Landsnet beitir blekkingum

posted in: Ályktanir | 0

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands (NSVE) furða sig á þeim vinnnubrögðum sem Landsnet hefur frammi gagnvart landeigendum á Vatnsleysuströnd og almenningi. Fyrirtækið sæktist nú eftir heimild atvinnuvegaráðherra til að taka landsréttindi þar eignarnámi svo hefja megi framkvæmdir við háspennulínu eftir endilöngum Reykjanesskaga. Landsnet reynir með blekkingum að sannfæra almenning um að umræddar háspennulínur tengist ekki álveri í Helguvík heldur sé henni ætlað að tryggja afhendingaröryggi raforku á svæðinu.

Til þess að geta farið í eignanám á þeim eignalöndum sem fyrirhugað lína á að liggja yfir þurfa að liggja ríkir almannahagsmunir til grundvallar. Landsnet reynir því að láta líta svo út að fyrirhugaðar línur hafi ekkert að gera með einkaframkvæmdir álfyrirtækis í Helguvík. Reyndin er hins vegar önnur eins og kemur fram í hagkvæmnimati vegna verkefnisins (liður 2.4). Þar er arðsemiskrafa reiknuð miðað við 70% stórnotendur og 30% dreifiveitur. Þar með staðfestist að Suðurnesjalína er 70% stóriðjulína og ekki ætluð nema að 30 prósentum til flutnings á rafmagni í almannaþágu. Þar með staðfestist einnig að 220 kV háspennulína, sem Landsnet hyggst reisa ásamt 132kV línu, er ekki framkvæmd í almannaþágu. Svo öflug háspennulína hefur flutningsgetu langt umfram almenna raforkuþörf á svæðinu og er því ekkert annað en stóriðjulína. Orkuöflun fyrir álverið í Helguvík hefur lengi verið í uppnámi og ekkert sem bendir til að þau mál leysist á næstunni. Þess vegna er það algjört frumhlaup af hálfu Landsnets að óska núna eftir eignarnámi á landi til að geta reist háspennulínu fyrir álver sem óvíst er að muni rísa.

Landsnet ætlar því að sækja um heimild til eignarnáms í þágu einkaframkvæmda og brjóta þannig freklega gegn eignarrétti einstaklinga, sem þó hafa boðið fyrirtækinu annan kost þ.e. að leggja jarðstrengi í stað loftlínu. En fyrirtækið hefur í engu virt óskir landeiganda og veður áfram með hausinn á undan sér.

Landnet hefur ítrekað reynt að beita blekkingum í tengslum við þessar framkvæmdir, t.d. þegar það reyndi að læða því inn í umhverfismat að orkuþörf álversins í Helguvík væri 435 megawött í stað 625 megavatta. Þá hafa forsvarsmenn Landsnets stórýkt kostnaðarmuninn á loftlínum og jarðstrengjum, þrátt fyrir að til séu gögn sem sýna fram á annað. Fullyrðingar Landsnets um að háspennulínur með yfir 100kV spennu séu almenn lagðar sem loftlínur, bæði hér á landi, í nágrannalöndum okkar og víðar um heiminn, eru einnig tilhæfulausar. Ef Danmörk er tekin sem dæmi eru allar nýjar háspennulínur þar lagðar í jörð í allt að 400kV strengjum.

Landsnet er að stærstum hluta í eigu opinberra orkufyrirtækja. Þær aðferðir sem fyrirtækið beitir til að ná fram vilja sínum hljóta að kalla á að því verði settar skýrar siða- og verklagsreglur í samskiptum þess við almenning. Til að mynda er það ótækt að fyrirtækið geti beitt mútum eins og það gerði gagnvart sveitarstjórn Voga í formi nýrra reiðstíga á reikning fyrirtækisins. Af hverju ætti almenningur í landinu að greiða fyrir nýja reiðstíga í Vogum?