, þó það friðlýsingarform henti vel fyrir útivistarsvæði einstakra sveitarfélaga. Reykjavík, sem hefur frá upphafi verið kjölfestan í Reykjanesfólkvangi, ætlar að hætta þar þátttöku og mörg önnur sveitarfélög að fylgja á eftir. Þar stefnir í óefni og þarf að bregðast skjótt við.“

Stjórn NSVE var falið að álykta sérstaklega um (i) samning milli Hafnarfjarðarbæjar og HS Orku um orkuvinnslu á Krýsuvíkursvæðinu sem tilkynnt var um nýverið öllum að óvörum og (ii) fyrirhugaða niðurdælingu Coda Terminal á koltvísýringi við Hafnarfjörð í ljósi þess að kominn er upp kurr meðal íbúa á Völlunum sem hafa stofnað sérstakan vinnuhóp – „Vinnuhóp vegna CT“ – og krefjast íbúakosningar í bæjarfélaginu um þessi áform.

Síðan er fundinum slitið.