Katlahraun er syðst í hinu víðfema eldstöðvarkerfi sem kennt er við Krýsuvík og nær frá suðurströndinni inn að Búrfelli í norðaustri. Í Katlahrauni er landslag allt mjög tröllslegt og tilkomumikið með tignarlegum hraunborgum, hellisskútum, hraunsveppum og fleiri skoðunarverðum jarðmyndunum.
Þessi einstaka hraunmyndun er um tvö þúsund ára gömul og á uppruna sinn í Moshólum, tveimur gígum norðan við hraunið sem nú hafa verið eyðilagðir með efnistöku og vegagerð en Suðurstrandarvegurinn svokallaði liggur á milli þeirra. Katlahraun er vestan við hina fornu verstöð sem kennd er við Selatanga og er ekið þangað eftir vegspotta frá Suðurstrandaveginum, nokkru austan við Ísólfsskála.
Þunnfljótandi hraun hefur runnið út í grunna sjávarvík og þar hefur myndast gríðarstór hrauntjörn. Þessi myndun er ekkert ósvipuð þeirri er finna má í Dimmuborgum nema hér vantar gjallið. Hraunið hefur hvellsoðið þegar það komst í snertingu við sjóinn sem skýrir þær myndanir sem að ofan eru nefndar. Rauðglóandi kvikan hefur safnast fyrir í víkinni og yfirborð hennar storknað uns hún náði að hlaupa undan bungunni til sjávar þannig að hrauntjörnin tæmdist og þakið seig niður.
Hér eru nokkrir skútar og hellar sem vermenn á Selatöngum nýttu til ýmis konar iðju eins og nöfn þeirra benda til, t.d. Smíðahellir, Sögunarhellir og Mölunarkór sem einnig var nefndur Skessuhellir eftir skessu einni sem hér átti heimkynni, samkvæmt gamalli þjóðsögu.
Það er um að gera að gefa sér góðan tíma til að rölta hér um í rólegheitunum og skoða þessa undraveröld með sínum kynjamyndum og kynngimögnuðu landslagi.
Einnig er um að gera að koma við á Selatöngum en þar eru merkilegar, friðlýstar minjar um sjósókn fyrri tíma. Þar má sjá rústir sjóbúða, verkunarhúsa, fiskbyrgja og fleiri mannvirkja. Rústirnar eru líklega um tveggja alda gamlar og hafa eflaust tekið breytingum í gegnum tíðina. Síðast var haft í veri á Selatöngum árið 1884 en staðurinn var í nokkur ár eftir það nýttur til selveiða. Krýsuvíkurbændur gerðu út frá Selatöngum auk þess sem menn frá öllum landshornum lágu þar í veri. Þá mun Skálholtsstóll hafa gert um tíma út frá staðnum. Ekki er hægt að segja með óyggjandi hætti hversu margir menn hafi verið í verinu á hverjum tíma en gömul sjóróðravísa gefur til kynna að þeir hafi verið yfir 70.
Sagan segir að á Selatöngum hafi draugur að nafni Tanga-Tómas gengið ljósum logum. Var hann talinn yfirleitt meinlítill en átti það þó til að verða mjög fyrirferðarmikill þegar sá gállinn var á honum. Sagt er að hann sé enn á sveimi og hefur hann átt til að bregða fæti fyrir þá sem leið hafa átt um Selatanga.
Texti og ljósmyndir: Ellert Grétarsson.