Ályktun baráttufundar um vernd náttúrusvæða á Reykjanesskaga

posted in: Ályktanir | 0

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd stóðu að opnum baráttufundi í Tjarnarbíói þann 30. maí 2012 þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt:

„Baráttufundur um vernd náttúrusvæða á Reykjanesskaga, haldinn í Reykjavík 30. maí 2012, hvetur þingmenn til að endurskoða fyrirliggjandi tillögur rammaáætlunar um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Hellisheiði og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Fundurinn telur virkjanir í og við Reykjanesfólkvang óásættanlegar vegna náttúruverndargildis svæðisins og óvissu sem fylgir jarðhitanýtingu, m.a. er varðar losun brennisteinsvetnis og affallsvatns.

Með jarðhitavirkjunum í og við Reykjanesfólkvang er m.a. gengið gegn áformumum að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Baráttufundurinn krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.“