Þorbjarnarfell er bæjarfjall Grindvíkinga og blasir við til hægri handar þegar ekið er suður Grindavíkurveginn. Uppi á fjallinu eru áberandi fjarskiptamöstur en þar er einnig að finna nokkuð stórbrotið náttúrufyrirbæri. Efri hluti fjallsins er nefnilega klofinn í tvennt af feiknamikilli misgengisgjá er nefnist Þjófagjá.
Fellið er ekki mjög hátt, telst vera 243 m.y.s. og því ekki erfitt uppgöngu fyrir fólk í þokkalegu formi. Þorbjarnarfell er í miklu uppáhaldi hjá mér enda fallegt fjall og aðgengilegt svona nálægt vegi og steinsnar að heiman. Nokkrar leiðir eru upp á fjallið en algengast er að gengið sé á það norðanmegin frá Baðsvöllum, þ.e. þeim megin sem skógræktarreiturinn er. Þar er prýðisgott útivistarsvæði í skjóli við trén. Vel mörkuð slóð liggur upp hlíðina.
Þegar upp á fjallsbrúnina er komið er stefnan tekin á fjarskiptamöstrin en hægra megin við þau er Þjófagjáin. Undir hlíðinni er gígur fjallsins og þar ofan í má sjá leifar lítillar braggaþyrpingar sem tilheyrði hernámsliðinu á stríðsárunum. Hlaðinn arinn sem áður var umlukinn veggjum í bragga offiséranna stendur sem einskonar minnisvarði um liðna tíð.
Stefnan er síðan tekin upp brekkuna og stefnt á hamravegginn hægra megin við fjarskiptamöstrin.
Þar komum við í gjána og við okkur blasa háir og tignarlegir hamraveggir. Göngin sem mæta okkur fyrst eru lokuð í annan endann en engu að síður er forvitnilegt að skoða sig þar um, snúa við, fara til hægri þegar upp úr gjánni er komið og skoða framhald hennar.
Þorbjarnarfell virðist vera með eldri fjöllum á Reykjanesskaga, að minnsta kosti að hluta til. Bólstrabergið er ráðandi í bland við móberg þannig að það virðist að einhverju leyti vera frá fyrra ísaldarskeiði, en jafnframt því síðara. Það er því að nokkru leyti eldra en nágranninn Fagradalsfjall, sem er um tíu þúsund ára gamalt. Þorbjarnarfell eða hluti þess hefur því hlaðist upp við eldgos undir jökli.
Gömul þjóðsaga tengist gjánni, sem heitir Þjófagjá eins og áður sagði. Samkvæmt henni áttu fimmtán þjófar að hafa hafst þar við en þeir lögðust á fé Grindvíkinga. Ekki tókst að hafa hendur í hári þeirra fyrr en bóndasonurinn á Hrauni gekk til liðs við þá undir fölsku flaggi.
Eitt sinn er þeir fóru til baða í lauginni á Baðsvöllum var bóndasyninum falið að gæta fata þeirra. Hann sneri við skyrtuermum og brókaskálmum og hljóp síðan til bæja. Þjófunum varð svo tafsamt að komast í fötin að þeir gátu engan veginn náð honum. Þustu þá byggðamenn að og handsömuðu þjófana sem síðan voru hengdir undir Hagafelli, austan Þorbjarnarfells, í klettum sem síðan hafa verið nefndir Gálgaklettar.
Þegar komið er upp úr gjánni sunnanmegin blasir við gott útsýni yfir Grindavík. Sauðaþjófarnir hafa átt auðvelt með að fylgjast með mannaferðum þar ofan frá. Hér er hægt að halda áfram niður af fjallinu, beygja á hægri hönd og fylgja fallegri gönguleið meðfram fjallinu við hraunjaðarinn að vestan uns komið er aftur að bílastæðinu við Selskóg. Þeir sem vilja skoða gjána betur geta auðvitað haldið sömu leið til baka en svo er um að gera að ganga hring á fjallinu og skoða áhugaverðar móbergsmyndanir og kynjamyndir þeirra.
Ljósmyndir og texti: Ellert Grétarsson.