Stóra-Eldborg

posted in: Krýsuvík, Náttúruperlur | 0

storaeldborg
Undir suðurhlíðum Geitahlíðar í Krýsuvík er að finna einn af tignarlegustu eldgígum Reykjanesskagans. Nefnist hann Stóra-Eldborg til aðgreiningar frá smærri ættingja neðar í hrauninu, Litlu –Eldborg.

Stóra-Eldborg er einkar formfagur gjallgígur, all tilkomumikill og um 20 metra djúpur. Hann er skammt frá Suðurstrandaveginum og því hægt um vik að skondrast upp á hann til að skoða þessa fallegu náttúrusmíð. Einnig er áhugavert að rölta upp skarðið norðan við gíginn, upp á Geitahlíðina sjálfa til að virða fyrir sér eldborgina ofan frá.  Þaðan er prýðisgott útsýni til suðurs yfir hraunflákana og langt á haf út. Sömuleiðis yfir syðsta hluta Krýsuvíkur. Þarna getur maður gert sér í hugarlund hvernig kvikustrókarnir hafa teygt sig til himins upp úr gígunum og glóandi hraunstraumarnir runnið fram af Krýsuvíkurbjarginu en þrjár myndarlegar hrauntraðir liggja frá eldborginni.

Hraunið úr Eldborg er mjög ólivínríkt helluhraun, segir á vef Íslenskra orkurannsókna um þetta náttúrufyrirbæri. Þar segir einnig að aldur hraunsins sé ekki þekktur en miðað við þykkan jarðveg, framburð á því og áhrif frostveðrunar á yfirborð þess gæti það verið 7000-8000 ára. Nánasta hliðstæða við Stóru-Eldborg er Búrfell ofan við Hafnarfjörð.

Texti og myndir: Ellert Grétarsson.