Heilsuspillandi starfsemi nýtur vafans – ekki íbúar

posted in: Ályktanir | 0

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands furða sig á því að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands (HES) skuli hafa veitt „jákvæða umsögn til tímabundinnar undanþágu frá hertum ákvæðum í reglugerð 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti“ að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur.

Mælingar sýna að styrkur brennisteinsvetnis [H2S] frá Hellisheiðarvirkjun á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið og fer oft og langtímum saman yfir ný viðmiðunarmörk sem taka eiga gildi þann 1. júlí næstkomandi.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur lýst þungum áhyggjum af þessari þróun og bent á að nýju viðmiðin dugi varla til. Ástandið er hvað alvarlegast í Lækjarbotnum á austurjaðri höfuðborgarsvæðisins þar sem eru starfandi bæði leik- og grunnskóli. Þá hefur bæjarstjórn Hveragerðis – en Hellisheiðarvirkjun er í túnfæti bæjarfélagsins – fordæmt hina „jákvæðu umsögn“ HES og furðað sig á því að OR skuli ekki hafa nýtt þau úrræði til mengunarvarna sem vitað er um og hafa virkað annars staðar.

Rökstuðningur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir undanþágunni byggist á því að Orkuveita Reykjavíkur vinni að bættum mengunarvörnum Hellisheiðarvirkjunar og að tilraunaverkefni á vegum fyrirtækisins gefi fyrirheit um „varanlega og hagkvæma“ lausn vandans – þannig að „innan skamms“ megi „vænta þess að mengun frá virkjuninni verði undir leyfilegum mörkum skv. reglugerð.“ Í rökstuðningi sínum vísar HES einnig til þess að ekki sé komin nægileg reynsla á „áreiðanleika mælinga“ frá loftgæðamælistöðvum.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands harma þá niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að mengandi og (að öllum líkindum) heilsuspillandi starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði skuli njóta vafans á kostnað íbúa í Hveragerði og austustu byggðum höfuðborgarsvæðisins. Á meðan tilraunaverkefni OR stendur yfir – og þangað til mengunarvandinn hefur verið leystur – eru íbúar í næsta nágrenni Hellisheiðarvirkjunar eins og mýs í búri á tilraunastofu Orkuveitu Reykjavíkur. Slíkt er með öllu óviðunandi!

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands