Orkuveita Reykjavíkur hefur horft hýru auga til Bitru og Þverárdals á Hengilssvæðinu en þar er að finna mikla náttúrufegurð. Bitra var flokkuð í verndarflokk í 2. áfanga Rammaáætlunar en Þverárdalur í biðflokk. Eins og vænta mátti vill OR samt sem áður virkja á þessum svæðum. Orkufyrirtækin hafa lagt til að þessi svæði verði tekin til umfjöllunar í 3ja áfanga Rammaáætlunar, að sjálfsögðu með það fyrir augum að koma þeim í orkunýtingarflokk. Takmarkið virðist vera að útrýma verndarflokknum – engu skal eirt.
Á þessu svæði er mikil náttúrufegurð, eins og áður segir. Býður það upp á ótal möguleika til útivistar og gönguferða en hér skal sjónum sérstaklega beint að Hagavíkurlaugum, einnig nefndar Ölfusvatnslaugar, og Kýrgili.
Hægt er að nálgast svæðið eftir nokkrum leiðum, t.d. með því að beygja af Hellisheiðinni inná slóða hjá skilti sem vísar á Ölkelduháls. Þaðan er hægt að halda innúr og leggja bílnum við borholu skammt vestan Ölkelduhnúks og ganga þaðan niður í Þverárdal. Þaðan liggur mögnuð gönguleið eftir Kýrgili inn að Hagavíkurlaugum.
Í skýrslu sem jarðvísvísindamennirnir Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson hafa skrifað um jarðminjar á háhitasvæðum segir eftirfarandi um Bitrusvæðið:
„Bitra er í austurhlíðum Hengils norður frá Kýrgili og nær austur yfir Þverárdal. Brattar móbergshlíðar Hengils einkenna svæðið ásamt Þverárdal en frá honum safnast Ölfusvatnsá. Jarðhiti í Kýrgili og við gilkjaftinn einkennist af gufuhverum og leirugum vatnshverum en einnig eru þar ölkeldur. Hagavíkurlaugar undir austurhlíðum Hengils eru kolsýruhverir og heitar ölkeldur með miklu kalkhrúðri. Þar eru einnig leirgoshver og leirugir vatnshverir sem mikið hafa breyst á undanförnum árum. Mikið af hveraörverum er í afrennsli. Hverasvæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lið d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Svæðið er óraskað en norðurmörk þess liggja að vinnslusvæði Nesjavalla.“
Í Hagavíkurlaugum eru gamlir goshverir, útkulnaðir að mestu. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Úr laugunum rennur lækur niður í Þverárdal. Litasinfónían á svæðinu er engu lík eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Texti og ljósmyndir: Ellert Grétarsson.